Skip to main content
12. október 2023

Hálfóraunverulegt að hitta Nóbelsverðlaunahafa

Hálfóraunverulegt að hitta Nóbelsverðlaunahafa - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir nýdoktorar og doktorsnemi við Háskóla Íslands gleyma eflaust seint liðnu sumri en þá gafst þeim færi á að hitta og eiga spjall við Nóbelsverðlaunahafa í líf- og læknavísindum á stórum viðburði í Lindau í Þýskalandi. Einn þátttakendanna, Sæmundur Rögnvaldsson, segir það hafa verið hálfóraunverulegt að fá að hitta og ræða við fólk sem gert hefur grundvallaruppgötvanir innan fræðanna.

Viðburðurinn sem um ræðir nefnist Lindau Nobel Laureate Meeting og hefur farið fram í Lindau í yfir 70 ár. Markmið hans er að leiða saman Nóbelsverðlaunahafa og unga og framúrskarandi vísindamenn í vikudagskrá sem samanstendur af bæði fyrirlestrum, pallborðsumræðum og minni umræðuhópum. Samkvæmt samningi sem Háskóli Íslands hefur gert við Lindau-stofnunina má skólinn tilnefna tvo núverandi eða nýútskrifaða nemendur til þátttöku á hverju ári en inntökuferlið fyrir viðburðinn er afar strangt og fjölmörgum tilnefningum hafnað ár hvert. Á hverju ári er viðburðurinn helgaður einni af greinunum sem Nóbelsverðlaun eru veitt fyrir og í ár voru það líf- og læknavísindi.

Háskóli Íslands tilnefndi tvo kandídata að þessu sinni, Sæmund, sem lauk doktorsprófi í læknavísindum frá Háskóla Íslands í fyrra og starfar nú sem nýdoktor við Læknadeild, og Þjóðbjörgu Eiríksdóttur, doktorsnema í rafmagns- og tölvuverkfræði sem einnig starfar sem vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. Bæði fengu boð til Lindau eftir hið stranga inntökuferli en auk þess fór Þórir Einarsson Long til fundar við Nóbelsverðlaunahafana. Honum hafði verið boðið árið 2020 en sá viðburður féll niður vegna kórónuveirufaraldursins. Þórir, sem lauk doktorsprófi frá HÍ 2019, stundar nú sérlæknisnám í Svíþjóð en er einnig nýdoktor við Læknadeild HÍ. 

Lindau

Lindau Nobel Laureate Meeting fer fram árlega í Lindau í Þýskalandi.

Í hópi 600 útvalinna ungra vísindamanna

Þau Sæmundur, Þjóðbjörg og Þórir voru í hópi ríflega 600 ungra vísindamanna alls staðar að úr heiminum sem gafst færi á að hitta 40 Nóbelsverðlaunahafa í líf- og læknavísindum dagana 25.-30. júní. Að sögn Sæmundar var dagskráin afar fjölbreytt. „Nóbelsverðlaunahafarnir héldu fyrirlestra um sínar uppgötvanir en líka um áskoranir í vísindum og fyrir mannkynið almennt. Auk þess var umtalsvert félagslíf á ráðstefnunni sem fólst í því að hitta aðra unga vísindamenn en einnig Nóbelsverðlaunahafana sjálfa. Þetta var mjög skemmtilegt og oft og tíðum hálfóraunverulegt að hitta Nóbelsverðlaunahafa sem sumir hverjir hafa gert algjörar grundvallaruppgötvanir á sínu sviði. Það var t.d. frekar sérstakt að sitja og spjalla við þann sem uppgötvaði hvernig T-frumur, sem gegna mikilvægu hlutverki í ónæmiskerfinu okkar, virka og svo er bara sá sem uppgötvaði ATP á næsta borði,“ Sæmundur en ATP er lífrænt efnasamband sem finnst í öllum frumum og er stundum kallað orkuefni líkamans.

Sæmundur segir að það hafi ekki síður verið áhugavert og skemmtilegt að hitta annað ungt vísindafólk sem margt hvert er að vinna að ótrúlega spennandi og flottum rannsóknarverkefnum að hans sögn.

„Nóbelsverðlaunahafarnir héldu fyrirlestra um sínar uppgötvanir en líka um áskoranir í vísindum og fyrir mannkynið almennt. Auk þess var umtalsvert félagslíf á ráðstefnunni sem fólst í því að hitta aðra unga vísindamenn en einnig Nóbelsverðlaunahafana sjálfa. Þetta var mjög skemmtilegt og oft og tíðum hálfóraunverulegt að hitta Nóbelsverðlaunahafa sem sumir hverjir hafa gert algjörar grundvallaruppgötvanir á sínu sviði,“ segir Sæmundur. MYND/Sæmundur Rögnvaldsson

Fræði og fjör í Lindau

Aðspurður um hvað hafi verið eftirminnilegast í Lindau tiltekur Sæmundur ýmislegt. „Til dæmis að dansa línudans með indónesísku sendiherrafrúnni, sláandi staðhæfingar eins Nóbelsverðlaunahafans um stöðu karla og kvenna í vísindum og danski dansandi Nóbelsverðlaunahafinn. En fyrirlestur Frances Arnold, sem hlýtur að vera einn besti fyrirlesari heims, stendur upp úr. Hún sagði frá rannsóknum sínum á ensímum af svo mikilli innlifun og mælsku að mig langaði eiginlega bara til að skipta um stafsvettvang og fara að rannsaka það sama og hún,“ segir Sæmundur og það er greinilegt af orðum hans að fræði og fjör fóru saman í Lindau. 

radstefnan

Fjör og fræði í Lindau.

Sæmundur er að hefja sinn vísindaferil og aðspurður segir hann að það sem standi upp úr í viðburðinum sé hversu merkileg og hvetjandi upplifun hann sé. „Ég er kominn í samband við sumt af þessu unga fólki sem ég hitti úti og ég er viss um að ég mun reyna að halda tengslum við eitthvert þeirra og jafnvel fara í samstarfsverkefni. Það voru mikil forréttindi að fara til Lindau og ég mun ekki gleyma þessari upplifun í bráð,“ segir Sæmundur að endingu.

Á YouTube-rás Lindau Nobel Laureate Meeting má finna frekari upplýsingar um viðburðinn og viðtöl við þátttakendur.

Sæmundur Rögnvaldsson, Þjóðbjörg Eiríksdóttir og Þórir Einarsson Long.