Skip to main content
15. janúar 2021

Helgarkveðja 15. janúar 2021

Helgarkveðja 15. janúar 2021 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (15. janúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Kennsla hafin á öllum fræðasviðum og hefur hún gengið vel. Ég vil þakka ykkur öllum, ekki síst nýnemunum okkar, fyrir að sýna skilning og sveigjanleika á þessum sérstæðu tímum. Upphaf háskólanáms markar tímamót og við núverandi aðstæður vakna fleiri spurningar en oftast áður. Ég minni ykkur kæru nýnemar á heimasíðu Háskólans varðandi gagnlegar upplýsingar um nám og þjónustu.  Einnig er mikilvæg svör að finna á COVID-síðu Háskólans.

Við leggjum áherslu á að halda uppi gæðum námsins við krefjandi aðstæður og leitumst við að skapa þann anda sem einkennir jafnan veruna í Háskóla Íslands. Vonandi sjáum við líka jákvæðar breytingar á fyrirkomulagi námsins á þessu misseri en bólusetningin sem hófst nýlega vekur vonir um að skólastarfið geti smám saman færst í fyrra horf.    

Í vikunni var létt á reglum um samkomubann. Samkvæmt núgildandi reglum er skólastarf heimilt í öllum byggingum Háskólans með eftirfarandi takmörkunum:

  • Hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í rými er 50 manns.
  • Lágmarksfjarlægð milli einstaklinga eru 2 metrar.
  • Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil og hefur nokkrum byggingum því verið skipt upp í sóttvarnarhólf.
  • Grímunotkun er skylda þar sem 2 metra fjarlægðartakmörkum verður ekki við komið.
  • Verkleg kennsla er heimil og klínískt nám með því skilyrði að nemendur og kennarar noti andlitsgrímu.
  • Tilfærsla starfsfólks milli hópa er heimil en gæta skal að ýtrustu sóttvörnum.
  • Heimilt að víkja frá fjöldatakmörkunum ef andlitsgrímur eru notaðar í sameiginlegum rýmum (inngangar, anddyri, snyrting og gangar).  
  • Íþróttahús háskólans verður opnað á mánudag. Aðeins er boðið upp á hópatíma fyrir að hámarki 20 manns samkvæmt stundatöflu. Nauðsynlegt er skrá sig fyrirfram í hópatímana í Uglu undir ,,Á döfinni“. Nánar hér.
  • Búningsklefar í íþróttahúsi eru lokaðir og einnig tækjasalur samkvæmt leiðbeiningum um starfrækslu heilsu- og líkamsræktarstöðva vegna COVID-19
  • Háma er opin og er hægt að taka mat með úr húsi. 

Verið að huga að undirbúningi brautskráningar sem áformuð er að óbreyttu laugardaginn 20. febrúar. Nánari upplýsingar koma síðar um tilhögun hennar í samræmi við gildandi sóttvarnarreglur. 

Ég hvet ykkur öll, kæru nemendur og samstarfsfólk, til að kynna ykkur upplýsingar á COVID-síðu Háskólans.

Förum varlega og hugum vandlega að einstaklingsbundnum sóttvörnum. 

Njótum helgarinnar. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""