Skip to main content
5. júní 2023

Farkerfi fugla góður mælikvarði á áhrif loftslagsbreytinga

Farkerfi fugla góður mælikvarði á áhrif loftslagsbreytinga - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tjaldurinn er einn af einkennisfuglum Íslands, svartur á kolli og baki en með hvíta bringu og langan appelsínugulan gogg sem hann notar til að sækja æti sem er ekki alls staðar það sama hjá tjöldum sem verpa hér. Hann hefur líka langa appelsínugula fætur sem hann nýtir sér til að vaða í fjörum og flóum í leit að æti. 

„Íslenskir tjaldar nota einkum tvenns konar búsvæði að sumri til varps. Hluti stofnsins heldur sig gjarnan í grennd við fjörur og strendur þar sem þeirra helsta fæða er kræklingur, hjartaskel, sandmaðkur og aðrir fjöruhryggleysingjar. Hinn hlutinn sækir í tún og graslendi inn til landsins, einkum á Suðurlandi þar sem þeir verpa og éta ánamaðka og skordýr.“ 

Þetta segir Sölvi Rúnar Vignisson sem helgar doktorsrannsókn sína tjaldinum. Rannsókn hans fjallar um farhegðun fugla og áhrif slíkrar hegðunar á lýðfræði fuglanna. Sölvi Rúnar hefur starfað sem vistfræðingur við Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði allar götur frá árinu 2013. Þar hafa flestar rannsóknir hans tengst fuglum eða fjöru. 

tjaldsungar

Tjaldsungar.

Verkefnið sem valdi vísindamanninn

Sölvi segir að verkefnið hafi eiginlega valið hann frekar en hitt. „Það er öflugt teymi fuglafræðinga við Rannsóknarsetur HÍ á Suðurlandi sem hefur rannsakað tjalda síðan 2013. Tjaldar eru einkennisfuglar Suðurnesja og það lá beinast við að ég tæki þátt í þessu verkefni. Ég byrjaði á að litmerkja fyrstu tjaldanna 2016 og hélt því svo áfram og fór að sjá áhugaverð munstur. Þá gerði ég samfélagsleg verkefni sem tengdust tjaldinum þar sem grunnskólabörn af Suðurnesjum tóku virkan þátt í rannsókninni með mér. Þá lá beinast við að ég tæki þetta skrefi lengra og athugaði hvort ekki væri rúm fyrir doktorsnema hjá Tómasi Grétari Gunnarssyni og gengi hans á Laugarvatni.“

Sú varð raunin og Tómas Grétar, sem er forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Laugarvatni, er aðalleiðbeinandi Sölva Rúnars í rannsóknum hans á tjaldinum. Veronika Mendez Aragon, rannsóknasérfræðingur hjá HÍ, er einnig meðal leiðbeinenda en hún hefur rannsakað tjaldinn árum saman við Rannsóknasetur HÍ á Suðurlandi. Til viðbótar eru þau José Alves, gestavísindamaður við HÍ, Jennifer A. Gill, dósent við East Anglia háskóla, og Jörundur Svavarsson, prófessor emeritus í sjávarlíffræði við HÍ.  

„Ég kláraði bakkalárverkefni frá Háskóla Íslands þar sem fuglar voru í brennidepli ásamt því að ljúka meistaraverkefni þar sem vaðfuglar á fari um Ísland nýttu fæðu í fjörum landsins til að fleyta sér áfram á varpstöðvar í Grænlandi og Kanada,“ segir doktorsneminn. Þessir fuglar eru t.d. sanderla, tildra, rauðbrystingur og hluti þeirra sandlóa og lóuþræla sem koma til landsins ár hvert.  

Þriðjungur stofns tjalda heldur hér til allt árið

Tjaldurinn er í sögnum tengdur veðri en það þótti öruggt merki um rigningu í vændum ef hann settist á tún með kvaki og hávaða en þessi fugl er talsvert fyrir að láta vita af sér með afar björtum hljóðum. Þótt tjaldurinn sé skilgreindur sem farfugl er hluti af stofninum hér allt árið. 

„Hann stundar hlutfar þar sem annar hluti stofnsins fer burt en hinn er um kyrrt. Í slíkum stofnum má áætla að aðstæður á varptíma séu svipaðar hjá öllum fuglum en farkerfið mismunandi og þeir því hentugir til samanburðar. Til dæmis ef aðstæður á vetrarsvæði staðfugla verða betri með hækkandi hitastigi vegna loftlagsbreytinga þá gæti kostnaður við að stunda far vegið þungt í samkeppni einstaklinga á varpsvæðum,“ segir Sölvi Rúnar. 

Sýnt hefur verið fram á að um þriðjungur íslenskra tjalda eru staðfulgar sem dvelja á Íslandi veturlangt meðan aðrir eru farfuglar og dvelja í vestur Evrópu. Tjaldurinn er einstakur meðal vaðfugla vegna þess að hann matar unga sína langt fram eftir hausti og jafnvel inn í veturinn. Það getur verið mjög sérstakt að sjá foreldra mata unga sína sem eru á stærð við þá sjálfa. Annað sem er sérstakt við unga tjaldsins að þeir eru syndir, öndvert við foreldrana, og geta nýtt sér slíkt á flótta undan afræningjum. 

„Breytingar á farkerfum fugla eru mjög góður þáttur til að átta sig á slíkum breytingum og áhrifum þeirra þar sem þær eru mjög áberandi og hentugar í mælingum. Tjaldar lifa bróðurpart ársins í fjörum sem eru á mörkum lands og sjávar. Helsta fæða þeirra eru skeldýr og hryggleysingjar í fjörum. Þeir fæðuhópar eru mjög viðkvæmir fyrir súrnun sjávar og ef þeir hópar ættu undir högg að sækja hefði það mikil áhrif á vaðfugla í fjörum landsins,“ segir Sölvi Rúnar Vignisson sem hér fræðir fólk um farfuglana í árlegri göngu HÍ og Ferðafélags Íslands. MYND/Jón Örn Guðbjartsson

Mikilvæg rannsókn sem getur haft víðtæk áhrif

Sölvi Rúnar er ekki í vafa um rannsókn sín á tjaldinum geti haft víðtæk áhrif. „Fyrir það fyrsta er lítið um eldri rannsóknir á þessum stofni hérlendis ásamt því að flestir íslenskir fuglar stunda far og með hlýnandi veðurfari þá er líklegt að staðfuglum fjölgi. Þetta eru breytingar sem í eðli sínu gætu haft mikil áhrif á íslenska náttúru og mikilvægt er að vakta og rannsaka þessar breytingar.“ 

Hann segir að helstu niðurstöður núna liggi í uppfærðu útbreiðslukorti af tjöldum, bæði hérlendis og erlendis, og hvernig ákveðnir varpstaðir séu frekar tengdir ákveðnum vetrarstöðvum. „Skýrasta dæmið er að þeir fuglar sem verpa á Vestfjörðum eru mun líklegri til að vera staðfuglar meðan fuglar á Suðurlandi eru mun líklegri til þess að vera farfuglar. Fjarlægð við góð vetrarsvæði hérlendis virðist hafa áhrif á val þeirra á vetrarsvæðinu. Næstu spurningar í rannsókninni sem vert er að svara er skilnaðartíðni fugla með tilliti til farhegðunar.“ Hér á Sölvi Rúnar við það hvort tjaldurinn finni sér nýjan maka með hliðsjón af fari en almennt er tjaldurinn einkvænisfugl sem heldur tryggð við makann að nokkru leyti. 

tjaldur

Brýnt að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika

Háskóli Íslands leggur þunga á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í heildarstefnu sinni og Sölvi Rúnar segir að rannsókn sín tengist þeim sjálfbærnimarkmiðum á margan veg. Hann segir að rannsóknin fjalli um að skynja og skilja breytingar á loftslagi en þær hafi víðtæk áhrif. Til þess að átta sig á þeim breytingum þurfi að vera hægt að sjá þær og meta áhrif þeirra. 

„Breytingar á farkerfum fugla eru mjög góður þáttur til að átta sig á slíkum breytingum og áhrifum þeirra þar sem þær eru mjög áberandi og hentugar í mælingum. Tjaldar lifa bróðurpart ársins í fjörum sem eru á mörkum lands og sjávar. Helsta fæða þeirra eru skeldýr og hryggleysingjar í fjörum. Þeir fæðuhópar eru mjög viðkvæmir fyrir súrnun sjávar og ef þeir hópar ættu undir högg að sækja hefði það mikil áhrif á vaðfugla í fjörum landsins. Tjaldar eru vaðfuglar sem vilja víðsýni og góð fæðusvæði að sumri til fyrir ungviði sitt. Tjaldar forðast að verpa í skógum eða í grennd við þá líkt og flestar vaðfuglategundir gera og þessi tegund fugla er mjög stór þáttur í íslenskri fuglafánu. Markmið Íslands við að halda uppi líffræðilegum fjölbreytileika skarast því á við markmið um kolefnisbindingu með skógrækt í fararbroddi.“ 

Sölvi Rúnar segir að besta leiðin til að auka líffræðilegan fjölbreytileika og binda kolefni sé að auka flatarmál votlendis með því t.d. að fylla upp í skurði ásamt því að friða lönd frá sumarhúsabyggðum og of mikilli beit. Hann segir að auk þess þurfi að horfa til hagsmuna náttúrunnar þegar ráðist sé í framkvæmdir. „Huga þarf að mikilvægum svæðum verpandi tjalda og fugla almennt og raunar alls lífríkisins þegar ráðist er í vegagerð, brúarsmíði eða uppsetningu á vindmyllum svo dæmi sé tekið.“

Tjaldur í höndum manns
Sölvi Rúnar fræðir hér áhugasama gesti í göngu HÍ og FÍ um farfuglana.