Skip to main content
19. maí 2023

Icelandic Online fyrir lengra komna aðgengilegt í snjalltækjum

Icelandic Online fyrir lengra komna aðgengilegt í snjalltækjum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýr hluti vefnámskeiðsins Icelandic Online fyrir lengra komna hefur verið gerður aðgengilegur fyrir snjalltæki. Í þessum hluta íslenskunámskeiðsins er höfuðáhersla lögð á flóknari orðaforða og menningarlæsi. 

Icelandic Online eru sex vefnámskeið í íslensku fyrir fullorðna. Fyrsta þeirra var opnað til notkunar 2004 og það sjötta 2013. Nýlega var svo opnað nýtt Icelandic Online námskeið á vefnum sem ætlað er börnum. Námskeiðin eru sjálfstýrð og öllum opin til notkunar. Auk þess að henta sjálfstýrðu námi eru námskeiðin notuð í skipulögðu námi við Háskóla Íslands og ýmsa erlenda háskóla þar sem nútímaíslenska er kennd.

Á undanförnum árum hafa fullorðinsnámskeiðin markvisst verið gerð aðgengileg fyrir snjalltæki. Á liðnu ári fékkst styrkur til að koma lokahluta þeirra, Icelandic Online 5, í hið nýja umhverfi og lauk þeirri vinnu nú á vordögum. Námskeiðið skiptist í þrettán ólíka kafla sem hver um sig samanstendur af fyrirlestri, fjölbreyttum textum úr íslenskum fjölmiðlum og bókmenntum og miklum fjölda æfinga þar sem unnið er með viðkomandi orð og orðasambönd. Er lögð áhersla á að dýpka orðaforða nemenda í íslensku sem öðru máli og rækta menningarskilning þeirra.

Icelandic Online 5 var upphaflega samstarfsverkefni námsgreinarinnar Íslenska sem annað mál við Háskóla Íslands, Hugvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Björgvinjarháskóla og Helsinkiháskóla. Ríkisútvarpið, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og fjöldi höfunda lögðu þessu verkefni lið, en það hefur einnig notið fjárhagsstuðnings frá Nordplus sprog-áætluninni og Kennslumálasjóði Háskóla Íslands. Olga Holownia, Daisy L. Neijmann og Jón Karl Helgason eru höfundar upprunalega efnisins en yfirfærsluna í nýja umhverfið önnuðust Úlfur Alexander Einarsson, Lovísa Helga Jónsdóttir og María-Carmela Raso, undir stjórn Daisyar og Jóns Karls. Vinnan við yfirfærsluna var kostuð af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands.

Hópurinn sem vann að uppfærslu Icelandic Online 5: María-Carmela Raso, Jón Karl Helgason, Daisy L. Neijmann og Lovísa Helga Jónsdóttir. Á myndina vantar Úlf Alexander Einarsson.