Kennsluviðurkenning VoN 2022 afhent
Haustþing Verkfræði- og náttúruvísindasviðs var haldið í Grósku í gær, 29. nóvember. Af því tilefni var kennsluviðurkenning sviðsins afhent, en þetta er í fjórða sinn sem það er gert. Kennslunefnd bárust fjölmargar tilnefningar frá deildum, námsbrautum og nemendum sviðsins en þeir tveir kennarar sem hlutu viðurkenninguna að þessu sinni voru þau Bjarni Ásgeirsson, prófessor við Raunvísindadeild og Sigríður Rut Franzdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild.
Í umsögn kennslunefndar um Bjarna segir:
Bjarni Ásgeirsson, prófessor við Raunvísindadeild hlýtur kennsluviðurkenningu VoN fyrir lofsverðan árangur í starfi á sviði kennslu. Hann hefur átt mikinn þátt í uppbyggingu náms í lífefnafræði við Háskóla Íslands, auk þess að hafa kennt þar ýmis skyldunámskeið. Sem kennari leggur Bjarni mikinn metnað í verklega kennslu og sýnir þolinmæði við þjálfun ungra vísindamanna. Það hefur hann gert bæði í námskeiðum og með leiðbeiningu í rannsóknarverkefnum. Hann er afar áhugasamur um kennsluna, ber virðingu fyrir nemendum sínum og er mjög annt um þá. Bjarni kemur efninu vel til skila, er þolinmóður, skipulagður og veitir góða endurgjöf á verkefni sem hjálpa nemendum að skilja efnið betur. Einlægur áhugi Bjarna á velferð nemenda sinna birtist meðal annars í því að hann tekur myndir af öllum sem ljúka námskeiðinu Lífefnafræði 3 og fylgist með þeim í frekara námi og störfum. Bjarni hefur alla tíð verið afar vinsæll meðal nemenda sem skynja hans sterka velvilja og þá alúð sem hann leggur í starf sitt, eins og sjá má af dæmum úr umsögnum um hann í kennslukönnun:
„Ég tel mig vera mjög heppna að hafa fengið að sitja fyrirlestra hjá Bjarna, mjög skemmtilegir tímar og lærdómsríkir! Hann vakti virkilega áhuga minn á námsefninu og ég vona innilega að ég fái að vera aftur nemandi hjá honum í framtíðinni.“
„Einn besti kennari sem ég hef nokkurn tímann haft, hann gerir allt til þess að einfalda efnið og stuðla að góðum skilning. Hann ber óendanlega mikla virðingu fyrir nemendum sínum og talar aldrei niður til manns, manni líður eins og maður sé á sama leveli þegar hann talar við mann. Leggur mikla áherslu á að læra öll nöfn og láta manni líða eins og maður skipti máli. Hann er með hjarta úr gulli.“
Bjarni var staddur erlendis við afhendingu viðurkenningarinnar, en Þóra Kristín dóttir hans tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd.
Í umsögn kennslunefndar um Sigríði Rut segir:
Sigríður Rut Franzdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild hlýtur kennsluviðurkenningu VoN fyrir lofsverðan árangur í starfi á sviði kennslu. Hún er umsjónarkennari tveggja námskeiða sem tekið hafa stakkaskiptum frá því hún tók við þeim. Útgangspunktur Sigríðar er nemendamiðuð kennsla, að stuðla að því að nám eigi sér stað hjá nemendum, og að til að svo geti orðið beitir hún ýmis konar aðferðum. Til að mynda hefur Sigríður þróað efni til vendikennslu í námskeiðum sínum, sem og beitt nálgun lausnarleitar. Hún notar jafnframt fyrirlestraformið en reynir að brjóta fyrirlestra sína upp með öðrum aðferðum sem virkja nemendur og hjálpa þeim að skilja hlutina betur, til dæmis með ýmsum útfærslum á umræðum, tímaverkefnum og hópastarfi í kennslustofunni. Nemendur hennar fá enn fremur tækifæri til að efla færni sína í ýmis konar framsetningu verkefna, t.d. með veggspjöldum og nemendamyndböndum auk annarra hefðbundnari leiða. Sigríður kemur iðulega mjög vel út í kennslukönnun. Í umsögnum nemenda kemur fram að hún sé áhugasöm um kennsluna, skilningsrík gagnvart nemendum og að auðvelt sé að leita til hennar. Hún beiti fjölbreyttum kennsluaðferðum og sé skipulögð í framsetningu námsefnis. Dæmi um umsagnir nemenda eru til að mynda eftirfarandi:
„Hún er alltaf að pæla í hver sé besta leiðin til að fá fólk til að taka þátt og fá áhuga sem mér finnst hafa tekist hjá henni. Virkilega fjölbreytt og skemmtilegt og gaman að það sé ekki alltaf eins verkefni.”
„Hún hvetur mann til að skoða efnið sjálfur og leggur mikið upp úr að gera námsefnið skiljanlegt og er alltaf með flottustu Canvas síðu sem fyrirfinnst í HÍ.”
Kennslunefnd VoN, sem og allt starfsfólk sviðsins óskar þeim Bjarna og Sigríði Rut innilega til hamingju með viðurkenninguna og þennan góða árangur í starfi!