Skip to main content
17. maí 2022

Hátt í 40 doktorsnemar fá styrki úr sjóðum skólans

Hátt í 40 doktorsnemar fá styrki úr sjóðum skólans - á vefsíðu Háskóla Íslands

Rannsóknir sem snerta m.a. kynferðislega áreitni í íþróttum, síðkomin áhrif sýklalyfja á heilsu barna, siðferðilegar hugmyndir ungs fólks um ást eftir #MeToo, líkamlega og andlega heilsu ungs fólks og hreyfanleika og dreifingu ferðamanna um landið eru meðal 37 doktorsverkefna sem hlutu styrki úr Doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands í ár. Styrkjum er úthlutað til verkefna á öllum fimm fræðasviðum skólans. 

Doktorsstyrkjasjóður er yfirheiti yfir Rannsóknasjóð HÍ, Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands og aðra sjóði sem koma að veitingu doktorsstyrkja innan skólans á hverjum tíma. Undanfarin ár hefur sókn í sjóðina verið afar mikil og engin undantekning var á því í ár því alls bárust 146 gildar umsóknir um styrki. Mikill meirihluti þeirra var vel styrkhæfur og því samkeppnin hörð um styrki úr sjóðunum.  

Sem fyrr segir hlutu 37 doktorsverkefni styrk að þessu sinni og er styrkhlutfallið á einstökum fræðasviðum í samræmi við sókn í sjóðinn. Að þessu sinni hljóta 23 verkefni styrk úr Rannsóknasjóði HÍ og 12 úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands. Það eru eru 50% fleiri en í fyrra en breytingar á skattalegri umgjörð styrktarsjóða, eins og Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands, gera þetta m.a. mögulegt. Þá veita Vísindagarðar Háskóla Íslands tvo styrki í annað sinn en stjórn garðanna leggur áherslu á að styrkja doktorsrannsóknir á sviðum heilbrigðis- og líftækni, upplýsingatækni og endurnýjanlegrar orku. 

Úthlutuðum styrkjum var fjölgað nokkuð í fyrra en þá voru þeir einnig 37. Þess má geta að 30 af styrkjunum 37 í ár eru til þriggja ára. Það er afar gleðilegt og í takt við stefnu sjóðsins að gera styrkþegum kleift að helga sig námi og rannsóknum.  

Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni endurspegla kröftugt vísindastarf á afar ólíkum fræðasviðum innan skólans, þar á meðal innan hagfræði, félagsfræði, mannfræði, viðskiptafræði, umhverfis- og auðlindafræði, lífvísinda, sjúkraþjálfunarfræði, lyfjafræði, læknisfræði, máltækni, heimspeki, dönsku, bókmenntafræði, íþrótta- og heilsufræði, menntavísinda, stærðfræði, jarðvísinda, landfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði, ferðamálafræði, vistfræði, eðlisfræði, efnafræði og líffræði.

„Ég óska styrkþegum og leiðbeinendum þeirra innilega til hamingju með styrkina en gríðarleg samkeppni er um þá sem endurspeglar vel hversu öflugum hópi doktorsnema og vísindamanna skólinn hefur á að skipa. Ég þakka stjórnum Háskólasjóðs Eimskipafélagsins og Vísindagarða jafnframt fyrir að hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir fjölgun styrkjanna. Styrkir sem þessir skipta sköpum í umhverfi doktorsnáms við HÍ,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Upplýsingar um styrkhafa og styrkt verkefni er að finna á vef skólans.

Nánar um doktorsstyrki við Háskóla Íslands
 

Frá Aðalbyggingu HÍ