Skip to main content
27. október 2022

Hver eru tengsl heimilisverka og lífsánægju?

Hver eru tengsl heimilisverka og lífsánægju? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Hver kannast ekki við að rífast við maka sinn um það hver ryksugar oftar, kemur börnunum á fætur eða vinnur of mikið utan heimilis? Ljóst er að slíkar þrætur geta valdið tímabundnum pirringi eða ósætti innan sambandsins en öllu óljósara er hvernig verkaskiptingu fylgir mest lífsánægja,“ segir Anna Guðrún Ragnarsdóttir, doktorsnemi í hagfræði, sem fjalla mun um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga á sambandi lífsánægju og verkaskiptingar innan heimilisins í erindi á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands þann 28. október. Um er að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar.

„Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning okkar á sambandi lífsánægju og verkaskiptingar á heimilinu með áherslu á kyn,“ útskýrir Anna og segir viðfangsefnið sérlega áhugavert í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á verkaskiptingu kynjanna innan heimilisins víða um heim á undanförnum áratugum. „Í stað þess að hlutverk kvenna sé að sinna heimilisstörfum og hlutverk karla sé að afla tekna á vinnumarkaði verður síalgengara að bæði konur og karlar sinni báðum hlutverkum til jafns.“

Horft til bæði heimilisstarfa og launaðrar vinnu

Anna Guðrún segir merkilega lítið til af rannsóknum á þessi sambandi en þær sem gerðar hafi verið líti annaðhvort til heimilisverka, sem jafnan hafi verið álitin sem hlutverk kvenna í sögulegu samhengi, eða til launaðrar vinnu, sem jafnan hafa verið álitin hlutverk karla, en ekki hvors tveggja. „Mér fannst því tímabært að varpa frekara ljósi á samband lífsánægju og verkaskiptingar heimilisins og þá sérstaklega með það í huga að skoða heildarmyndina. Þannig tekur rannsóknin til allra helstu verkefna sem heimili þurfa að sinna, bæði starfa innan heimilisins og launaðrar vinnu,“ segir hún.

Í rannsókninni var horft til sambands lífsánægju við fjóra þætti:(i) heimilisverk, (ii) umsjá eigin barna, (iii) umsjá og viðhald eigna og (iv) launaðrar vinnu, bæði hjá körlum og konum. „Við lögðum áherslu á að skoða sambandið bæði út frá framlagi einstaklingsins og maka þeirra,“ segir Anna. 

Byggt var á gögnum sem fengin eru úr könnunum sem gerðar voru í Ástralíu árlega á árabilinu 2001-2020. „Úrtakið sem nýtt er í rannsókninni samanstendur af 84.410 athugunum og 6.020 hjónum eða sambúðarfólki,“ segir Anna og undirstrikar að Ísland og Ástralía eru talsvert ólík þegar það kemur að verkaskiptingu innan heimilisins og þróun í hlutverkum kynjanna.

„Niðurstöður rannsóknarinnar sem snerta heimilisstörf sýna m.a. að lífsánægja kvenna standi í jákvæðu sambandi við eigið framlag en neikvæðu sambandi við framlag maka. „Þetta gefur vísbendingu um að konur í Ástralíu vilji fremur sjálfar sinna heimilisverkum og síður að makinn geri það,“ segir Anna. MYND/Sarah Brown/unsplash

Neikvætt samband milli lífánægju og launaðrar vinnu

Niðurstöður rannsóknarinnar leiða m.a. í ljós að lítið eða ekkert samband er milli lífsánægju karla og þess tíma sem þeir eyða í heimilisverk. „Það sem er sérstaklega áhugavert er að sama niðurstaða fæst þegar litið er þess tíma sem þeir eyða í umsjá eigin barna. Hvort þetta bendi til þess að tíminn með börnunum hafi lítil eða engin áhrif á lífsánægju þeirra eða hvort lífsánægja þeirra hafi lítil áhrif á þann tíma sem þeir eyða með börnunum er þó óljóst,“ segir Anna. 

Þá sýna niðurstöður rannsóknarinnar sem snerta heimilisstörf að lífsánægja kvenna standi í jákvæðu sambandi við eigið framlag en neikvæðu sambandi við framlag maka. „Þetta gefur vísbendingu um að konur í Ástralíu vilji fremur sjálfar sinna heimilisverkum og síður að makinn geri það,“ segir Anna.

Þá kemur það ef till vill einhverjum á óvart að samband launaðrar vinnu og lífsánægju, bæði karla og kvenna, er að mestu neikvætt. „Þetta bendir til þess algengara er að einstaklingar í Ástralíu njóti ekki vinnu sinnar og vilji ekki vinna fleiri klukkustundir,“ útskýrir Anna en hún fer nánar yfir niðurstöðurnar í málstofunni „Heilbrigði og velferð” á Þjóðarspeglinum á föstudagsmorgun. 

Aðspurð hvað niðurstöðurnar segi um þróun samfélaga bendir Anna á að erfitt sé að álykta um það út frá einni rannsókn. „Hins vegar er rannsóknin innlegg í umræðu á sviði mjög mikilla og afgerandi samfélagsbreytinga sem hafa áhrif á nánast alla einstaklinga. Mikilvægt er að sú umræða fari ekki bara fram á hugmyndafræðilegum grunni heldur einnig á grundvelli gagna og taki til greina þau áhrif sem breytingarnar hafa á velferð einstaklinga og fjölskyldna.“ 

Auk Önnu komu þau Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, Edward C. Norton, prófessor í hagfræði við University of Michigan, Paul McNamee, prófessor í hagfræði við University of Aberdeen, og Þórhildur Ólafsdóttir, doktor í hagfræði frá Háskóla Íslands, að rannsókninni. 

Aðspurð um þýðingu rannsóknarinnar ítrekar Anna að þetta sé fyrsta rannsókn sinnar tegundar sem rannsakendurnir viti af sem taki til sambands lífsánægju og allra helstu skyldna heimilisins. „Hún gefur þannig betri heildarmynd á sambandi lífsánægju og verkaskiptingar innan heimilisins en áður hefur fengist. Rannsóknin veitir nýja þekkingu á hvernig lífsánægja einstaklinga breytist með verkaskiptingu kynjanna og þannig vísbendingar um hvort sú jafnréttisþróun sem nú á sér stað leiði til aukinnar lífsánægju einstaklinga.“ 

Hægt er kynna sér fleiri erindi í málstofunni og heildardagskrá Þjóðarspegilsins á vef ráðstefnunnar.

Anna Guðrún Ragnarsdóttir