Skip to main content
28. febrúar 2023

Fyrirburafæðingum fækkaði ögn í kjölfar sóttvarnaaðgerða á fyrstu mánuðum COVID-19

Fyrirburafæðingum fækkaði ögn í kjölfar sóttvarnaaðgerða á fyrstu mánuðum COVID-19 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Örlítið dró úr fyrirburafæðingum og hlutfall andvana fæðinga hélst stöðugt í kjölfar sóttvarnaraðgerða á fyrstu mánuðum COVID-19-faraldursins, samkvæmt nýrri rannsókn stórs alþjóðlegs hóps vísindamanna í 26 löndum, þar á meðal á Íslandi. Sagt er frá niðurstöðunum í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature Human Behavior sem kom út í dag. Þrjár vísindakonur við Háskóla Íslands eru meðal aðstandenda rannsóknarinnar sem er sú stærsta sinnar tegundar og tekur til 50 milljóna fæðinga í heiminum. 

Um það bil 10 prósent barna í heiminum fæðast fyrir tímann, þ.e. fyrir 37. viku meðgöngu, sem þýðir að fyrirburafæðingar eru um 15 milljónir í heiminum ár hvert. Fyrirburafæðingar og tengdir kvillar eru meðal helstu ástæðna ungbarnadauða á heimsvísu auk þess sem börn sem fæðast fyrir tímann eru í aukinni hættu á að fá ýmsa sjúkdóma og deyja fyrir aldur fram. Þá fæðast um tvær milljónir barna andvana ár hvert.

Flestar fyrirburafæðingar eru óvæntar en sumar eru þó skipulagðar til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi móður eða barns. Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að dragi úr tíðni fyrirburafæðinga á tilteknu tímabili geti það bent til þess að konur og börn, sem eru í mikilli hættu á að upplifa slíka fæðingu, fái ekki næga þjónustu og það geti stuðlað að auknum fjölda andvana fæðinga. Miklu skipti því að öðlast betri skilning á orsökum fyrirbura- og andvana fæðinga, þar á meðal við óvenjulegar aðstæður eins og í heimsfaraldri þar sem útgöngu- og samkomutakmarkanir geta haft mikil áhrif á líf fólks og mögulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Fyrstu rannsóknir á áhrifum faraldursins á fyrirbura- og andvana fæðingar gáfu nokkuð misvísandi niðurstöður í ólíkum löndum og jafnframt var óljóst hvort ólík viðbrögð stjórnvalda með tilliti til útgöngu- og samkomutakmarkana hefðu þar áhrif. Til þess að fá skýrari mynd af áhrifunum tók stór hópur vísindamanna um allan heim sig saman og hóf rannsókn sem ber heitið The International Perinatal Outcomes in the Pandemic (iPOP) Study. Að henni koma 167 samstarfsaðilar í 42 löndum auk alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðaheilbrigðismálasstofnunarinnar (World Health Organisation, WHO) og Fæðingarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (United Nations Population Fund).

„Þetta er ein umfangsmesta rannsókn á fæðingarútkomum á fyrstu mánuðum COVD-19-faraldursins,“ segir Helga Zoega, prófessor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands sem er einnig vísindamaður við University of New South Wales í Ástralíu og einn af stjórnendum rannsóknarinnar. Auk hennar koma Kristjana Einarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, og Emma Marie Swift, lektor í ljósmóðurfræði, að rannsókninni innan HÍ. 

Helga bendir enn fremur á að fyrstu rannsóknir á áhrifum kórónuveirufaraldursins hafi byggst á litlum gagnasettum eða afmörkuðum hópum. Í iPOP-rannsókninni sé stuðst við upplýsingar um fæðingar í 26 löndum á fyrstu fjórum mánuðum útgöngu- og samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum, eða alls 52 milljónir fæðinga. Hér á landi var byggt á fæðingaskrá Embættis landlæknis á tímabilinu 2015-2020 en á þeim tíma voru rúmlega 23 þúsund fæðingar á heilbrigðisstofununum landsins.

„Í meðalári eru tæplega 15 milljónir fyrirburafæðingar í heiminum en það þýðir að jafnvel hlutfallslega lítil fækkun getur haft mikil áhrif á fæðingarútkomur á heimvísu. Okkar mat út frá gögnunum er að komið hafi verið í veg fyrir nærri 50 þúsund fyrirburafæðingar á fyrstu mánuðum útgöngu- og samkomubanns í faraldrinum,“ bendir Emma á.

Fyrirburafæðingar drógust saman um 3-4 prósent

Í ljós kom að hlutfallslega fækkaði fyrirburafæðingum um 3-4 prósent á umræddu tímabili en þessi fækkun varð fyrst og fremst í hátekjulöndum (e. high-income countries), eins og Íslandi. Hins vegar reyndust engar breytingar verða á fjölda andvana fæðinga á þessum tíma faraldursins, en hér á landi er þær um 2,7 á hverjar 1.000 fæðingar. 

„Í meðalári eru tæplega 15 milljónir fyrirburafæðingar í heiminum en það þýðir að jafnvel hlutfallslega lítil fækkun getur haft mikil áhrif á fæðingarútkomur á heimvísu. Okkar mat út frá gögnunum er að komið hafi verið í veg fyrir nærri 50 þúsund fyrirburafæðingar á fyrstu mánuðum útgöngu- og samkomubanns í faraldrinum,“ bendir Emma á.

Meðal mögulegra skýringa á fækkun fyrirburafæðinga sem nefndar eru í greininni eru færri almennar sýkingar hjá barnshafandi konum og aukið hreinlæti ásamt minnkandi loftmengun frá umferð, en rannsóknir hafa sýnt að sýkingar og mengun geta stuðlað að bólgum sem aftur hafa áhrif á fyrirburafæðingar.

Gögnin úr iPOP-verkefninu eru sem fyrr segir afar yfirgripsmikil og munu að sögn Kristjönu geta nýst í alls kyns rannsóknir á næstu árum. Niðurstöður þeirra geta stutt við stefnumótun og klíníska vinnu tengdri fæðingarþjónustu. „Það er í raun magnað að svo stór hópur frá 42 löndum komi saman og leggi til sérfræðiþekkingu og gögn til þess að öðlast betri skilning á því hvaða áhrif heimsfaraldurinn hefur á mæður og nýbura,“ segir Kristjana. 

Að sögn Helgu hyggst rannsóknateymið halda áfram að greina gögnin og m.a. leita svara við því hvers vegna fyrirburafæðingum hafi fækkað á þessum fyrstu mánuðum faraldursins. „Rannsóknir eru þegar hafnar, þar á meðal á því hvaða áhrif fækkun almennra sýkinga, minni loftmengun og breytingar á streitu hjá barnshafandi konum í faraldrinum hefur á fæðingarútkomur,“ segir Helga.

Rannsóknina í Nature Human Behavior má nálgast á vef tímaritsins.

Emma Marie Swift, Helga Zoega og Kristjana Einarsdóttir