Skip to main content
1. mars 2022

Félagsfræðinemar verðlaunaðir fyrir lokaritgerðir

Félagsfræðinemar verðlaunaðir fyrir lokaritgerðir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tveir nemendur úr félagsfræði við Háskóla Íslands, þær Jónína Riedel og Hugrún Snorradóttir, tóku við verðlaunum Félagsfræðingafélags Íslands árið 2021 fyrir framúrskarandi ritgerðir í grunn- og framhaldsnámi á Félagsfræðideginum sem haldinn var hátíðlegur föstudaginn 25. febrúar. Við saman tilefni var tilkynnt um endurreisn tímarisins Íslenska þjóðfélagsins, en það er helgað rannsóknum sem hafa félagsfræðilega skírskotun. 

Jónína Riedel brautskráðist með BA-próf í félagsfræði í maí 2021 en lokaverkefni hennar bar yfirskriftina „Easier said than done“ Þemagreining á Fæðingarsögum feðra“. Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í upplifanir feðra af fæðingum með þemagreiningu á frásögnum þeirra af fæðingum barna sinna. Ætlunin var m.a. að svara því hverjir eru sameiginlegir snertifletir í upplifunum feðra af fæðingum á Íslandi og hvernig þeir samrýmist niðurstöðum fyrri rannsókna. Byggt var á nafnlausum frásögnum sem safnað hefur verið undir yfirskriftinni Fæðingarsögur feðra og ætlunin er að gefa út. Niðurstöður rannsóknar Jónínu leiða í ljós sex þemu í fæðingarsögunum. Fyrirferðamest er þema stolts og gleði yfir maka og ungabarni en togstreita og gagnsleysi einkenna upplifanir þónokkra feðra af eigin hlutverki. Þá er stuðningshlutverk feðra í fæðingum áberandi þema sem og sjálfsöryggi og ótti og stress. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður fyrri rannsókna. Sunna Símonardóttir, aðjunkt og nýdoktor í félagsfræði við Háskóla Íslands, leiðbeindi Jónínu. 

Hugrún Snorradóttir lauk MA-prófi í lýðheilsu með útskrift úr félagsfræði í febrúar 2021. Lokaverkefni hennar bar titilinn „Inequality in Health? Neighborhood Perspective and Neighborhood Effect on Self-Rated Health in Reykjavík, Iceland“. Í henni er tekist á við ójöfnuð í heilsu sem er vaxandi vandamál en hægt er að greina hann innan borga og á milli hverfa, bæði í Norður-Ameríku og Evrópu. Markmið rannsóknar Hugrúnar var að kanna hvort marktækur munur væri á mati á líkamlegri og andlegri heilsu milli íbúa í hverfum í Reykjavík og hvort sá munur tengdist upplifun svarenda á hverfunum sem þeir búa í. Hugrún byggði rannsókn sína á gögnum úr spurningarkönnunni „Heilsa og líðan Íslendinga“ frá árinu 2017. „Niðurstöður sýndu marktækan mun á mati á eigin líkamlegri og andlegri heilsu milli hverfa í Reykjavík og upplifun íbúa á hverfi sínu var einnig mismunandi. Niðurstöður sýndu einnig tengsl á milli upplifunar á hverfi og mati á eigin heilsu, þ.e.a.s. þeir sem meta líkamlega og andlega heilsu sína góða er líklegri til að upplifa hverfið sitt með jákvæðum hætti. Þessar niðurstöður virðast gefa til kynna að einhver heilsuójöfnuður sé til staðar á milli hverfa í Reykjavík,“ segir m.a. í ágripi af lokaritgerðinni. Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, var aðalleiðbeinandi Hugrúnar en auk hennar sátu þau Sigríður Haralds Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Landlækni, og Stefán Hrafn Jónsson, prófessor í félagsfræði og sviðsforseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í nefnd Hugrúnar. 

Íslenska þjóðfélagið er ritrýndur vettvangur fyrir félagsfræðilegar rannsóknir, en einnig birtast í tímaritinu rannsóknir innan mannfræði, þjóðfræði, stjórnmálafræði, kynjafræði, mennta- og uppeldisvísinda, fjölmiðlafræði, sálfræði, viðskiptafræði, ferðamálafræði og hagfræði. 

Íslenska þjóðfélagið eflt með stuðningi Félagsvísindasviðs

Þær stöllur tóku við viðurkenningu á viðburði tengdum Félagsfræðideginum sem fram fór í Veröld. Við það tilefni var jafnframt lögð áhersla á endurreisn tímaritsins Íslenska þjóðfélagið en stjórn Félagsfræðingafélags Íslands hefur unnið markvisst að styrkingu þess og sýnileika undanfarin misseri. Tímaritið kom fyrst út árið 2010 og hefur verið í nokkurri lægð en nýlega var samþykkt að Félagsvísindasvið mun koma að rekstrinum.

Við þetta sama tækifæri var nýtt ritstjórnarteymi kynnt. Þau Guðmundur Ævar Oddsson og Margrét Valdimarsdóttir, dósentar við Háskólann á Akureyri, hafa tekið við ritstjórn tímaritsins en Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði við Háskóla Íslands, vinnur með þeim og er hún starfsmaður Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. 

Íslenska þjóðfélagið er ritrýndur vettvangur fyrir félagsfræðilegar rannsóknir, en einnig birtast í tímaritinu rannsóknir innan mannfræði, þjóðfræði, stjórnmálafræði, kynjafræði, mennta- og uppeldisvísinda, fjölmiðlafræði, sálfræði, viðskiptafræði, ferðamálafræði og hagfræði. 

Frá afhendingu viðurkenninganna í Veröld. Frá vinstri: Stefán Hrafn Jónsson, prófessor og forseti Félagsvísindasvisð og einn leiðbeinenda Hugrúnar Snorradóttur, Hugrún Snorradóttir, Jónína Riedel og Sunna Símonardóttir, leiðbeinandi Jónínu.