Skip to main content
22. desember 2021

Hver er þessi Grýla?

Hver er þessi Grýla? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Snorri Sturluson var af ætt Sturlunga eins og nafnið gefur reyndar í skyn, en við nútímamenn eigum ævintýralega margt að þakka ótrúlegum afköstum hans á ritvellinum. Edda er eignuð Snorra og er hún langmerkasta heimild okkar tíma um norræna goðafræði. Snorri Sturluson var skáld og sagnaritari en hann var líka einn af höfðingjum Sturlunga og hafði mikil afskipti af stjórnmálum sinnar aldar. Hann var uppi á miklum rósturstímum, sjálfri Sturlungaöldinni þar sem leikir á hinum pólitíska velli gátu auðveldlega kostað menn lífið. Snorri fæddist árið 1179 og var drepinn í Reykholti í Borgarfirði þann 23. september árið 1241. 

Án Eddunnar hans Snorra vissum við miklu minna um fornan átrúnað en í Snorra-Eddu er líka fyrsta heimildin um Grýlu sem við nútímamenn tengjum við jólasveinana og jólin sjálf auðvitað. Grýla hefur með tímanum orðið nokkurs konar jólavættur og tekið að sér að verða móðir allra íslensku jólasveinanna. Í viðauka við Snorra-Eddu eru nafnaþulur, og þar sprettur Grýla fram með mörgum ófrýnilegum stallsystrum sínum af tröllakyni:

Skal ek trollkvenna
telja heiti:
Gríðr ok Gnissa,
Grýla, Brýja,
Glumra, Geitla,
Gríma ok Bakrauf,
Guma Gestilja,
Grottintanna.

„Grýla er vel þekkt á þrettándu öld hér á Íslandi,“ segir Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, en hann hefur rannsakað hátíðir í heiðnum sið og kristnum. Í nýrri stefnu Háskólans, HÍ26, er áhersla á að fá þekkingu og reynslu erlendis frá til að örva vísindastarf innan skólans. Það má sannarlega segja að rannsóknir Terry Gunnell séu gott dæmi um hvernig einmitt þekking að utan nýtist býsna vel. Terry kemur frá Brighton á Englandi og hefur varpað ljósi á fjölmargt í íslenskum þjóðháttum sem okkur hefur ekki alltaf gengið vel að skynja enda er það nú svo að ný sjónarhorn eru stundum brýn til að uppgötva það sem blasir jafnvel við en fæstir taka eftir.

Terry segir að nafnið Grýla birtist meðal annars í Sturlungu og líka í Sverris sögu en þá í engum tengslum við jólin. „Grýla er fyrst og fremst vættur eða tröll sem heldur til í fjöllunum og allir óttast, ef til vil eins og drauginn Glám í Grettis sögu,“ segir Terry. Hann bætir því við að nafnið hafi líka lengi verið þekkt í tengslum við þjóðsögur og dulbúningasiði á Hjaltlandi. „Þar er nafnið reyndar Grölik og í Færeyjum eru þekktir sams konar dulbúningasiðir og svipaðar vísur og við könnumst við hér um heimsóknir Grýlu,“ segir Terry. 

„Það eru líka svipaðar kvenverur í Vestur-Noregi sem tengjast jólunum og heimsóknum illra vætta í mannheima, meira að segja með svipað nafn og Grýla. Guro Rysserova heitir t.d. yfirnáttúruleg kerling á þessum slóðum sem leiðir skara af kynjaverum sem gera áhlaup á bæi um jólin.“

norsk gryla

Teikning af norskri útgáfu af Grýlu.

Athafnir Grýlu svo sannarlega ekki í neinum jólaanda

Grýla er eins og áður kom fram sögð móðir íslensku jólasveinanna en það er reyndar sérkennilegt miðað við eðli hennar hvernig íslensku jólasveinarnir hafa þróast til betri vegar í neyslusamfélagi nútímans. Þeir eru orðnir kersknir og blíðsinna söngfuglar sem laða til sín börn sökum gjafmildi. Grýla er eitthvað allt annað.

Ef slæm voru börnin
varð Grýla glöð,
og fálmaði í pokann sinn
fingrahröð.

Og skálmaði úr hamrinum
heldur gleið,
og óð inn í bæina
- beina leið.

Þar tók hún hin óþekku
angaskinn,
og potaði þeim
nið'r í pokann sinn.

Og heim til sín aftur
svo hélt hún fljótt,
- undir pottinum fuðraði
fram á nótt.

Svona segir í Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum, sem segir það bara hreint út að Grýla hafi verið mannæta sem nærðist á óþekkum börnum. Grýla hefur þó ekki bara orðið kveikjan að kveðskap eins og í tilviki Jóhannesar því myndlistarmenn hafa dregið hana fram á pappír og striga. Fáir líklega með betri árangri en myndlistarmaðurinn Þrándur Þórarinsson sem er með meistarapróf í listfræði frá HÍ. Þrándur málaði skessuna með þeim hætti að sumum ofbauð, aðrir fylltust jafnvel aðdáun, en verkið varð heimsfrægt reyndar bæði í olíu og grafík. Á listaverki Þrándar fer ekkert á milli mála á hverju Grýla vill helst nærast.  

Terry Gunnell

Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Jólin voru heiðin hátíð tengd vertrarsólstöðum

Þegar talið berst að sjálfum jólunum segir Terry að hátíðahöld á þessum árstíma tengist stysta degi ársins, vetrarsólstöðum, þegar dyr opnist milli heima. Terry segir að mikil blót hafi verið regluleg hjá norrænum mönnum í kringum vetrarsólstöður enda séu andstæður ljóss og skugga svo ótrúlega skarpar á norðurhveli jarðar. 

„Miðsvetrarhátíðir eru ævafornar og heiðnar og ná langt aftur fyrir Kristburð. Svona hátíðir voru í mjög mörgum samfélögum og má ennþá sjá leifar af þeim við Stonehenge á Bretlandseyjum. Það varð mönnum ekki létt verk að losna við þessar heiðnu hátíðir við kristnitökuna og því reyndist farsælast að gefa hátíðinni bara nýtt nafn í anda kristni,“ segir Terry.   

Fáir líklega með betri árangri en myndlistarmaðurinn Þrándur Þórarinsson sem er með meistarapróf í listfræði frá HÍ. Þrándur málaði skessuna með þeim hætti að sumum ofbauð, aðrir fylltust jafnvel aðdáun, en verkið varð heimsfrægt reyndar bæði í olíu og grafík. Á listaverki Þrándar fer ekkert á milli mála á hverju Grýla vill helst nærast.  

Jólasveinninn minn, káti karlinn minn

„Jólasveinninn minn, káti karlinn minn, kemur með jólin með sér,“ yrkir hinn landsþekkti fjöllista- og fréttamaður Ómar Ragnarsson sem sjálfur hefur tekið að sér að leika þennan með hvíta skeggið og rauðu skotthúfuna og pokaskjattann með gjöfunum. Jólasveinninn sem Ómar leikur er frekar nýr af nálinni í samanburði við gömlu jólasveinana okkar, þá Pottaskefil, Stúf, Gluggagæi, Hurðaskelli og alla hina óknyttabræðurna sem nú laumast að næturþeli til að gefa í skóinn og dansa syngjandi í kringum jólatré með börnin sér við hlið. 

„Hugmyndirnar um hópa af yfirnáttúrulegum verum, stundum jafnvel afturgengnum, sem heimsækja og jafnvel ofsækja bæi á stystu dögum ársins eru mjög gamlar,“ segir Terry. 

„Við sjáum svipaðar sögur sem tengjast þessum árstíma í fornsögunum íslensku. Í því sambandi má nefna Fróðárundrin í Eyrbyggju, þar sem dauðir risu úr gröfum sínum ásamt hinum sjódauðu sem gengu saman til langelda á jólahátíðinni, og einnig frásagnir af draugnum Glámi í Grettis sögu sem gerði fólki lífið óbærilegt um svipað leyti árs.“

Terry segir að til viðbótar þessu megi nefna að víða á Norðurlöndum hafi verið velþekktir dulbúningasiðir þar sem grímuklæddir ungir menn réðust inn í heimahús í kringum jólin í leit að mat og áfengi sem þeir tóku ófrjálsri hendi. „Í Noregi voru svona fýrar kallaðir julebukk eða julegeit. Fyrr á öldum voru þeir reglulega í dýrabúningum með horn, eins og Grýla. Sums staðar hétu þeir meira að segja julesveiner!!!“

Og sumt sem margir héldu vera séríslensk virðist ekki alveg vera þannig því Terry segir t.d. að gjafmildi íslensku sveinanna og ást þeirra á skótaui sé alls ekki séríslensk. „Eins og Árni Björnsson þjóðháttafræðingur hefur bent á, þá voru svipaðir siðir í Hollandi og víða annars staðar.“

Die Hard hetjan John McClane og Grettir Ásmundarson

Margir kannast við lögreglumanninn John McClane sem leikinn er af Bruce nokkrum Willis og tekur að sér að kveða niður óþokka af verstu sort þegar líða fer að jólum. Í Die Hard bíómyndaröðinni eru jólin orðin einhvers konar vettvangur ódæða eins og við þekkjum reyndar í íslenskum sögum að sögn Terry Gunnell. Hann nefnir sérstaklega þjóðsöguna um djáknann á Myrká í þessu sambandi.

Á aðfangadag ríður djákninn með Guðrúnu, konu sem hann átti í þingum við, til jólagleði á Myrká. Djákninn setur Guðrúnu á bak hesti sínum og sest sjálfur fyrir framan hana. Þegar þau koma að Hörgá steypist hesturinn framaf skör og lyftist þá upp hattur djáknans og sér Guðrún bera höfuðkúpuna. Í þeirri svipan reka skýin frá tungli og kveður þá djákninn:

"Máninn líður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?"

Í sögunni um djáknann er galdramaður úr Skagafirði í nokkurs konar hlutverki John McClane sem hneppir afturgenginn djáknann „suður fyrir skálastafn og setur hann þar niður með særingum miklum“.

Og Terry segir frásagnir af draugnum Glámi í Grettlu af svipuðum toga eins og sagan sjálf sýni. 

„Litlu síðar urðu menn varir við það að Glámur lá eigi kyrr. Varð mönnum að því mikið mein svo að margir féllu í óvit ef sáu hann en sumir héldu eigi vitinu. Þegar eftir jólin þóttust menn sjá hann heima þar á bænum. Urðu menn ákaflega hræddir. Stukku þá margir menn í burt. Því næst tók Glámur að ríða húsum á nætur svo að lá við brotum. Gekk hann þá nálega nætur og daga. Varla þorðu menn að fara upp í dalinn þó að ættu nóg erindi. Þótti mönnum þar í héraðinu mikið mein að þessu.“

Hér eru augljóslega hið illa mætt eins og í Hollywood-jólamyndunum Die Hard og Home Alone. Það þarf meira en aukvisa til að ráða niðurlögum Gláms. Segja má að heljarmennið Grettir Ásmundarson lendi þannig í áþekku hlutverki og þeir John McClane í Die Hard og drenghnokkinn Kevin McCallister í Home Alone. Terry bendir á að eins og þeir McCallister og McClane takist á við þrjótana, hvor í sinni bíómyndinni, glími Grettir við Glám. Grettir verður reyndar fyrir því mikla óláni áður en hann sigrar drauginn að horfa í augu hans. 

„Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt,“ segir draugurinn Glámur andartaki áður en hann er unninn. „Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga.“ 

„Ljóst er að maður þarf að fara varlega ef maður fer að fást við óvætti á þessum tíma ársins,“ segir Terry Gunnell og brosir sínu breiðasta.