Skip to main content
21. maí 2021

Fulltrúar HÍ nemenda í burðarhlutverki innan Aurora

Fulltrúar HÍ nemenda í burðarhlutverki innan Aurora - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í nýjasta fréttabréfi Aurora er að finna skemmtileg viðtöl við Emily Reise, alþjóðafulltrúa SHÍ og ritara nemendafélags Aurora og Francescu Stoppani sem er önnur tveggja nemenda við HÍ sem gegna sjálfboðaliðastarfi í gegnum Aurora Student Champions Scheme. Emily var kosin ritari nemendafélags Aurora síðastliðið haust en kosið er í stöðuna til eins árs í senn. 

Í viðtalinu segir Emily að aðalmarkmið hennar í starfi hafi verið að gera starf Aurora sýnilegra og kveikja áhuga meðal nemenda í HÍ. Hún hefur lagt áherslu á að ná til nemenda í gegnum samfélagsmiðla þar sem hún hefur vakið athygli á viðburðum, efni tengdu Aurora og námskeiðum sem standa Aurora nemendum til boða. Það sem stendur upp úr að mati Emily er áherslan á að gefa nemendum færi á að vera þátttakendur í öllu starfi Aurora auk þess sem hún er spennt að sjá fleiri sameiginleg námskeið milli Aurora háskólana. 

Francesca Stoppani er ítalskur meistaranemi við Háskóla Íslands í stjórnmálafræði og stjórnun náttúruauðlinda með áherslu á norðurslóðir. Í viðtalinu fjallar hún um þverfaglega vinnu og möguleikana á öflugu tengslaneti sem Aurora samstarfið býður upp á. Hún kann vel að meta hvernig öllum sem taka þátt gefst færi á að koma sínum sjónarmiðum að. Hún nefnir einnig þann innblástur sem hún fær frá fræðimönnum sem eru í Aurora vinnuhópi með henni.

Áhugasamir eru hvattir til að lesa viðtölin við Emily og Francesca í heild sinni en jafnframt er bent á að hægt er að skrá sig á Aurora póstlistann og fá fréttabréfið sent reglulega.

Emily Reise