Skip to main content
28. febrúar 2023

Hver króna kaupir meiri hamingju í jöfnu samfélagi

Hver króna kaupir meiri hamingju í jöfnu samfélagi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Leit mannsins að hamingjunni er án efa jafngömul honum sjálfum og innan vísindasamfélagsins hafa fjölbreyttir hópar fræðafólks fengist við spurninguna um hvað geri okkur hamingjusöm. Listamenn hafa líka velt þessu fyrir sér lengi. „Skapar fegurðin hamingjuna?“ spurði Bubbi Morthens í þekktu lagi á meðan Jónas Sigurðsson söng um að hamingjan væri „hér“. En geta peningar gert okkur hamingjusamari og er einhver leið að meta það hversu mikla peninga við þurfum til þess að verða sátt við lífið og tilveruna? Við þessa og fleiri spurningar fæst Guðrún Svavarsdóttir í doktorsnámi sínu í hagfræði við Háskóla Íslands. 

„Doktorsverkefnið skiptist í þrjá hluta sem allir fjalla um tengslin á milli tekna og hamingju eða velferðar, en á mismunandi hátt,“ útskýrir Guðrún sem vinnur vísindagrein til birtingar í fræðitímariti fyrir hvern hluta, eins og tíðkast víða innan vísindanna. „Í fyrstu greininni, sem er sú eina sem er næstum tilbúin, skoða ég tvo kima þessa sambands með því að nýta mér umfangsmikil gögn frá Rússlandi. Í fyrsta lagi skoða ég hversu miklar tekjur fólk þarf til að vera við ákveðið velferðarstig. Í þessu samhengi er þá hægt að skoða hvaða þættir gætu haft áhrif á tekjuþarfir.“ 

Hærri tekjur virðast leiða til þess að fólk vill meira

Guðrún bendir á að fyrri rannsóknir sýni að rauntekjur hafi áhrif á það hversu mikið fólk telur sig þurfa. Þannig telji tekjuhærri einstaklingur sig þurfa hærri upphæð til að vera við sama velferðarstig og tekjulægri einstaklingur. „Mínar niðurstöður sýna þetta líka, að hærri tekjur virðist leiða til þess að fólk telji sig þurfa meira,“ segir hún.

Í öðru lagi beinast sjónir Guðrúnar og samstarfsfólks að svokallaðri velferðarnæmni, þ.e. hversu mikil breyting verður á velferð fólks þegar tekjur þess breytast. „Með öðrum orðum, ef ég fæ auka 50 þúsund krónur, hversu ánægðari verð ég? Þetta er mjög mismunandi milli fólks. Hvort tveggja hefur verið rannsakað þónokkuð en illa hefur tekist að útskýra af hverju velferðarnæmni er breytileg milli fólks. Í greininni skoðum við hvort ytri aðstæður, þ.e. aðrar en einstaklingsbundinn munur, til dæmis kyn, aldur, starf og svo framvegis, hafa áhrif á þetta flókna samband milli tekna og velferðar,“ segir Guðrún.

Til þess að svara spurningunum nýttu Guðrún og samstarfsfólk hennar aðferð sem hollenski hagfræðingurinn Bernard van Praag þróaði og snýst um að spyrja fólk hversu miklar tekjur það þarf til að vera við mismunandi velferðarstig. „Til dæmis: „Hversu miklar tekjur þyrftirðu til þess að finnast fjölskylda þín fátæk, meðalrík eða rík?“ Svör fólks við þessari tekjuspurningu eru notaðar til að meta svokallað einstaklingsbundið velferðarfall tekna sem gefur þessar tvær breytur, tekjuþarfir og velferðarnæmni fyrir breytingum í tekjum fyrir hvern og einn einstakling. Ef spurningarnar eru hluti af stærri spurningakönnun er í kjölfarið hægt að skoða hvaða félagslegu þættir hafa áhrif á þessar breytur,“ segir hún.

Gögn frá Rússlandi nýtt til grundvallar rannsókninni

Athygli vekur að stuðst er við gögn frá Rússlandi en rússneskt samfélag er almennt talið vera mjög stéttskipt og að mörgu leyti ólíkt vestrænum samfélögum. Gögnin koma úr könnun sem nefnist Russian Longitudinal Monitoring Survey frá Higher School of Economics í Moskvu. „Sá hluti gagnanna sem við notum hefur svör meira en 10 þúsund einstaklinga sem búa alls staðar á Rússlandi. Þetta gerir okkur kleift að skoða hvort ytri þættir, t.d. tekjujöfnuður og landsframleiðsla, sem eru mjög breytileg eftir því hvar í Rússlandi fólk býr, hafi áhrif á tekjuþarfir og velferðarnæmni án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að mismunandi gjaldmiðlar eða tungumál bjagi niðurstöðurnar, eins og gæti gerst ef við berum saman niðurstöður frá mismunandi löndum í Evrópu,“ útskýrir Guðrún sem vann að rannsókninni með Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, prófessor í hagfræði við HÍ, sem er leiðbeinandi Guðrúnar, og þeim Andrew E. Clark, prófessor í hagfræði við Paris School of Economics, og Gunnari Stefánssyni, prófessor í tölfræði við HÍ, en þeir sitja einnig í doktorsnefnd Guðrúnar.

Niðurstöður þeirra benda til þess að tekjudreifing skipti miklu máli. „Þar sem ójöfnuður er meiri virðist fólk þurfa hærri tekjur til að njóta sömu velferðar og fólk í jafnara samfélagi. Það er að segja, þú þarft ekki jafnmikið til að vera jafn vel settur þar sem tekjudreifing er jöfn samanborið við þar sem hún er ójöfn. Enn fremur, þá kaupir, ef svo má að orði komast, hver króna meiri hamingju þar sem meiri tekjujöfnuður ríkir,“ útskýrir Guðrún.

„Fólk sem býr við meiri jöfnuð þarf ekki jafnháar tekjur og þeir sem búa við minni jöfnuð. Frá hagfræðilegu sjónarhorni er það því hagkvæmara, ef litið er á samfélagið sem heild, að búa í jafnari samfélagi því hver króna „kaupir“ þá meiri velferð. Þar að auki breytist velferðarnæmni, þ.e. hversu mikið ánægðari einstaklingurinn er með hverja auka krónu, í jafnara samfélagi. Þetta þýðir að ef við viljum hamingjusamara og hagkvæmara samfélag ættum við að forgangsraða jafnari tekjudreifingu,“ útskýrir Guðrún.

Hún bætir við að fyrri rannsóknir hafi leitt til svipaðra niðurstaðna. Rauntekjur skipti að sjálfsögðu máli fyrir hamingju eða velferð fólks en það skiptir ekki síður máli hvernig fólk stendur hlutfallslega. „Tekjur þeirra sem fólk ber sig saman við hafa áhrif á það hversu ánægt fólk er með sínar eigin tekjur. Þversögn Easterlin, sem einhverjir þekkja kannski, snýst um að samfélög séu stöðugt að verða ríkari en að velferðarstig aukist ekki í sama hlutfalli og tekjur. Mér finnst þetta áhugavert og ég held að samanburðurinn spili þarna inn í, þ.e. að við berum okkur stöðugt saman við fólkið í kringum okkur. Ef nágranni minn kaupir sér nýjan og fínan bíl, þá er ekki ólíklegt að það hafi áhrif á það hversu ánægð ég er með minn bíl,“ segir hún.

Hamingjusamara og hagkvæmara samfélag með jafnari tekjudreifingu

Aðspurð um þýðingu niðurstaðnanna segir Guðrún að mikilvægasta ályktunin sem hún dragi af þessum hluta doktorsrannsóknarinnar sé að jöfnuður skipti máli. „Fólk sem býr við meiri jöfnuð þarf ekki jafnháar tekjur og þeir sem búa við minni jöfnuð. Frá hagfræðilegu sjónarhorni er það því hagkvæmara, ef litið er á samfélagið sem heild, að búa í jafnari samfélagi því hver króna „kaupir“ þá meiri velferð. Þar að auki breytist velferðarnæmni, þ.e. hversu mikið ánægðari einstaklingurinn er með hverja auka krónu, í jafnara samfélagi. Þetta þýðir að ef við viljum hamingjusamara og hagkvæmara samfélag ættum við að forgangsraða jafnari tekjudreifingu,“ útskýrir Guðrún.

Eflaust telja einver óvenjulegt að hagfræðingur fáist við spurningar um hamingju en viðfangsefni innan greinarinnar verða stöðugt fjölbreyttari og þá spilar einnig inn í óvenjulegur bakgrunnur Guðrúnar. „Ég er með meistarapróf í siðfræði auk meistaraprófs í hagfræði. Ég hef þess vegna mjög mikinn áhuga á flóknu sambandi þessara tveggja greina sem mörgum finnst vera á andstæðum pólum. Þær eru það að einhverju leyti. Ég vona að ég fái tækifæri til að skoða siðfræðilega kima hagfræðinnar í framtíðinni eða kannski hagfræðilega kima siðfræðinnar,“ segir hún.

Vinnan við doktorsverkefnið heldur hins vegar áfram og Guðrún segir að í annarri greininni af þremur beini hún sjónum sínum að svokölluðum jafngildiskvarða. „Þetta eru kvarðarnir sem notaðir eru til að leiðrétta heimilistekjur fyrir stærðarhagkvæmni. Það er almennt gert ráð fyrir því að heimilistekjur tveggja þurfi ekki að vera tvöfaldar á við tekjur einstæðings til að þau hafi það jafngott. Hins vegar er ekki alveg ljóst hvort leiðréttingin sem almennt er notuð endurspegli raunveruleikann. Ég mun nota evrópsk gögn til að skoða þetta.“

Guðrún Svavarsdóttir á 10 þúsund króna seðli