Skip to main content
7. janúar 2015

Fjórar ungar vísindakonur verðlaunaðar fyrir rannsóknir

Fjórar ungar vísindakonur voru verðlaunaðar fyrir rannsóknarverkefni sín á sautjándu ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands. Verðlaunin voru afhent við slit ráðstefnunnar á Háskólatorgi þann 6. janúar síðastliðinn.

Ellen Alma Tryggvadóttir, M.Sc. í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar, fyrir verkefnið „Fæðuval íslenskra kvenna á meðgöngu og tengsl við meðgöngusykursýki“. Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Heiða María Sigurðardóttir, nýdoktor við Sálfræðideild, hlaut verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, til ungs og efnilegs vísindamanns. Á ráðstefnunni flutti hún erindið „Röskun á sjónrænum hluta- og andlitskennslum í lesblindu: Skert starfsemi kviðlægs sjónstraums?“. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp og afhenti verðlaunin.

Eydís Einarsdóttir, doktorsnemi við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði, til ungs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði, fyrir verkefnið „Nýjar N-acil-dópamín afleiður úr svampdýrinu Myxilla incrustans sem var á Strýtunum í Eyjafirði“. Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar og formaður valnefndar, flutti ávarp og Kristín Ólafsdóttir, dósent við Læknadeild, afhenti verðlaunin.

Ólöf Birna Ólafsdóttir, doktorsnemi við Læknadeild, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar, sem veitt eru af Félagi íslenskra lífeðlisfræðinga, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina, fyrir verkefnið „Súrefnismettun sjónhimnuæða við innöndun 100% O2 í heilbrigðum einstaklingum og glákusjúklingum“. Sighvatur Sævar Árnason, dósent við Læknadeild, flutti ávarp og afhenti verðlaunin.
 

 Verðlaunahafarnir fjórir. Frá vinstri: Ólöf Birna Ólafsdóttir, Heiða María Sigurðardóttir, Ellen Alma Tryggvadóttir og Eydís Einarsdóttir.
Frá vinstri: Fanney Þórsdóttir, formaður ráðstefnunefndar, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Sighvatur Sævar Árnason, dósent við Læknadeild, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Ólöf Birna Ólafsdóttir, Heiða María Sigurðardóttir, Ellen Alma Tryggvadóttir, Eydís Einarsdóttir, Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Inga Þórsdóttir, forseti HVS.
 Verðlaunahafarnir fjórir. Frá vinstri: Ólöf Birna Ólafsdóttir, Heiða María Sigurðardóttir, Ellen Alma Tryggvadóttir og Eydís Einarsdóttir.
Frá vinstri: Fanney Þórsdóttir, formaður ráðstefnunefndar, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Sighvatur Sævar Árnason, dósent við Læknadeild, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra, Ólöf Birna Ólafsdóttir, Heiða María Sigurðardóttir, Ellen Alma Tryggvadóttir, Eydís Einarsdóttir, Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins, Magnús Karl Magnússon, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Inga Þórsdóttir, forseti HVS.