Skip to main content
12. júní 2023

Doktorsnemar frá Aurora-háskólunum á námskeiði í vísindamiðlun

Doktorsnemar frá Aurora-háskólunum á námskeiði í vísindamiðlun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tæplega 30 doktorsnemar úr háskólum innan Aurora-samstarfsnetsins sóttu í síðustu viku námskeið í vísindamiðlun í Háskóla Íslands. Þar fengu þeir fræðslu um þá möguleika sem felast í miðlun rannsókna sinna á ólíkum vettvangi samfélagsins og tóku jafnframt þátt í keppni um bestu rannsóknarkynninguna.

Yfirskrift námskeiðsins var PhD Impact, the Aurora Master Class on Public Outreach for Doctoral Candidates og stóð það í fjóra daga. Námskeiðið sóttu nemendur af afar fjölbreyttum fræðasviðum við átta háskóla innan Aurora-samstarfsins, þar á meðal Háskóla Íslands, en markmið þess var að þjálfa þessa vísindamenn framtíðarinnar í að miðla bæði rannsóknarefni sínu og niðurstöðum til samfélagsins. Vaxandi krafa er enda um að vísindamenn geti ekki aðeins sinnt rannsóknum og kennslu í sífellt flóknari heimi heldur einnig að þeir miðli niðurstöðum rannsókna sinna á aðgengilegan hátt til almennings og nýti sérþekkingu sína í samfélagsumræðunni. 

Námskeiðið samanstóð af fjölbreyttum vinnustofum þar sem doktorsnemarnir nutu leiðsagnar sérfræðinga í vísindamiðlun innan Aurora-háskólanna. Meðal þess sem fjallað var um á vinnustofunum var miðlun vísinda í gegnum hlaðvarp, myndbönd og kvikmyndir, á samfélagsmiðlum, vísindasýningum og fjölskylduviðburðum, með markaðssetningu og í gegnum áhugaverðar sögur. 
 

Sigurvegarar í 3MT-keppninni, þær Lucie Kotková, Anna Selbmann og Dona Geagea. MYND/Kristinn Ingvarsson

Botninn var sleginn í námskeiðið með samkeppni meðal þátttakenda sem ber heitið 3MT (Three Minute Thesis). Þar hafði hver doktorsnemi 3 mínútur og 1 glæru að segja frá doktorsrannsókn sinni á mannamáli. Við undirbúning nutu þátttakendur m.a. leiðsagnar frá fulltrúa University of Minnesota (UMN) í Bandaríkjunum, þar sem löng hefð er fyrir keppninni, en skrifað var undir viljayfirlýsingu í fyrra um aukið samstarf UMN og Aurora-netsins.

Óhætt er að segja að keppendur hafi sýnt bæði hugmyndaauðgi, húmor og ástríðu í kynningum sínum og því reyndist það dómnefnd ærin þraut að velja sigurvegara í keppninni. Ákveðið var að velja þrjá sigurvegara úr hópi þátttakenda en það voru þær 

  • Dona Geagea, doktorsnemi í stjórnun vatnsveitna við Vrije Universiteit Amsterdam í Hollandi
  • Anna Selbmann, doktorsnemi í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands
  • Lucie Kotková, doktorsnemi í réttarerfðafræði og utangenaerfðum við Palacký University Olomouc í Tékklandi

Keppnin var í streymi og er hægt að horfa á hana á meðfylgjandi slóð

Myndir Kristins Ingvarsson frá námskeiðinu má finna hér að neðan.

Þátttakendur og kennarar í vísindamiðlunarnámskeiði Aurora.
Nemendur í kennslustund.
Nemendur í kennslustund.
Einn af kennurunum í námskeiðinu.
Nemendur í kennslustund.
Nemendur í kennslustund.
Nemendur í kennslustund.
Einn af kennurunum í námskeiðinu.
Nemendur í kennslustund.
Einn af kennurunum í námskeiðinu.
Nemendur í kennslustund.