Skip to main content
1. september 2021

Hljóðbúnaður prófaður sem getur dregið úr áhrifum olíuleitar á hvali

Hljóðbúnaður prófaður sem getur dregið úr áhrifum olíuleitar á hvali - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í rösklega hálfa öld hafa loftbyssur verið algengustu hljóðgjafarnir við leita að olíu og gasi á hafsbotni. Loftbyssurnar hleypa af stað loftbólum sem þjóta á miklum hraða í vatninu og undir miklum þrýstingi. Loftbólurnar stækka og dragast saman í sjónum og mynda hljóðbylgjur sem endurkastast frá hafsbotninum og gera það mögulegt að skapa myndir af hugsanlegum svæðum til rannsókna.

Bent hefur verið á möguleg neikvæð áhrif þessara aðferða á umhverfi og lífríki sjávar, ekki síst á sjávarspendýr eins og hvali. Ný tæki hafa verið að ryðja sér til rúms sem þykja líkleg til að valda minni áhrifum á lífríki en loftbyssan og eru umhverfisvænni en núverandi búnaður. Í þeim flokki er svokallaður sjávartitrari (e. marine vibrator) sem hefur verið til rannsóknar undanfarin sumur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík. 

„Við viljum skoða hvort þessi nýi hljóðgjafi hafi áhrif eða breyti hegðun hvalanna. Þar sem þessi hljóðgjafi gefur frá sér lægri hljóð en sá sem hefur mest verið notaður í atvinnuskyni við gas- og olíuleit á hafsbotni, væri betra fyrir lífríkið ef þessi nýi yrði fyrir valinu.” Þetta segir Marianne Rasmussen, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, en hún hefur ítrekað vakið athygli fyrir rannsóknir sínar á hvölum hér við land. 

Rannsóknin hefur miðast að því að kanna viðbrögð steypireyða við hljóðunum í nýja búnaðinum en fjöldi steypireyða heldur til í Skjálfandaflóa yfir sumarmánuðina. Verkefnið er fjármagnað af þýsku umhverfisstofnuninni og er unnið í samvinnu við Háskólann í Hannover (Die Stiftung Tierarzliche Hochschule Hannover (Tiho)) auk þess sem ákveðin tæki hafa verið notuð við rannsóknina sem eru þróuð af Tom Akamatsu frá Japan. 

„Við viljum skoða hvort þessi nýi hljóðgjafi hafi áhrif eða breyti hegðun hvalanna. Þar sem þessi hljóðgjafi gefur frá sér lægri hljóð en sá sem hefur mest verið notaður í atvinnuskyni við gas- og olíuleit á hafsbotni, væri betra fyrir lífríkið ef þessi nýi yrði fyrir valinu,“ segir Marianne Rasmussen, forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.

Merki fest á hvali með bómu og sogskál

Þegar fréttateymi HÍ fylgdist með rannsókninni á Skjálfanda um nótt í mikilli sumarblíðu var litlum bát siglt á eftir steypireyðum til að festa merki á þá með langri bómu og sogskál. Í þeim tilvikum þar sem tókst að festa merkið féll það sjálfkrafa af hvalnum eftir um það bil sólarhring. Á meðan merkið var fast á hvalnum skilaði það mikilvægum gögnum um hegðum hans í tengslum við hljóðmerkin.

„Við komum fyrir neðansjávarhljóðnemum með eins kílómetra millibili. Síðan spiluðum við lágtíðnihljóð sem steypireyðirnar eiga að heyra og notuðumst við stóran neðansjávarhátalara frá fiskiskipi. Úr rannsókninni fengum við gögn sem gefa okkur mynd af hegðun hvalanna áður en við setjum hljóðin í gang, á meðan þau eru í gangi og eftir að þau eru þögnuð. Við fáum þannig mikilvægar upplýsingar um köfun hvalanna og samskipti þeirra á milli á þessu tímabili,“ segir Marianne. 

„Við fylgdumst t.d. með steypireyð í heilan sólarhring sem var sífellt í fæðuöflun. Hvalurinn hætti meira að segja ekki að nærast meðan við festum merkið á hann.“

Ný tækni virðist hafa væg áhrif

Þýski vísindamaðurinn Joseph Schnitzler hefur unnið við rannsóknina undanfarin sumur á Skjálfanda en henni lauk í júlí í sumar. Hann starfar við Dýralæknaháskólann í Hannover. 

„Við höfum séð væg viðbrögð hvalanna við hljóðunum og numið örlítil áhrif á hljóðræn samskipti þeirra. Þetta gætu verið helstu áhrifin af þessum nýja hljóðbúnaði,“ segir Schnitzler. 

Marianne bætir því við að steypireyðarnar hefðu ekki breytt hegðun sinni við fæðuöflun á meðan hljóðin voru spiluð en þeir hefðu hins vegar aukið hljóðköll sín á milli í framhaldi af því að spilun hljóðanna var hætt. 

Rannsóknarhópurinn sem unnið hefur að verkefninu undanfarin sumur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík.