Hægt að tilkynna áreitni og einelti með hnappi á Uglu | Háskóli Íslands Skip to main content
30. janúar 2019

Hægt að tilkynna áreitni og einelti með hnappi á Uglu

""

Sérstakur hnappur, sem ætlað er að auðvelda fólki að tilkynna um kynbundna og kynferðislega áreitni eða ofbeldi, sem og einelti, innan háskólasamfélagsins, hefur verið settur upp á forsíðu innri vefs skólans, Uglunna.

Hnappurinn er ein af þeim aðgerðum sem unnið hefur verið að innan háskólans í framhaldi af því að rektor skipaði starfshóp í byrjun árs 2018 sem viðbrögð við #metoo ákalli kvenna í vísindum. Eitt af áherslumálunum sem tengjast aðgerðunum er að tryggja að starfsfólk og stúdentar viti af þeim úrræðum, sem eru fyrir hendi innan skólans til þess að takast á við ofbeldi og áreitni, og jafnframt hvernig eigi að nálgast þau. Auk hnappsins á Uglu er einnig hægt að tilkynna um áreitni og ofbeldi í gegnum tengil á forsíðu vefs Háskóla Íslands, hi.is. Þá er verið að skoða fleiri leiðir sem eiga að stuðla að því að þekking um úrræðin sé sem víðast innan háskólasamfélagsins, m.a. fræðsla til stjórnenda. 

Starfshópur rektors hafði það hlutverk að kanna hvaða frekari aðgerða væri þörf til að koma í veg fyrir kynbundið og kynferðislega áreitni og ofbeldi. Hann hafði samráð við fulltrúa kvenna í vísindum, fulltrúa nemenda, fagráð Háskóla Íslands og sérfræðinga innan og utan Háskólans við vinnu sína. Afrakstur vinnu hópsins eru 16 markmið og aðgerðir sem voru kynnt í mars á síðasta ári og nálgast má á vef Háskólans

Vinna hófst strax við aðgerðirnar og meðal þeirra sem eru komnar langt á veg er rannsókn á kennslukönnun sem mögulegs vettvangs áreitni. Niðurstöður eru væntanlegar í vor. Þá er unnið að könnun á umfangi og einkennum kynferðislegrar áreitni, eineltis og annars ofbeldis meðal nemenda og starfsfólks. Enn fremur hefur skólinn staðið fyrir margháttaðri fræðslu fyrir stjórnendur, starfsmenn og stúdenta þar sem áherslan er á jafnréttismál, vinnumenningu, birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni, eineltis og annars ofbeldis og úrræði háskólans. Lögð er áhersla á margvíslegar aðgerðir enda um flókið langtímaverkefni að ræða sem mikilvægt er að allt háskólasamfélagið vinni í sameiningu að.