Skip to main content
25. mars 2022

Háskólar eiga að takast á við brýnar áskoranir

Háskólar eiga að takast á við brýnar áskoranir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (25. mars 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Eitt meginhlutverk háskóla er að takast á við brýnar áskoranir og til þess að það fari vel má aldrei hvika frá frelsi til hugsunar og tjáningar. Í nýrri stefnu okkar heitum við því að leita lausna á vandamálum með nýjum leiðum, m.a. með framsækinni hugsun sem byggir á samstarfi og þverfræðilegri sýn. Einnig hefur skólinn einsett sér að vinna gegn falsfréttum, en sjaldan höfum við fundið jafn eindregið fyrir því og nú hvernig unnt er að stýra jafnvel heilum þjóðum með stanslausri drífu áróðurs sem á sér hvergi stoð í raunveruleikanum.

Þegar við settum okkur nýja heildarstefnu óraði ekkert okkar fyrir þeim ögrandi viðfangsefnum sem vestrænar þjóðir glíma nú við. Milljónir eru á flótta í Evrópu, mest konur og börn, vegna tilefnislausrar árásar rússneska hersins á Úkraínu, frjálst og fullvalda ríki. 

Hér í Háskóla Íslands höfum við nú komið á fót sérstöku viðbragðsteymi til að aðstoða flóttafólk frá hinu stríðshrjáða svæði. Hluti af viðbrögðum skólans er að bjóða herbergi á Sögu fyrir flóttafólk. 

Að auki er verið að skoða möguleika á viðbótarherbergjum fyrir háskólanema frá Úkraínu sem kunna að koma til náms við HÍ. Loks er verið að kanna hvernig Háskóli Íslands getur stutt við vísindafólk frá hinum stríðshrjáðu svæðum. Vandi þeirra sem eru á flótta og hinna sem búa áfram við gríðarlegar hörmungar stríðasátakanna er ekki bara þeirra, hann er okkar allra. Þess vegna þarf Háskóli Íslands að leggja sitt af mörkum. 

Mikilvægur hluti af starfi Háskóla Íslands er að rýna í aðstæður og túlka þann veruleika sem glímt er við. Ég vil þakka hinum fjölmörgu sérfræðingum Háskólans sem hafa fjallað um ýmsar hliðar styrjaldarinnar í Úkraínu á fjölbreyttum vettvangi síðustu vikur. 

Háskóli Íslands hefur brátt vinnu við að kortleggja samstarf við samfélög utan höfuðborgarsvæðisins til að efla tengslin enn frekar við landsbyggðina. Undanfarna tvo áratugi hefur skólinn eflt þessi tengsl jafnt og þétt og núna í vikunni var fagnað 20 ára afmæli rannsóknasetra Háskóla Íslands á landsbyggðinni. Rannsóknasetrin vinna að fjölbreyttum rannsóknum víða um land en það fyrsta var stofnsett á Höfn í Hornafirði árið 2002. Nú eru setur starfandi á ellefu stöðum á landinu. Í raun má segja að þau séu útverðir hins akademíska samfélags en snar þáttur í starfi þeirra er samstarf við nærsamfélögin á sviði rannsókna, kennslu og fjölbreyttra miðlunar. Þau leggja líka sitt af mörkum við atvinnulíf á stöðunum þar sem þau starfa og vinna mörg hver bæði að grunnrannsóknum og verkefnum í samstarfi við fyrirtæki og samfélög á landsbyggðinni. 

Og meira tengt atvinnulífi. Fyrir skömmu bauð HÍ nokkrum fulltrúum úr íslensku atvinnulífi til samtals um hvernig Háskólinn og atvinnulífið geti unnið betur saman í þágu fyrirtækja, náms og rannsókna. Jafnframt vildum við finna sameiginlega ný tækifæri með atvinnulífinu, ekki síst í þágu nemenda skólans. Viðburðurinn var í samstarfi við Vísindagarða, sem er miðstöð tengsla við atvinnulífið á háskólasvæðinu, og við Tengslatorg HÍ sem ræktar þessi sömu tengsl, ekki síst milli nemenda og fyrirtækja. Gagnkvæm ánægja var með þetta framtak og við stefnum að sjálfsögðu að fleiri fundum með fulltrúum úr íslensku atvinnulífi á næstunni. Við viljum enda skapa hér fleiri störf í þekkingardrifnu samfélagi og skjóta fleiri og sterkari stoðum undir íslenskt atvinnulíf.

Í vikunni var annað samtal skólans við atvinnulíf en í þetta skiptið í formi stefnumóts við sjávarútveginn. Þá áttu nemendur í viðskiptafræði stefnumót við lykilaðila í þeirri mikilvægu atvinnugrein. Hvort sem litið er til reynslu, arðsemi, nýsköpunar eða sjálfbærni hafa Íslendingar um langa hríð verið meðal fremstu þjóða í sjávarútvegi og er það engin tilviljun. Ein af lykilforsendunum er farsælt samstarf atvinnulífsins og Háskólans. Samstarfið byggist annars vegar á reynslu þeirra sem þekkja rekstur og útgerð og hins vegar þeirra sem leita nýrrar þekkingar við Háskóla Íslands. Úr þessu samstarfi hafa orðið til fjölmargir spennandi sprotar sem margir hafa orðið burðarásar í íslensku atvinnulífi. Á þessu stefnumóti var farið sérstaklega yfir stöðu kvenna í sjávarútvegi en rannsóknir sýna að hlutfall þeirra meðal stjórnenda í greininni er töluvert minna en almennt gerist í íslensku atvinnulífi. Ljóst er að þarna þarf að sækja verulega fram enda er jafnrétti hornsteinn sjálfbærs samfélags.

Starfið í Háskóla Íslands er afar líflegt þessa dagana og í dag klukkan 11.30 munu óvenju kraftmiklir tónar krauma í Hátíðasal Aðalbyggingar. Rokksveitin Sólstafir mætir þá til leiks í Háskólatónleikaröðinni og fyllir ef að líkum lætur Hátíðasalinn sjálfan með fólki og sínum magnaða takti og tónafossi. Sólstafir eiga upphaf sitt í svartþungarokki en hafa þróað sköpun sína á ýmsa vegu sem hefur skapað sveitinni hylli langt út fyrir landsteinana. Tónleikarnir eru spennandi fyrir alla sem unna tónlist og hvalreki fyrir aðdáendur framsækinnar rokktónlistar.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Njótum tónlistar í hádeginu og helgarinnar sem best við getum en förum áfram að öllu með gát. Hugum hvert að öðru og látum gott af okkur leiða.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

 

Hótel Saga