Skip to main content
28. júní 2022

Ekki sjálfgefið að sækja sér menntun þótt það séu mannréttindi

 Ekki sjálfgefið að sækja sér menntun þótt það séu mannréttindi - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ég gekk inn í HÍ með brennandi áhuga á minni námsleið og geng út með tæki og tól til að vinna áfram að mínu áhugasviði. Einnig hef ég eignast svo marga og góða vini í HÍ sem munu fylgja mér út lífið,“ segir Sara Þöll Finnbogadóttir, sem brautskráðist með BA-próf í stjórnmálafræði á laugardag. Sara Þöll, sem flutti ávarp fyrir hönd kandídata á annarri útskriftarathöfninni, stefnir ótrauð á framhaldsnám í Bandaríkjunum í haust en kosningarannsóknir og lýðræðisþátttaka ungs fólks á hug hennar allan. Sjálf hefur hún ekki látið sitt eftir liggja í því síðarnefnda enda verið í forystusveit Stúdentaráðs HÍ síðustu tvö ár.

Sara Þöll var í hópi tæplega 2.600 kandídata sem tóku við brautskráningarskírteinum sínum á laugardag við tvær afar hátíðlegar athafnir. Hún segist aðspurð alltaf hafa vitað að Háskóli Íslands yrði hennar skóli en leiðin í stjórnmálafræðina var þó ekki bein.

„Ég tók inntökuprófið í læknisfræði beint eftir útskrift úr Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2017 en komst ekki inn – í dag er ég mjög þakklát fyrir það,“ segir Sara Þöll og brosir. „Ég fékk smá tíma til að vinna og finna út úr því sem ég vildi gera. Í byrjun árs 2018 var ég komin á þann stað að ætla að sækja um í HÍ en valið stóð á milli jarðfræðinnar og stjórnmálafræðinnar. Ég byrjaði í jarðfræði haustið 2018 en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að jarðfræðin væri ekki fyrir mig. Hugurinn leitaði alltaf í stjórnmál og í málefni líðandi stundar svo ég ákvað að „prófa" stjórnmálafræðina um vorið 2019. Það að velja stjórnmálafræðina er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið.“

Nemandi, rannsóknamaður, kennari

Sara Þöll hefur hins vegar ekki látið sér nægja að sækja kennslustundir og vinna verkefni í stjórnmálafræðinni því þegar nafninu hennar er flett upp í símaskrá Háskólans kemur upp titilinn rannsóknamaður. Þar má jafnframt sjá að að Sara Þöll var meðal kennara í námskeiðinu „Spurningakannanir, gagnagreining og ályktanir“ á vorönn 2022. 

„Eitt það besta við Stjórnmálafræðideildina er að geta myndað náin tengsl við þau sem kenna námskeiðin. Ég kynntist Evu H. Önnudóttur prófessor vorið 2020 þegar ég tók námskeið hjá henni í rannsóknaraðferðum í stjórnmálafræði. Við byrjuðum fljótt að vinna saman utan veggja háskólans að handbók um lýðræði fyrir ungt fólk sem á einmitt að koma út á næstu mánuðum!“ segir Sara Þöll um tilkomu þessara kennslu- og rannsóknastarfa með fram námi, en fyrsta útgáfa bókarinnar kom út fyrir síðustu þingkosningar.

saraoganna

Sara Þöll hefur unnið náið með Evu H. Önnudóttur, prófessor í stjórnmálafræði.

„Í gegnum þetta samstarf bauð Eva mér að aðstoða sig við kennslu í tveimur námskeiðum vorið 2021 og svo aftur í einu námsskeiði vorið 2022. Þessi námskeið hafa öll snúið að rannóknaraðferðum í stjórnmálafræði eða tölfræði. Með þessu hef ég fengið að að vera aðstoðarmaður við rannsóknir og unnið náið með Evu og stjórnendateymi Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍsKos). Það er magnað að fara frá því að læra um ÍsKos og íslensk stjórnmál yfir í það að aðstoða þau sem rannsaka einmitt þessi mál og sjá hvernig hægt er að skapa þekkingu og læra enn meira,“ segir Sara Þöll sem sinnir jafnframt stöðu ritara stjórnar  Nordic Political Science Association (NoPSA), regnhlífasamtökum félaga stjórnmálafræðinga á Norðurlöndum.

Gífurlegur áhugi á málefnum ungs fólks

Það fer ekki á milli mála að áhugi Söru Þallar innan stjórnmálafræðinnar liggur á sviði lýðræðis og kosninga. „Ég hef gífurlega mikinn áhuga á málefnum ungs fólks og þátttöku þeirra í lýðræði. Ég skrifaði lokaritgerðina mína um skuggakosningar í framhaldsskólum og hvort tengsl séu á milli þeirra og kosningaþátttöku framhaldsskólanema í alþingiskosningunum 2021 og lýðræðisvitund þeirra. Mjög spennandi ritgerð þó ég segi sjálf frá. Þátttaka ungs fólks hefur lengi átt hug minn en nýlega hef ég farið að horfa meira til kosningarannsókna, rannsóknaraðferða og gagnavísinda eftir að ég byrjaði að aðstoða stjórnendateymi ÍsKos,“ segir Sara Þöll enn fremur.

saratholl

Sara Þöl hefur tekið þátt í hagsmunabaráttu stúdenta frá því í framhaldsskóla. MYND/Kristinn Ingvarsson

Áhuginn á pólitíkinni er hins vegar ekki bara fræðilegur því undanfarin tvö ár hefur Sara Þöll verið í forystusveit Stúdentaráðs, fyrst sem lánasjóðsfulltrúi og í vetur sem varaforseti Stúdentaráðs. Sjálf segist hún hafa látið til sín taka í hagsmunabaráttu nemenda allt frá því að hún var í framhaldsskóla. „Það er nefnilega ekki sjálfgefið að sækja sér menntun þótt það séu mannréttindi. Ég byrjaði snemma að taka þátt í starfi Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og sat þar í stjórn í nokkur ár. Hugurinn leitaði brátt út fyrir landsteinana og byrjaði ég að vinna með systursamtökum SÍF í Evrópu. Árin 2017–2019 sat ég í stjórn OBESSU (Organising Bureau of European School Student Unions) sem er regnhlífarssamtök SÍF í Evrópu. Þar fékk ég að leiða alls konar vinnu með framhaldsskólanemum og stofnunum líkt og Evrópusambandinu og Evrópuráðinu,“ segir Sara Þöll.

Sara Þöll og forystusveit Stúdentaráðs veturinn 2021-2022 en meðal þess sem þau hafa afrekað í vetur er að setja fram fyrstu heildarstefnu Stúdentaráðs og hækka grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. MYND/Kristinn Ingvarsson

Heildarstefna Stúdentaráðs og hærri grunnframfærsla

Hagsmunamál háskólanema urðu henni svo hugleikin þegar hún hóf nám í HÍ. „Það leið ekki langur tími þar til ég kynntist starfi Röskvu og þeim gildum sem stúdentahreyfingin stendur fyrir. Röskva opnaði arma sína fyrir mér og veitti mér mörg tækifæri, t.d. að fá að starfa síðastliðin tvö ár í þágu stúdenta á réttindaskrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands,“ segir Sara Þöll.

Aðspurð hvað standi upp úr fyrir hana persónulega á þessum viðburðaríka tíma í stúdentaforystunni, sem einkenndist m.a. af miklum áhrifum kórónuveirufaraldursins á háskólastarf, nefnir Sara Þöll tvennt. „Það fyrsta er vinnan mín við myndun á heildarstefnu Stúdentaráðs. SHÍ átti ekki heildarstefnu sem sagði til um hvað ráðið stendur fyrir, einungis ályktanir, umsagnir og þess háttar, og því sá ég gullið tækifæri í því að fara á fullt að mynda slíkt skjal. Heildarstefnan var samþykkt á síðasta Stúdentaráðsfundi míns starfsárs og ég hlakka til að sjá hvernig hún mun leiðbeina Stúdentaráði um ókomin ár,“ segir hún stolt.

Hið seinna tengist pyngju stúdenta. „Að ná loksins í gegn hækkun á grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. Ég vann vel og lengi að þessum breytingum sem lánasjóðsfulltrúi SHÍ og sem fulltrúi stúdenta í ríkisreknum háskólum í stjórn Menntasjóðsins. Það er frábært að sjá að barátta manns getur skilað árangri,“ segir Sara Þöll.

Sara Þöll Finnbogadóttir

Sara Þöll ávarpar kandídata á brautskráningu í Laugardalshöll um helgina. MYND/Kristinn Ingvarsson

Á leið í fremsta háskólann í viðhorfskönnunum og gagnavísindum

Sara Þöll hefur nú kvatt Stúdentaráð og HÍ, í bili segir hún, „hvert veit nema ég komi aftur til með að sækja skólann í náinni framtíð!“ Stefnan er tekin til Bandaríkjanna því Sara Þöll fékk á dögunum eftirsóttan styrk frá Fulbright-stofnuninni á Íslandi sem hún hyggst nýta til meistaranáms í viðhorfskönnunum og gagnavísindum við Michigan-háskóla næstu tvö ár. „Ég er mjög þakklát fyrir styrkinn. Eftir að hafa unnið með Evu H. Önnudóttur og stjórnendateymi ÍsKos komst ég ekki hjá því að fá brennandi áhuga á viðhorfskönnunum og gagnavísindum. Mig langaði að finna mér framhaldsnám sem bæði þjónaði mínu áhugasviði en byði líka upp á persónulega kennslu. Ég datt í lukkupottinn þegar ég komst inn í Michigan,“ segir Sara Þöll.

Sara Þöll Finnbogadóttir og Silja Bára Ómarsdóttir

Sara Þöll ásamt Silju Báru R. Ómarsdóttur, prófessor í alþjóðasamskiptum við HÍ, við afhendingu styrkja Fulbright-stofnunarinnar á dögunum.

Hún segir deildina hennar við Michigan-háskóla litla og halda vel utan um nemendur sína. „Michigan-skóli er fremsti skólinn þegar kemur að þessum fræðum. Ég sótti um á nokkrum stöðum í alls konar framhaldsnám en þessi skóli og þetta tiltekna nám var alltaf efst á listanum. Bandaríska kosningarannsóknin er líka til húsa við skólann og því upplagt að kanna hvernig kosningarannsóknum er háttað þar í landi,“ segir Sara Þöll og bætir við: „Einnig á ég fjölskyldu sem býr nálægt skólanum og er það þægilegt að hafa smá öryggisnet í þessu stóra landi ef eitthvað skyldi koma upp á!“

Þegar talið berast að framtíðaráformunum segir Sara Þöll að fræðimannsstarfið heilli. „Ég er smá skotin í því að halda áfram að grúska í fræðunum og þá kannski leggja fyrir mig doktorssnám en það er stór ákvörðun sem ég fæ að leggja til hliðar í að minnsta kosti ár í viðbót. Ég veit að ég vil vinna að því að skapa þekkingu og vera í umhverfi þar sem sköpunargleðin fær að njóta sín. Menntunin opnar margar dyr hérlendis og erlendis svo ég ætla að fá að prófa mig áfram og sjá hvar hjartað liggur næstu árin,“ segir Sara Þöll enn fremur.

„Sara! Mundu hvers vegna þú ert að þessu. Þú getur þetta!“

Sara Þöll fékk gott tækifæri til að íhuga þann tíma sem hún hefur átt í HÍ þegar hún samdi brautskráningarræðu sína en þar kom hún inn á formlega og óformlega námið innan veggja HÍ.

„Mér finnst þetta kjarna mínar tilfinningar þegar ég hugsa um minn tíma í HÍ,“ segir Sara Þöll og vitnar í ræðu sína: „Ég mun ávallt hugsa hlýlega til Háskólans og míns tíma hér. Þetta hafa verið verulega skemmtileg og gefandi ár en á sama tíma mjög þroskandi tími. Þessi rúm þúsund skírteini sem eru hér úti í sal segja til um hvaða hæfni við búum yfir. En það er svo miklu meira sem háskólanám færir okkur en nokkrar tölur á blaði. Það er nefnilega miklu meira en formlegt nám sem býðst innan veggja háskólans… það er þetta óformlega nám sem ég er að tala um. Að læra að halda sér við efnið, að hafa samskipti við aðra og muna að un-mutea sig á fjarfundum.“

Sara Þöll Finnbogadóttir áður en hún stígur á svið

Sara Þöll áður en hún stígur á svið og flytur brautskráningarræðu sína. MYND/Kristinn Ingvarsson

Ræðu Söru Þallar í heild má lesa hér að neðan:

Kæru kandídatar, rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og aðrir góðir gestir,

Það er svo frábært að þessi dagur sé runninn upp og að þessum áfanga sé náð. Ég vil óska ykkur innilega til hamingju með daginn og árangurinn.

Það er ekki sjálfsagt að að vera kominn hingað, að brautskráðst úr háskóla. Ég segi að það sé ekki sjálfsagt vegna þess að á þessum síðustu metrum í háskóla þurfti ég að gíra mig aðeins meira en síðustu annir, eins og kannski við flest höfum þurft að gera síðustu tvö ár. Til þess að koma mér í gegnum þetta útbjó ég post-it miða sem ég límdi á tölvuna mína til að hvetja mig áfram. Þessi miði verður eflaust á tölvunni minni þangað til hún gefur upp öndina. Á miðanum stendur: Sara! Mundu hvers vegna þú ert að þessu. Þú getur þetta!

Það er mikilvægt þegar á móti blæs að muna hvers vegna við erum í háskóla og hverju við þurftum að skila af okkur til að fara héðan út gráðunni ríkari. Ég mun ávallt hugsa hlýlega til Háskólans og míns tíma hér. Þetta hafa verið verulega skemmtileg og gefandi ár en á sama tíma mjög þroskandi tími. Þessi rúm þúsund skírteini sem eru hér úti í sal segja til um hvaða hæfni við búum yfir. En það er svo miklu meira sem háskólanám færir okkur en nokkrar tölur á blaði. Það er nefnilega miklu meira en formlegt nám sem býðst innan veggja háskólans… það er þetta óformlega nám sem ég er að tala um. Að læra að halda sér við efnið, að hafa samskipti við aðra og muna að un-mutea sig á fjarfundum.

Háskóli Íslands býður stúdentum upp á að sérhæfa sig innan síns áhugasviðs og undirbúa sig fyrir framtíðina. Fyrir sum okkar markar þessir dagur formleg lok á skólagöngunni en fyrir önnur heldur skólagangan áfram. Þegar litið er yfir farinn veg þá er mikilvægt að hugsa hlýlega til allra þeirra sem studdu við bakið á okkur á skólagöngunni og kunna að meta það hversu heppin við erum að geta sótt okkur sérþekkingu.

Það er nefnilega ekki sjálfgefið að sækja sér menntun,  þó það sé mannréttindi. Fólk víðsvegar um heiminn hefur staðið og er í þessum töluðu orðum að berjast fyrir rétti sínum til menntunar.

Er ég stend hér, nýkomin með prófskírteinið mitt í hönd, hugsa ég hversu mikilvægt það er að halda áfram að vinna að samfélagi þar sem við öll getum menntað okkur og gefið til samfélagsins. Þakklæti er mér efst í huga eflaust eins og hjá mörgum hérna inni, að geta gengið í skóla og sótt sér menntun við stofnun eins og Háskóla Íslands.

Ég óska ykkur, kæru kandídatar, aftur innilega til hamingju með áfangann og lífið, og þakka Háskólanum og starfsfólki hans fyrir ómetanleg ár.

Sara Þöll Finnbogadóttir