Skip to main content
13. janúar 2015

Fjölsóttasta ráðstefna sviðsins frá upphafi

""

Sautjánda ráðstefna Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands fór fram á Háskólatorgi dagana 5. og 6. janúar 2015 og tókst afar vel. Yfir 800 manns skráðu sig á ráðstefnuna og var hún sú fjölsóttasta frá upphafi. Sérstaklega ánægjulegt þótti hversu margir nemendur við sviðið mættu á ráðstefnuna.

Dagskráin var fjölbreytt en í ár voru flutt rúmlega 160 erindi og um 130 veggspjöld voru sýnd. Viðfangsefnin voru fjölmörg og spönnuðu vítt svið líf- og heilbrigðisvísinda. Á meðal efnisflokka á dagskrá má nefna faraldsfræði, heilsueflingu, ónæmisfræði, dýrarannsóknir, erfða- og frumulíffræði, tannheilsu, augnsjúkdóma, meðgöngu og fæðingu, hjartalækningar, stoðkerfi og lyfjafræði. Ágrip allra rannsókna sem kynntar voru á ráðstefnunni voru gefin út í fylgiriti Læknablaðsins.

Líkt og á fyrri ráðstefnum voru gestafyrirlestrar og opinn fræðslufundur fyrir almenning. Ráðstefnan hófst með fyrirlestri Hans Tómasar Björnssonar, læknis við McKusick-Nathans erfðalækningastofnunina og Johns Hopkins háskólasjúkrahúsið, um Kabuki-heilkennið og mögulega meðhöndlanlega ástæðu við þroskaskerðingu. Síðari ráðstefnudagurinn hófst með fyrirlestri Sigurðar Guðmundssonar, smitsjúkdómalæknis og prófessors við Læknadeild, um ebólu en Sigurður þekkir víða til í löndum Afríku eftir að hafa unnið m.a. að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins í Malaví.

Almenningi var boðið til fræðslufundar en þar tóku til máls Arna Hauksdóttir, dósent við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, og Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Að þessu sinni fjallaði Arna um náttúruhamfarir og heilsu á Íslandi og tækifæri til þekkingarsköpunar á alþjóðavettvangi í því samhengi. Herdís Sveinsdóttir, fjallaði um líf, heilsu og blæðingar kvenna út frá margs konar sjónarhornum í fyrirlestrinum „Góðar og blessaðar tíðir.“

Við ráðstefnuslit voru fjórar ungar og efnilegar vísindakonur verðlaunaðar fyrir rannsóknir sínar. Til gamans má geta þess að mörg þeirra rannsóknarefna sem voru á dagskrá ráðstefnunnar rötuðu í fjölmiðla og almennt var umfjöllun um ráðstefnuna mikil og góð. Fyrir áhugasama má hér sjá samantekt sem hefur að geyma brot af umfjöllun fjölmiðla um ráðstefnuna.

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni.

Yfir 800 manns skráðu sig á ráðstefnuna og var hún sú fjölsóttasta frá upphafi.
Yfir 800 manns skráðu sig á ráðstefnuna og var hún sú fjölsóttasta frá upphafi.