Skip to main content
29. október 2018

Framtíð Íslands – Hagnýtum hugvitið

""

„Eigi Ísland að taka þátt í þjóðfélagi framtíðarinnar þurfum við að styrkja stoðirnar og skapa stöðugleika,“ segir Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og stjórnandi hjá Google, en hann mun fyrstur stíga á svið í nýrri fyrirlestraröð Háskóla Íslands þar sem sjónum er beint að nýsköpun og mikilvægi hennar. Erindi Guðmundar heitir „Framtíð Íslands“ þar sem hann mun fjalla um mikilvægi nýsköpunar fyrir okkur Íslendinga.

Streymi frá viðburðinum

Nýsköpun er undirstaða framfara og hún treystir samkeppnisstöðu okkar til langframa. Í nýju röðinni, sem ber heitið „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“, er ætlunin að undirstrika mikilvægi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag. Fjallað verður um ferðalag hugmynda yfir í fullmótuð fyrirtæki eða afurðir, hvernig íslenskt samfélag og stjórnvöld geta betur stutt við nýsköpunarstarf og bætt fjármögnun frumkvöðlastarfs auk þess sem sjónum er beint að tengslum frumkvöðla, fjárfesta, atvinnulífs og háskóla.

„Við þurfum öflugt menntakerfi,“ segir Guðmundur varðandi tengsl menntunar og atvinnulífs, „Við verðum að vinna í grunnrannsóknum en háskólarnir sá á margan veg mikilvægum fræjum fyrir atvinnulífið. Við verðum líka að samþykkja að heimurinn er að breytast. Í stað þess að hindra breytingar þurfum við að verða hluti af þeim. Annars fer illa.“

Háskóli Íslands í hópi þeirra bestu í nýsköpun
Það fer vel á því að Háskóli Íslands beini sjónum að nýsköpun með þessum hætti.  Á dögunum var nefnilega tilkynnt að Háskólinn væri í hópi bestu háskóla í Evrópu fyrir verðandi frumkvöðla og þá sem hyggjast leggja fyrir sig nýsköpunarstarf. Danska sprotamiðlunarfyrirtækið Valuer birti þessa niðurstöðu. 

Á lista fyrirtækisins eru alls 45 skólar, einn frá hverju Evrópulandi, sem taldir eru bjóða upp á besta grunnnámið í viðskiptafræði í sínu landi og leggja bæði áherslu á fræðilega og hagnýta þekkingu í náminu. Undirstaðan er sterkur grunnur í viðskiptafræði fyrir fjölþjóðlegt og síkvikt viðskiptalíf en jafnframt áhersla á nýsköpun og frumkvöðlahugsun.

Dýrmæt reynsla frá Apple og Google
Frumkvöðullinn Guðmundur Hafsteinsson hefur gríðarlega reynslu af nýsköpun þrátt fyrir ungan aldur en hann er yfirmaður vöruþróunar hjá Google og var nýlega skipaður formaður í stýrihóp um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Guðmundur, sem er fæddur árið 1975, hefur starfað hjá Google frá 2014 og leitt starf við þróun margra af helstu tækninýjungum fyrirtækisins. Apple og Google skipa nú tvö efstu sætin á listum flestra matsfyrirtækja yfir verðmætustu vörumerki veraldar. Þar var gosdrykkjaframleiðandinn Coca-Cola lengi vel en upplýsingatæknifyrirtækin hafa fyrir allnokkru tekið afgerandi forskot. 

„Google og Apple vinna bæði með hliðsjón af því að í nánustu framtíð verður allt tengt við netið. Þau styðja bæði markvisst við nýsköpun með langtímamarkmið í huga,“ segir Guðmundur. „Það sem heillar við Google, þar sem ég starfa núna, er sú staðreynd að þar eru einfaldlega allir klárari en þú. Það er vissulega mjög krefjandi en líka gefandi og hvetjandi að vinna með slíku hæfileikafólki. Þarna vinna allir saman í góðum vilja að leysa öll heimsins vandamál. Hjá Google er mikil virðing borin fyrir nýsköpun og vilja starfsmanna til að leysa þessi vandamál, enda hefur fyrirtækið algerlega byggt sérstöðu sína á nýsköpun“ 

Áðurnefnt mat Valuer á styrk háskóla í nýsköpun byggist m.a. á stöðu háskólanna á alþjóðlegum matslistum, gráðum sem skólinn býður upp á og frumkvöðlum í hópi fyrrverandi nemenda skólans. Guðmundur Hafsteinsson er svo sannarlega einn af þeim. Hann er með B.Sc.-gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu frá MIT í Bandaríkjunum, sem er einn virtasti háskóli veraldar.  Áður en hann hóf störf hjá Google núna síðast vann hann við þróun Siri hjá Apple, en í undanfara þess vann hann við þróun Google Maps á farsíma og við þróun raddleitar Google. Hann hefur einnig stofnað fyrirtæki á sviði tækniþróunar og nýjunga sem leiddi af sér þau nýsköpunarstörf sem hann hefur unnið við æ síðan.

Velgengni byggist á hágæða menntakerfi
Guðmundur er á því að Íslendingar geti lært mikið af velgengni Bandaríkjamanna, ekki síst á sviði upplýsingatækni en hann þekkir best til í Kísildalnum í Kaliforníu þar sem mörg helstu upplýsingatæknifyrirtæki heimsins hafa aðsetur, m.a. Apple og Google. Guðmundur er á því að velgengnin í Kísildalnum byggist á hágæðamenntakerfi sem hefur notið velvilja og markvissrar fjárfestingar. 

„Það er velvild stjórnvalda og atvinnulífs gagnvart grunnrannsóknum og menntun og langtímafjárfesting sem skilar þessum vexti – í þessu tjalda menn ekki til einnar nætur. Hér þurfum við að horfa til þess sama og að hafa líka alla þætti sem skipta máli í mikilli nánd, þ.e. fjárfesta, frumkvöðla, háskólana og atvinnulífið. Það þarf að auðvelda tengslamyndun á þessu sviði til að ýta undir nýsköpun og hagnýtingu hugmynda.“

Mikilvægt að auka verðmæti þess sem auðlindir gefa
Guðmundur segir að Google og Apple byggi bæði þróunarstarf sitt á hugviti og undirstaða nýjunga hjá fyrirtækjunum sé í grunnrannsóknum háskólanna. Hann segir að Ísland sé afar ríkt af hugviti og í því sambandi nefnir hann sýndarveruleika- og tölvuleikjafyrirtækið CCP, „en Íslendingar eru líka mjög farsælir að eiga miklar og verðmætar auðlindir. Það er afar mikilvægt fyrir auðlindaþjóðfélag eins og okkar að vinna úr eigin hráefnum og þar kemur nýsköpun við sögu. Sjávarútvegurinn er afar gott dæmi. Við fáum núna mun meiri verðmæti úr minni afla, eingöngu vegna nýsköpunar í greininni,“ segir Guðmundur. „Við verðum að ná því sama úr öllum auðlindum okkar, úr orkugeiranum og ferðaþjónustunni, en við þurfum stöðugt að huga að nýsköpun á öllum sviðum til að tryggja að við fáum sem mest úr þessum auðlindum.“

Að vera frumkvöðull krefst ekki neins ákveðins hæfileika
Aðspurður um hvað einkenni frumkvöðla, hvað valdi því að sumir finni upp hluti, innleiði nýjungar og stofni fyrirtæki á meðan aðrir sinni síður sköpunarvinnu, þá hefur Guðmundur þetta segja: „Ég svara þessu með annarri spurningu. Hvernig getum við bætt heiminn? Þessi spurning  keyrir nær alla frumkvöðla áfram. Frumkvöðlar þurfa ekki neinn ákveðinn hæfileika, bara forvitni og  drifkraftinn að gera betur. Svo er þetta bara fjári mikil vinna,“ segir Guðmundur og hlær. 

Það hefur langur tími liðið frá því Guðmundur var í Háskóla Íslands og heimurinn hefur breyst heilmikið frá því hann tók við brautskráningarskírteini úr hendi Páls Skúlasonar sem þá var rektor.  „Vandamál þess tíma eiga ekki lengur við,“ segir Guðmundur og horfir til baka en venjulega beinir hann athyglinni að því sem er fram undan.  „Aðferðafræðin og að gefast aldrei upp er sá lærdómur sem kemur beint úr Háskólanum. Það hefur reynst mér frábært veganesti á ferlinum,“ segir þessi geðþekki frumkvöðull.

Mikilvægt að skapa nýja þekkingu og hagnýta 
Við hvetjum fólk til að fjölmenna á erindi Guðmundar til að hlýða á mikilvægi þess að við sköpum stöðugt nýja þekkingu og að við leitum allra leiða til að hagnýta hana. Það verður án efa spennandi að heyra Guðmund fjalla um framtíð okkar og mikilvægi nýsköpunar fyrir atvinnulíf og íslenskt samfélag. Hann ætlar að tala um hvernig háskólar sá fræjum fyrir atvinnulífið með grunnrannsóknum sínum. Viðburðurinn verður í Aðalbyggingu í hádeginu, föstudaginn 2. nóvember og er hann opinn öllum.  Að sjálfsögðu er ókeypis aðgangur.  Streymt verður beint frá viðburðinum og munu dyrnar á Hátíðasal standa opnar á meðan húsrúm leyfir.

Boðið verður upp á veitingar í framhaldi af fundinum en Guðmundur talar milli klukkan 12 og 13.

Næsti fyrirlestur – ferðin frá hugljómun til afurðar

Í nýju fundaröðinni „Nýsköpun - hagnýtum hugvitið“ verður stefnt saman virtum rannsakendum úr Háskóla Íslands, fagfólki og frumkvöðlum víðar úr samfélaginu sem eiga það sameiginlegt að vinna að nýsköpun í íslensku og alþjóðlegu samfélagi.  Þau næstu sem tala í röðinni á eftir Guðmundi Hafsteinssyni eru frumkvöðlarnir Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, doktor í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands, og Einar Stefánsson, prófessor í augnlæknisfræði við Háskóla Íslands.  Þau hafa bæði stofnað sprotafyrirtæki og þekkja vel ferðalagið frá hugljómun til verðmætrar afurðar. Einar Stefánsson er margverðlaunaður fyrir störf sín á sviði augnlæknisfræði og Sandra Mjöll hefur líka hlotið ýmis verðlaun fyrir nýsköpun og vann ekki fyrir alls löngu aðalverðlaun Evrópudeildar GWIIN-samtakanna, sem veita viðurkenningu til kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Erindi þeirra Söndru og Einars verður án efa spennandi en það fer fram þann 22. nóvember nk. 
 

Guðmundur Hafsteinsson