Skip to main content
1. nóvember 2023

Hvernig spila menning og samfélag saman í góðum íþróttaárangri?

Hvernig spila menning og samfélag saman í góðum íþróttaárangri? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Kjarni rannsóknar minnar liggur á hinu lifandi sviði íþróttafélagfræði. Í henni reyni ég að öðlast skilning á því hvernig hið flókna samspil samfélags og menningar hefur áhrif á árangur tiltekinna samfélaga í tilteknum íþróttum. Hvers vegna eru Brasilíumenn svona góðir í fótbolta, Indverjar í krikket, Keníamenn í langhlaupum og Nýsjálendingar í rúgbíi og Íranar í grísk-rómverskri glímu,“ segir íranski doktorsneminn Saeed Shamshirian um doktorsrannsókn sína í félagfræði við Háskóla Íslands.

Áhersla hans er ekki síst á síðastnefndu greinina en grísk-rómversk glíma er meira en bara íþrótt í Íran, hún er í senn stolt þjóðarinnar á vettvangi íþróttanna og mikilvægur þáttur af þjóðernislegri, trúarlegri og menningarlegri sjálfsmynd þjóðarinnar að sögn Saeeds. „Þegar horft er á árangur Írans í íþróttum á alþjóðavettangi er óhætt að segja glíman tróni á toppnum og til marks um það eru 47 af 76 Ólympíuverðlaunum sem Íranar hafa unnið til frá upphafi í þeirri grein.“

Áhugann á viðfangsefninu sækir hann ekki langt enda glímdi hann sjálfur lengi í heimlandinu. „Íþróttir hafa verið stór hluti af lífi mínu svo lengi sem ég man eftir mér. Ég var viðloðandi glímu í um tvo áratugi, bæði sem keppandi, þjálfari og rannsakandi. Ég lagði stund á íþróttasálfræði í meistaranámi og þar rýndi ég í andlega eiginleika íranskra glímumanna út frá sálfræðilegu sjónarhorni,“ útskýrir Saeed.

Hins vegar hafi hann, eftir því sem hann eltist, farið að taka betur eftir því hversu mikil áhrif félagslegir þættir hafa á líf fólks. „Eflaust hafa allir einhvern tíma verið á þeim stað í sínu lífi að þeim hefur fundist örlög þeirra ekki vera í þeirra eigin höndum heldur hafi umhverfið haft áhrif. Afrískt máltæki segir enda að það þurfi heilt þorp að ala upp barn. Þetta varð til þess að ég ákvað að breyta um áherslur og beina rannsóknum mínum meira að hinu breiða félagslega samhengi íþróttanna,“ segir Saeed og bætir við að hann hafi verið svo heppinn að kynnast leiðbeinanda sínum, Viðari Halldórssyni, prófessor í félagsfræði, sem hefur varið miklum tíma í að rannsaka þetta svið á Íslandi. Viðar hefur meðal annars rannsakað hvað skýrir góðan árangur okkar litla lands í handbolta, knattspyrnu, körfuknattleik, hópfimleikum og fleiri íþróttum á alþjóðavettvangi og vakið mikla athygli fyrir rannsóknir sínar, bæði hér heima og erlendis.

Samfélagsgerð og menning skýra m.a. árangur Írana í glímu

Í rannsókninni beitir Saeed ýmsum rannsóknaraðferðum sem bæði falla undir megindlegar og eigindlegar rannsóknir. „Áherslan er þó meira á eigindlegar rannsóknir og felast m.a. í þjóðlýsingu (etnógrafíu), viðtölum og rýni ýmiss konar gagna,“ segir Saeed.

Rannsóknir hans hafa þegar leitt ýmislegt forvitnilegt í ljós, m.a. að árangur Írana í glímu byggist ekki eingöngu á hæfileikum þeirra einstaklinga sem leggja íþróttina fyrir sig. „Íþróttin er ofin inn í samfélagsgerðina og árangurinn má meðal annars skýra út frá ákveðnum menningarlegum grunni í landinu, skipulagi og uppbyggingu íþróttarinnar innan lands, áhrifum ýmissa samstarfsneta og flóknum félagslegum tengslum sem saman hafa áhrif á viðhorf og áhugahvöt fólks í íþróttum. Saman mynda þessir þættir sterka samfélagshefð sem fóstrar framúrskarandi glímumenn,“ segir Saeed um niðurstöður sínar.

„Þjálfarar og leiðtogar innan íþróttahreyfingarinnar munu geta nýtt niðurstöður úr rannsókninni til þess að fóstra jákvæða liðsmennningu. Þeir geta jafnframt kynnst því hvernig menningarlegir þættir og samfélagslegar stofnanir geta ýtt undir árangur liða og einingu innan þeirra,“ segir Saeed. MYND/Kristinn Ingvarsson

Árangur í íþróttum getur bætt vellíðan þjóðarinnar

Aðspurður segir hann að rannsókn sem þessi getur haft margvísleg samfélagsleg áhrif. Hún geti orðið íþróttamönnum, sem eru fastir í þeirri hugmynd að árangur skýrist eingöngu af hæfileikum, innblástur. „Niðurstöður mínar sýna nefnilega að árangur í íþróttum ræðst ekki bara af hæfileikum heldur einnig vilja til að leggja mikið ás sig, stuðningi sem finna má í menningunni og áhrifum kröftugra félagslegra tengsla,” útskýrir Saeed.

Rannsóknin geti jafnframt nýst þjálfurum, íþróttafélögum og -samböndum. „Þjálfarar og leiðtogar innan íþróttahreyfingarinnar munu geta nýtt niðurstöður úr rannsókninni til þess að fóstra jákvæða liðsmennningu. Þeir geta jafnframt kynnst því hvernig menningarlegir þættir og samfélagslegar stofnanir geta ýtt undir árangur liða og einingu innan þeirra.“ 

Þá geti stjórnvöld nýtt þessa nýju þekkingu til þess að efla stuðning við ýmsar hliðar íþróttanna, hvort sem markmiðið er að vinna til fleiri verðlauna eða hreinlega bæta vellíðan landsmanna. „Því rannsókn mín undirstrikar mikilvægi afreka á íþróttavellinum fyrir samfélagsandann,” segir Saeed.

Saeed undirstrikar að rannsóknin sé varða á leið að meira inngildandi og upplýsandi nálgun á íþróttir. „Hún gagnast í senn íþróttafólki, þjálfurum og heilu þjóðunum. Hún undirstrikar áhrif samfélagsins, menningar og hins sameiginlega átaks þegar kemur að árangri í íþróttum,“ bætir Saeed við að lokum. 

Saeed Shamshirian