Skip to main content
3. febrúar 2023

Jafnréttisdagar háskólanna fanga jafnréttismál í sinni víðustu mynd

Jafnréttisdagar háskólanna fanga jafnréttismál í sinni víðustu mynd - á vefsíðu Háskóla Íslands

Bakslagið í hinsegin baráttunni, netið, kvenhatur og samsæriskenningar, stéttaskipting í íslensku málsamfélagi, umræður um vald, málsmeðferð stjórnvalda í málum flóttakvenna, jafnréttisvöfflur, upplifun og aðgengi jaðarhópa að háskólanámi, einhverfuhittingur, öráreiti og feminísk sjálfsvörn sem forvörn við kynbundnu ofbeldi er aðeins brot af afar veglegri dagskrá Jafnréttisdaga sem fara fram í háskólum landsins og víðar dagana 6.-9. febrúar.

Jafnréttisdagar eru eitt stærsta samstarfsverkefni háskólanna. Þeir hafa undanfarin tvö ár farið fram á netinu vegna kórónuveirufaraldursins en afar gleðilegt er að geta nú aftur boðið áhugafólk um jafnréttismál velkomið á viðburði í háskólunum sjö. Í boði verða þó einnig fjölmargir viðburðir í streymi.

Jafnréttisdagar hafa frá upphafi verið vettvangur frjórrar, framsýnnar og gagnrýninnar umræðu um jafnréttismál, fjölbreytileika og aktívisma. Dagskráin hefur bæði tekið mið af málefnum líðandi stundar og þeim öru breytingum sem eru í málaflokknum og samfélaginu. Þátttakendur og fyrirlesarar á Jafnréttisdögum koma m.a. úr háskólasamfélaginu, frá ýmsum stofnunum og félagasamtökum, ásamt fleiri aðilum.

Jafnréttisdagar verða settir í hádeginu mánudaginn 6. febrúar með viðburði á vegum samráðsvettvangs jafnréttisfulltrúa háskólanna. Þar munu Bjarni Snæbjörnsson leikari, skemmtikraftur og rithöfundur og Svandís Anna Sigurðardóttir, sérfræðingur í hinsegin- og kynjajafnréttismálum á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, ræða það bakslag sem orðið í hinseginbaráttunni undanfarin misseri. Viðburðurinn verður í beinu streymi og opinn öllum.

Alls verða yfir 20 spennandi stað- og fjarviðburðir á boðstólum á Jafnréttisdögum í ár. Auk áðurnefndra umfjöllunarefna verður rætt um upplifanir háskólanema með erlendan bakgrunn, örugg rými og valdatengsl í kennslu og mikilvægi UN Women á alþjóðavettvangi. Þá verður veitt innsýn í baráttu kynlífsverkafólks, starfsemi félagsins Hinsegin Vesturland og rætt um hvítleikann í íslenskri samtímalist. Enn fremur hyggst fólk sem skilgreinir sig einhverft, hvort sem það hefur greiningu eða ekki, standa fyrir hittingi og kynjafræðinemar í framhaldsskólum ætla ásamt kennurum að ræða kynlífsmenningu, rasisma og kynjafræði. Einnig verða forvarnir og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi gegn ungmennum og kynferðisleg áreitni á vinnumarkaði til umræðu.

Botninn verður svo sleginn í Jafnréttisdaga fimmtudaginn 9. febrúar með ráðstefnunni „Vald, forréttindi og öráreitni“ sem háskólarnir standa saman að. Ráðstefna, sem stendur frá kl. 10-16 fer fram bæði í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og verður einnig send út á netinu.

Dagskrá Jafnréttisdaga má finna hér og á Facebook-síðu daganna

Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga og öll velkomin.

Öll eru jafnframt hvött til að fylgjast með Jafnréttisdögum á samfélagsmiðlum

Facebook
Instagram
Twitter
 

""