Skip to main content
11. september 2020

Efla sjálfbærni og seiglu samfélaga á norðurslóðum

Norðurljós lýsa upp yfirborð sjávar við fjörð í Noregi

Þann 1. ágúst síðastliðinn var ýtt úr vör fjögurra ára þverfaglegu rannsóknarverkefni sem beinir sjónum að þeim hröðu breytingum sem orðið hafa á norðurslóðum vegna aukinnar alþjóðavæðingar og áskorunum sem þeim fylgja. Verkefnið nefnist ArticHubs og er styrkt af Horizon2020-áætlun Evrópusambandsins. Meginmarkmið verkefnisins er að þróa rannsóknamiðaðar og hagnýtar lausnir til að mæta þeim áskorunum sem norðurslóðir standa nú frammi fyrir.

Samspil alþjóðavæðingar og loftslagsbreytinga knýr áfram breytingar á norðurslóðum af þeirri stærðargráðu sem ekki áður hefur þekkst. Aukin áhersla á atvinnugreinar eins og námuvinnslu og ferðaþjónustu auk iðnvæðingar margra hefðbundinna atvinnugreina, s.s. sjávarútvegs og skógræktar, veldur æ oftar hagsmunaárekstrum um nýtingu auðlinda sem hafa afgerandi áhrif á velferð bæði íbúa og samfélaga á norðurslóðum.

ArticHubs leiðir saman 22 aðila frá 11 ólíkum löndum á norðurslóðum, allt frá Kanada til Rússlands. Samstarfsaðilarnir koma frá háskólum, rannsóknastofnunum, félagasamtökum, opinberum og einkaaðilum auk íbúa rannsóknarsamfélaganna. Tveir samstarfsaðilar koma frá Íslandi, þ.e. Háskóli Íslands, sem tekur þátt í rannsóknum á ferðamennsku, og Háskólinn á Hólum sem tekur þátt í rannsóknum á fiskeldi og leiðir þann hluta rannsóknarinnar.

Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild, tekur þátt í rannsóknarverkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands.

Hvernig má minnka deilur um nýtingu náttúru- og menningarlegra auðlinda?

Í verkefninu verður leitast við að bera kennsl á og greina helstu drifkrafta sem hafa áhrif á umhverfi, lífsviðurværi, menningu og samfélög á norðurslóðum. Sérstök áhersla verður lögð á landnýtingu á svæðinu og hvernig unnt er að minnka deilur og hagsmunaárekstra sem fylgja mismunandi nýtingu náttúru- og menningarlegra auðlinda. Ólíkir hagsmunir verða kortlagðir til að efla skilning á orsakatengslum á milli hagsmunaaðila og þeir fengnir til samstarfs til að þróa aðferðir og tæki til að einfalda þátttöku þeirra í gerð landnýtingaráætlana og skipulagi auðlindanýtingar.

Afrakstur verkefnisins felst meðal annars í gerð aðgengilegs landupplýsingakerfis þar sem almenningur mun á einfaldan hátt getað miðlað skoðunum sínum um landnýtingu. Enn fremur verða leiðbeiningar um „félagsleg leyfi til atvinnuuppbyggingar“ (e. Social licence to operate) og framtíðarsviðsmyndir fyrir norðurslóðir þróaðar, prófaðar og innleiddar í samvinnu við hagsmunaaðila á öllum 22 rannsóknarsvæðunum. Fyrir utan rannsóknarsvæði í Norður-Evrópu taka þátttakendur frá Kanada, Austurríki og Ítalíu einnig þátt í ArticHubs-verkefninu og eru þau svæði hugsuð sem samanburðarsvæði.

Þátttakendur í verkefninu eru:

Finnland: University of Lapland; Mapita Ltd; Reindeer Herdersʼ Association; Sámi Education Institute.
Svíþjóð: Swedish University of Agricultural Sciences; Luleå University of technology; Grans Sameby.
Noregur: NORCE Norwegian Research Centre AS; Magma Geopark AS; Norwegian Institute for Nature Research; Nofima; Rogland County Council
Ísland: Háskóli Íslands, Líf- og umhverfisvísindadeild; Háskólinn á Hólum, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild.
Rússland: Kola Science Centre
Bretland: TouchTD Ltd
Austurríki: Universität für Bodenkultur, Vín
Ítalía: University of Turin
Grænland: Greenland Institute of Natural Resources
Færeyjar: University of the Faroe Islands
Kanada: Dalhousie University

Norðurljós lýsa upp yfirborð sjávar við fjörð í Noregi