Skip to main content
12. febrúar 2021

Erlendum umsóknum fjölgar um fjórðung þrátt fyrir COVID-19

Erlendum umsóknum fjölgar um fjórðung þrátt fyrir COVID-19 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kórónuveirufaraldurinn virðist ekki hafa dregið úr áhuga  erlendra nemenda á námi við Háskóla Íslands því skólanum hafa borist um fjórðungi fleiri umsóknir í ár en á sama tíma í fyrra. Þá er útlit fyrir að nemendum sem sækjast eftir að komast í skiptinám í Háskólanum á næsta skólaári fjölgi einnig.

Umsóknartímabili fyrir erlenda nemendur sem vilja hefja nám skólaárið 2021-2022 lauk 1. febrúar síðastliðinn og reyndust umsóknir þeirra rúmlega 1.250. Til samanburðar voru þær um 1.000 á sama tíma í fyrra, sem var áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Nemur fjölgunin því um 25% milli ára.

Tæplega helmingur erlendra umsókna er um grunnnám og þar reynist íslenska sem annað mál langvinsælust en umsóknir um nám til grunndiplómu eða BA-náms í námsleiðinni eru tæplega 400. Vel á sjöunda hundrað umsóknir bárust um framhaldsnám frá erlendum ríkisborgurum. Þar reyndust umhverfis- og auðlindafræði, norrænt meistaranám í víkinga- og miðaldafræðum, hnattræn fræði, jarðvísindi og alþjóðasamskipti vinsælastar námsleiða. 

Flestar umsóknir bárust Hugvísindasviði, eða um 650, Verkfræði- og náttúruvísindasviði bárust rúmlega 200 umsóknir og þá reyndust erlendar umsóknir á Félagsvísindasviði tæplega 170. Enn fremur hafa Menntavísindasviði borist tæplega 80 umsóknir og Heilbrigðisvísindasviði um 40. Auk þess voru umsóknir um þverfræðilegt nám á framhaldsstigi rúmlega 100. 

Líklegt er að erlendum umsóknum eigi enn eftir að fjölga því Norðurlandabúum gefst líkt og íslenskum umsækjendum kostur á að sækja um framhaldsnám til 15. apríl og grunnnám til 5. júní. 

Yfir 700 nemendur með erlent ríkisfang hófu nám við Háskóla Íslands í haust en í þeim hópi voru mun færri skiptinemar en fyrri ár sem skýrist af áhrifum heimsfaraldursins. Margir erlendir nemendur binda hins vegar vonir við komast hingað til lands í skiptinám í haust ef mið er tekið af þeim fjölda umsókna sem þegar hefur borist. Það skýrist þó ekki fyrr en í vor hversu stór sá hópur verður því umsóknarfresti um skiptinám við Háskóla Íslands lýkur í maí. 

 

Nemendur fyrir utan Aðalbyggingu