Skip to main content
23. júní 2023

Evrópskar borgir í brennidepli á ráðstefnu í HÍ

Evrópskar borgir í brennidepli á ráðstefnu í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þessa dagana stendur yfir ráðstefna á vegum Evrópsku borgarfræðasamtakanna (The European Urban Research Association – EURA) í Háskóla Íslands. Hana sækja yfir 300 gestir frá hátt í 50 löndum sem fást munu m.a. við málefni borga, borgarskipulags og stjórnmála í afar fjölbreyttum málstofum.

EURA eru rúmlega aldarfjórðungs gömul samtök fræðafólks sem fást við rannsóknir tengdar borgum á afar breiðum grunni. Til marks um það standa Stjórnmálafræðideild HÍ, Líf- og umhverfisvísindadeild skólans og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála saman að ráðstefnunni að þessu sinni í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Yfirskrift ráðstefnunnar er „The European City: A practice of resilience in the face of an uncertain future“. Markmið hennar er að rýna í seiglu evrópskra borga á tímum óvissu þar fengist er við loftslagsvá, COVID-19-faraldurinn og málefni flóttamanna svo dæmi séu tekin. 

„Eftir því sem borgir stækka eykst þörfin fyrir rannsóknir á þeim og þéttbýli almennt. Það er því mjög spennandi að fá borgarfræðaráðstefnu af þessari stærðargráðu til Íslands. Ráðstefnan er einnig liður í að vekja athygli á borgarfræðum almennt og hvað þau geta lagt fram til íslensks samfélags,“ segir Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild og formaður undirbúningsnefndar ráðstefnunnar.

Ráðstefnan stendur dagana 22.-26. júní og alls er boðið upp á 235 erindi í 55 málstofum í byggingum víða á háskólasvæðinu. Fengist verður við húsnæðismál, borgarskipulag, stjórnmál borga, sjálfbærar samgöngur, ferðaþjónustu, snjallborgir og ótal margt fleira. Meðal þátttakenda er stór hópur fræðafólks af ýmsum fræðasviðum Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og dagskrá hennar má finna á vef hennar.

Háskólasvæði