Skip to main content
14. febrúar 2017

Innviðir og atvinnustarfsemi á norðurslóðum

Lagadeild og Hagfræðistofnun vinna nú að þverfræðilegu rannsóknarverkefni um innviði og atvinnustarfsemi á norðurslóðum. Rannsóknarverkefnið snýr að þeim miklu breytingum sem hafa orðið á umhverfi norðurslóða undanfarna áratugi vegna hækkandi hitastigs á norðurheimskautinu og efnahags- og samfélagslegum áhrifum þeirra.

Hafís fer ört minnkandi og hefur því verið spáð að verulegur hluti af Norður-Íshafi verði orðinn greiðfær skipum í náinni framtíð. Jafnframt eru líkur á því að efnahagsumsvif á norðurslóðum færist í vöxt í komandi framtíð, m.a. á sviði alþjóðlegra skipaflutninga, auðlindanýtingar (t.d. olía og fiskur) og tengdrar þjónustustarfsemi.

Markmið
Markmið rannsóknarverkefnis Lagadeildar og Hagfræðistofnunar er að setja fram lagalega og hagfræðilega greiningu á innviðum og atvinnustarfsemi á norðurslóðum með áherslu á hagsmuni íslenskra fyrirtækja og almennings. Í því sambandi verður sérstök áhersla lögð á hafnir og starfsemi þeirra enda eru hafnir grundvallarþáttur í efnahagslegri uppbyggingu á norðurslóðum.

Hafnir landsins gegna víðtæku efnahagslegu og almannahlutverki, m.a. í samgöngum, alþjóðaviðskiptum, auðlindanýtingu, verndun hafsins, viðbrögðum við mengunarslysum, siglingaöryggi, björgun nauðstaddra skipa á norðurslóðum o.fl.

Rannsóknarverkefnið er afmarkað við eftirfarandi tvo meginþætti:

Fyrri þátturinn felst í grunnrannsóknum á laga- og rekstrarumhverfi íslenskra hafna og efnahagslegu hlutverki þeirra. Atriði sem koma til skoðunar eru eignarhald, rekstrarform, skattar, samkeppni, sérleyfissamningar, útboðsreglur, erlend fjárfesting í íslenskum höfnum, samstarf opinberra og einkaaðila um uppbyggingu og fjármögnun hafna (e. public-private partnerships) o.fl.

Síðari þátturinn beinist að afmörkuðum sviðum hafnarrekstrar og tengdri starfsemi sem varða norðurslóðir, þ.m.t. sjóflutningum, sjávarútvegi, olíuvinnslu, siglingaöryggi og umhverfisvernd.

Stjórn rannsóknarverkefnisins skipa prófessorar Aðalheiður Jóhannsdóttir, deildarforseti Lagadeildar, Eyvindur G. Gunnarsson og Stefán Már Stefánsson, og Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar. Aðallögfræðingur verkefnisins er Friðrik Árni Friðriksson Hirst, mag. jur. frá Háskóla Íslands og LL.M. frá Harvard.

Styrktaraðilar eru fjármála- og efnahagsráðuneytið og Rannsóknasjóður Viðskiptaráðs Íslands. Faxaflóahafnir sf. er faglegur samstarfsaðili verkefnisins.

Siglingaleiðir á norðurslóðum