Skip to main content
22. maí 2023

Íslenska sem annað mál kennd í fjarnámi

Íslenska sem annað mál kennd í fjarnámi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands mun á komandi skólaári bjóða upp á fjarnám í íslensku sem öðru máli í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Háskólann á Akureyri. Nemendur stunda námið við Háskóla Íslands en eiga þess kost að sækja staðlotur á Akureyri og Ísafirði. Háskólinn á Bifröst á einnig aðkomu að samstarfinu með ráðgjöf um reynslu sína af staðlotum. Samstarfið er leitt af Hugvísindasviði HÍ en verkefnið hlaut styrk úr áætlun um samstarf háskóla frá háskóla-, iðnaðar- og nýssköpunarráðuneytinu.

Námið fer fram í litlum hópum fjóra daga vikunnar og er stundatafla sveigjanleg og tekur mið af þörfum vinnandi fólks. Fleiri fjarnámsleiðir verða í boði frá og með hausti 2024.

Efnt hefur verið til þriggja kynningarfunda um námið, sem hafa verið vel sóttir. Áhugasamir Norðlendingar fjölmenntu á fund á Amtsbókasafninu á Akureyri þann 12. maí eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Fundinn leiddu Gísli Hvanndal, verkefnisstjóri íslensku sem annars máls við HÍ, og Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjunkt við Félagsvísindadeild HA. Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, stundakennari við HÍ, hélt fund á Ísafirði þann 17. maí en einnig var haldinn netfundur fyrir allt landið þann 16. maí. Í heildina sóttu tæplega 200 manns fundina og hafa fjölmargar umsóknir borist í kjölfarið.

Nánari upplýsingar um námið.

Gísli Hvanndal, verkefnisstjóri íslensku sem annars máls við HÍ, á kynningarfundinum á Akureyri.
Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjunkt við Félagsvísindadeild HA.