Skip to main content
5. janúar 2015

Eggert Þór Bernharðsson látinn

Eggert Þór Bernharðsson, prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, lést á gamlársdag 56 ára að aldri. Eggert Þór fæddist í Reykjavík 2. júní 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1978, BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1983 og cand. mag.-prófi í sömu grein frá Háskóla Íslands 1992.

Eggert Þór starfaði sem stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands frá 1987 og hlaut fastráðningu 1993. Hann varð aðjunkt í sagnfræði árið 2001, lektor í hagnýtri menningarmiðlun 2006, dósent í lok sama árs og tók við prófessorsstarfi í sömu grein árið 2009 og gegndi því til dánardags.

Eggerti Þór voru falin fjölmörg trúnaðarstörf innan Háskóla Íslands og utan. Hann var formaður sagnfræði- og fornleifafræðiskorar 2007–2008, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar 2008–2012 og tók þátt í margvíslegum nefndarstörfum. Hann var formaður Sagnfræðingafélags Íslands 1983–1985.

Eggert Þór var afkastamikill fræðimaður og ritaði m.a. bækurnar Saga Reykjavíkur 1940–1990 í tveimur bindum (1998, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna), Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970 (2000, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, ný og aukin útgáfa 2013) og Sveitin í sálinni. Búskapur í Reykjavík og myndun borgar (2014, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna). Einnig ritaði hann sögu Leikfélags Reykjavíkur 1950–1997 (1997), sögu Trésmíðafélags Reykjavíkur 1947–1999 (1999) og ritið Alhliða háskóli. Rektorstíð Páls Skúlasonar í Háskóla Íslands 1997–2005 (2006). Auk þess birti Eggert Þór fjölda greina á sviði sagnfræði, setti upp sögusýningar, gerði útvarps- og sjónvarpsþætti og nýtti nýja miðla til lifandi framsetningar á sagnfræðilegu efni í máli og myndum.

Eggert Þór var frumkvöðull innan fræðigreinar sinnar og setti m.a. á fót námsleið á meistarastigi í hagnýtri menningarmiðlun. Sú grein hefur blómstrað undir hans stjórn. Hann var vinsæll og vandvirkur kennari og leiðbeinandi og sinnti nemendum sínum af alúð.

Eggerts Þórs verður sárt saknað af vinum, samstarfsfólki og nemendum.