Skip to main content
20. júní 2023

Ferðamála- og landfræðinemar í námsferð þvert yfir hnöttinn

Ferðamála- og landfræðinemar í námsferð þvert yfir hnöttinn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Alls 19 nemendur í landfræði og ferðamálafræði við Háskóla Íslands lögðu land undir fót í maímánuði og fóru alla leið til Suður-Afríku í námsferð ásamt kennara sínum. Markmið ferðarinnar var að auka þekkingu nemendanna á suðurafrísku samfélagi með áherslu á m.a. skipulag þjóðgarða, náttúruvá, sjálfbæra ferðamennsku og áhrif aðskilnaðarstefnu á borgarlandslag.

Í landfræðinámi við Háskóla Íslands hefur verið boðið upp á valnámskeiðið „Námsferð til útlanda“ í um 50 ár og býðst það einnig nemum í ferðamálafræði sem kennd er að hluta með landfræðinni. Síðustu tvær námsferðir hafa verið skipulagðar í samstarfi við landfræði- og umhverfisvísindadeild Stellenbosch-háskóla í Suður-Afríku en grunnur var lagður að samstarfinu með stuðningi Erasmus-áætlunar Evrópusambandsins.

Magnfríður Birnu Júlíusdóttir, lektor í landfræði við HÍ, fór í maí 2019 í fyrstu námsferðina á þetta svæði og Ronnie Donaldson, prófessor við Stellenbosch-háskóla, heimsótti HÍ sama ár. „Eftir að COVID-takmörkunum á ferðalög var aflétt var farið í aðra námsferð 16.–24. maí í ár með 19 nema sem voru að ljúka námi á öðru og þriðja ári í landfræði og ferðamálafræði. Nemar bera sjálfir kostnað af ferðum og uppihaldi og vettvangsferðir með leiðsögn heimafólks eru skipulagðar í samstarfi við tengilið í Stellenbosch-háskóla. Auk starfandi háskólakennara nutum við leiðsagnar kennara á eftirlaunum, sem hafa meiri tíma í svona aukaverkefni, en einnig fengum við fólk sem starfar við markaðssetningu og skipulag ferðamennsku á svæðinu til að fræða hópinn,“ segir Magnfríður.

Eftirminnileg heimsókn í Langa-hverfið

Háskóla- og þjónustubærinn Stellenbosch er í miðju vínræktarhéraðs Suður-Afríku, rétt við Höfðaborg (Cape Town). Um 33 þúsund nemar eru í Stellenbosch-háskóla og setur háskólalífið mikinn svip bæinn auk ferðamanna sem að sækja í vínbúgarða á svæðinu. Eins og títt er um bæi og borgir í Suður-Afríku er arfleifð aðskilnaðarstefnu sem byggist á kynþáttahyggju enn greinileg í skipulagi og mannlífi bæjarins. Hægt er að dvelja í gamla miðbænum og á háskólasvæðinu án þess að sjá um 80 þúsund manna hverfi svartra og litaðra sem er falið á bak við hæð í landslaginu. 

„Eitt af markmiðum námsferðar á þessar slóðir er að nemendur fái innsýn í sögu og arfleifð þessarar misskiptingar í borgarlandslagi svæðisins. Við heimsóttum m.a. Kayamandi-hverfið á bak við hæðina í Stellenbosch þar sem verið er að byggja upp ferðamennsku með gönguferðum undir leiðsögn íbúa. Einnig var farið í dagsferð í Langa-hverfið í Höfðaborg, sem að var skipulagt fyrir 100 árum sem dvalarstaður fyrir svart vinnufólk frá þeim svæðum sem að skilgreind voru sem heimasvæði svartra á tímum aðskilnaðarstefnunnar á seinni hluta 20. aldar. Á þeim tíma þurftu svartir að hafa vegabréf til að mega dvelja í borgum sem að skilgreindar voru sem svæði hvítra íbúa,“ útskýrir Magnfríður.

Heimsóknin í Langa-hverfið var mjög eftirminnileg. „Við byrjuðum á því að fara í samfélagsmiðstöð svæðisins þar sem íbúum er kennd ýmis færni til að verða frumkvöðlar og skapa sín eigin tækifæri, m.a. í leirgerð, mósaík, við trommuleik, hekl eða aðra listsköpun,“ segir Hildur Sif Guðmundsdóttir, nemi í ferðamálafræði, sem var í hópi ferðalanga. Nemendur fengu jafnframt kennslu í að tromma á „humbra“, sem eru nokkurs konar bongótrommur. 

Mikill stéttamunur áberandi

Eftir það leiddi leiðsögumaður úr hverfinu, Lizo, hópinn um götur Langa og deildi sögum af sögu bæjarins, hefðum og baráttu. „Að sjá hvernig aðstæður fólk býr við í dag, fara inn í hálfan gám vitandi að fimm manna fjölskylda býr þar sker mann í hjartað. Ég fann fyrir svo mikilli sorg að sjá hversu mikill stéttarmunurinn er, annaðhvort ertu rosa ríkur eða rosa fátækur. Ég hef aldrei verið jafn þakklát fyrir hvaðan ég kem og hvað ég hef og hef ákveðið að kvarta aldrei yfir íslenska veðrinu aftur. Það er gjörsamlega nauðsynleg upplifun fyrir alla að sjá hvernig aðrir búa,“ segir ferðamálafræðineminn Rakel Sól Pétursdóttir um heimsóknina í Langa. 

Rakel

Rakel Sól Pétursdóttir ferðamálafræðinemi.

Undir þetta tekur Hildur Sif. „Dagurinn í Langa veitti ekki aðeins innsýn í daglegt líf íbúanna heldur var einnig áminning um þolgæði og styrk í jaðarsettum samfélögum,“ segir hún.

Hildur Sif segir að einn af hápunktunum hafi einnig verið tækifærið til að smakka alvöru suðurafrískan mat í Langa. „Við söfnuðumst saman á matsölustaðnum Mzansi og snæddum hefðbundna rétti sem voru ekkert smá góðir! Chakalaka og Umnqusho voru í uppáhaldi og fá einkunnina 10 af 10. Hver biti gaf svo mikla innsýn í ríka matreiðsluarfleifð svæðisins og sýnir fjölbreytileikann og bragðið sem gerir suðurafríska matargerð svo einstaka,“ segir Hildur Sif.

Áþreifanleg áhrif aðskilnaðarstefnunnar

Í Höfðaborg var líka farið í heimsókn í safn sem tileinkað er sögu District 6, sem þýða má sem Hverfi sex á íslensku. Áhrifamikil frásögn leiðsögumannsins Joe, sem ólst upp í hverfinu, hreyfði við mörgum. „Í stuttu máli þá var District six líflegt hverfi í miðbæ Höfðaborgar á fyrri hluta 20. aldar þar sem fólk af mismunandi uppruna, húðlit og trúarbrögðum bjó saman í sátt og samlyndi. Um 1960 var hverfið skilgreint sem svæði aðeins fyrir hvíta og um 60 þúsund manns sem ekki féllu undir þá skilgreiningu voru neydd til að flytja í ný hverfi með litla þjónustu um 40 kílómetra frá miðbænum. Gömlu heimili þeirra voru síðan jöfnuð við jörðu og skildu þessir nauðungarflutningar bæði eftir sár í landslaginu og hugum fólks,“ segir Magnfríður. 

Joe, jazzsöngvari og leiðsögumaður hópsins á Distric 6 safninu í Höfðaborg, miðlaði af eigin reynslu um það óréttlæti og sársauka sem að fylgdi aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.

Þjóðgarður í borg

Auk misskiptingar og þróunar ferðamennsku voru breytingar á vistkerfi, náttúruvá og skipulag þjóðgarða einnig á dagskrá námsferðarinnar. „Höfðaborg hefur þá sérstöðu að vera með stóran þjóðgarð nánast í miðri borginni, Table Mountain National Park. Við heimsóttum þann hluta sem hefur mest aðdráttarafl fyrir ferðamenn og heimafólk, sem er lítil strönd þar sem reynt er að vernda það sem eftir er af mörgæsastofni sem býr á svæðinu. Einnig var farið í þann hluta þjóðgarðsins sem að nær að Góðravonarhöfða og fengum við góða leiðsögn um einkennisplöntur svæðisins, Fynbos-runna, og dýralíf sem að þrífst þar í næringarsnauðum jarðvegi,“ segir Magnfríður og bætir við að tegundafjölbreytni gróðurs sé einstök í héraðinu og er hluti þess á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna vegna gróðursins. 

„Ágengar tegundir trjáa, sem fólk frá nýlenduveldum flutti inn á svæðið, eru mikil ógn við vatnsbúskap og innlendan gróður og því er unnið markvisst að því að eyða þeim í þjóðgarðinum. Að sögn leiðsögumanns okkar um þjóðgarðinn, náttúruverndarsinnans og heiðursþjóðgarðsvarðarins Paul, eru eyðing innfluttu trjánna og höft á lausagöngu hunda í þjóðgarðinum, auk fjölgunar íbúa í borginni, meðal helstu átakaefna við rekstur þjóðgarðsins,“ segir Magnfríður enn fremur.

Afar lærdómsrík ferð

Ferðin til Suður-Afríku reyndist nemendum afar lærdómsrík og veitti góða innsýn inn í baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni. „Að heimsækja sögustaði eins og Robben Island og District 6 safnið veitir dýpri skilning á fortíð landsins og áframhaldandi leit íbúa þess að jafnrétti. Að skoða mismunandi samfélög, eins og til dæmis Langa, býður upp á innsýn í hina lifandi menningu, hefðir og tungumál. Það undirstrikar fjölbreytileikann og mikilvægi þess að hlúa að einingu þar sem ágreiningur hefur verið ríkjandi,“ segir Hildur Sif.

Í ferðinni fengu nemendur einnig innsýn í vandamál sem eru hversdagsleg í Suður-Afríku en við Íslendingar fáumst æ sjaldnar við, eins og rafmagnsleysi. „Það er skrítið að vera í risamatvörubúð og allt í einu verður allt kolsvart og algjör þögn. Svo einni mínútu seinna kviknar á vararafali. Það er erfitt að gera sig til í myrkri og geta ekki hlaðið síma eða ristað sér brauð, svo dæmi séu tekin, en þetta er raunin hjá íbúum þarna í 8-12 klukkustundir á dag,“ bendir Rakel á.

nemendur og kennari

Í þjóðgarði við Góðravonarhöfða ásamt leiðsögumanninum Paul van Helden, sem er prófessor í líffræði á eftirlaunum og heiðursþjóðgarðsvörður. Hann þekkti allar plöntur, dýr og dýraspor á svæðinu, en er þekktur í vísindum fyrir rannsóknir sínar á berklum. 

Ægifögur náttúra og sjálfbær ferðamennska

Ægifögur náttúra og dýralíf stendur líka upp úr hjá ferðamálafræðinemunum, en þau skelltu sér m.a. í safarí í ferðinni. „Náttúra Suður-Afríku er klikkuð! Að upplifa náttúrufegurð landsins minnir okkur á mikilvægi umhverfisverndar og nauðsyn þess að vernda dýrategundir í útrýmingarhættu,“ undirstrikar Hildur Sif.

Hún bætir við að Suður-Afríka sé gott dæmi um mikilvægi ábyrgrar og sjálfbærrar ferðaþjónustu. „Að fræðast um samfélagslegt frumkvæði, að styðja staðbundin fyrirtæki og taka þátt í vistvænum starfsháttum getur mótað hugarfar okkar í átt að meðvitaðri ferðalögum og þeim jákvæðu áhrifum sem við getum haft á staðina sem við heimsækjum,“ segir Hildur Sif að endingu.

Nemendur og kennari við Góðravonarhöfða.