Skip to main content
2. nóvember 2015

Doktorsvörn við Stjórnmálafræðideild

""

Föstudaginn 6. nóvember mun Eva Marín Hlynsdóttir verja doktorsritgerð sína „The Icelandic Mayor: A Comparative Analysis of Political and Administrative Leadership Roles at the Icelandic Local Government Level“ við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst hún kl. 14:00. 

Andmælendur eru dr. Hilde Bjørnå, prófessor við Háskólann í Tromsø í Noregi, og dr. Nirmala Rao, prófessor við SOAS, University of London, Englandi.

Leiðbeinandi var dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og dr. Colin Copus, prófessor við De Montfort háskóla í Leicester, Englandi.

Dr. Baldur Þórhallsson, prófessor og deildarforseti Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands stjórnar athöfninni.

Ágrip af rannsókn

Markmið rannsóknarinnar var að greina hlutverk bæjar- og sveitarstjóra á Íslandi út frá samskiptum þeirra við sveitarstjórn, stjórnsýslu, íbúa sveitarfélagsins og ytri aðila. Rannsóknin var unnin á kjörtímabilinu 2010-2014. Gerð var skoðanakönnun meðal allra íslenskra bæjar- og sveitarstjóra og oddvita í smærri sveitarfélögum en jafnframt voru tekin viðtöl við bæjar- og sveitarstjóra í sveitarfélögum með yfir 500 íbúa.

Í fyrsta hluta rannsóknarinnar var gerð söguleg greining á bakgrunni og þróun bæjar- og sveitarstjórastöðunnar frá upphafi 20. aldar  fram á okkar daga. Í öðrum hluta  voru verkefni og hlutverk bæjar- og sveitarstjóra eru greind út frá leiðtogalíkani Leach og Wilson (2000) þar sem sjónum var beint að ráðningarferli, samskiptum við sveitarstjórnir, ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstiginu, verkaskiptingu og þátttöku og hlutverki í samvinnuverkefnum og í samskiptum við hið opinbera. Í þriðja og síðasta hluta rannsóknarinnar var sett fram flokkun, á einföldum kvarða, á íslenskum bæjar- og sveitarstjórum byggð á fyrrnefndri greiningu. Röðun á kvarðanum ræðst af því hvort bæjar-og sveitarstjórar telja að hlutverk þeirra eigi fyrst og fremst að ráðast af pólitísku hlutleysi eða ekki. Þeir sem leggja mesta áherslu á pólitískt hlutleysi eru á öðrum enda kvarðans en þeir sem telja hlutverk sitt vera meira pólitískt eru á hinum.

Niðurstöðurnar benda til að íbúafjöldi sveitarfélags ásamt kyni bæjar- og sveitarstjóra skipti verulegu máli þegar kemur að því að skýra röðun þeirra á kvarðanum. Þannig eru faglegir bæjar- og sveitarstjórar í litlum sveitarfélögum með lítið stjórnsýslulegt bolmagn oftar á pólitískt hlutlausum enda kvarðans. Einnig er mikill meirihluti faglegra kven bæjar- og sveitarstjóra staðsettur á pólitískt hlutlausum enda ássins. Þá er greinanlegur munur á milli þess hvort að pólitískir bæjar-og sveitarstjórar, leggja meiri áherslu á stjórnsýslulegt hlutverk sitt eða pólitískt hlutverk.

Að lokum sýna niðurstöður að íslenskir bæjar- og sveitarstjórar leika almennt stórt samfélagslegt hlutverk. Mikilvægi þeirra sem leiðtogar bæði innan samfélagsins og út á við er mun meira en almennt þekkist í Norður-Evrópu og er á margan hátt líkara því sem gerist í sveitarfélagakerfum sunnar í álfunni.

Um doktorsefnið

Eva Marín Hlynsdóttir (1975) lauk BA-prófi í stjórnmálafræði árið 2001. Þremur árum síðar lauk hún MA-prófi í stjórnmálafræði frá sömu deild og MPA-prófi árið 2011. Hún hefur starfað við kennslu á framhalds- og háskólastigi frá 2006 og mun taka við stöðu lektors í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 1.janúar nk. Eva Marín er gift Sveini Hannesi Sveinssyni og eiga þau tvö börn, Silju Rut og Svein Jökul.

Eva Marín Hlynsdóttir
Eva Marín Hlynsdóttir