Búa til líkan um flæði COVID-19-sjúklinga fyrir Landspítalann | Háskóli Íslands Skip to main content
1. apríl 2020

Búa til líkan um flæði COVID-19-sjúklinga fyrir Landspítalann

""

Hópur vísindamanna í verkfræði við Háskóla Íslands vinnur nú með fulltrúum Landspítalans að því það þróa hermilíkan sem spáir fyrir um flæði þeirra sjúklinga sem smitast hafa af kórónuveirunni og eru í umsjón spítalans. Byggt er á verðlaunuðu nýsköpunarverkefni sem hópurinn hefur unnið að og snýr að betri röðun skurðaðgerða á spítalanum.

Talið er að COVID-19-faraldurinn hér á landi sé að nálgast hámark með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið, ekki síst Landspítalann sem tekur á móti og annnast veikustu einstaklingana. Til þess að geta áætlað betur það álag sem verður á spítalanum leituðu forsvarsmenn hans til Rögnvaldar J.  Sæmundssonar og Tómasar P. Rúnarssonar, prófessora í iðnaðarverkfræði, og samstarfsfólks þeirra um þróun hermilíkans. „Líkanið spáir fyrir um flæði COVID-19-sjúklinga í umsjón Landspítala, bæði þá sem liggja inni á spítalanum og þá sem eru heima hjá sér,“ segir Rögnvaldur. 

Líkanið nýtir niðurstöður úr spálíkani um fjölda greindra smita á Íslandi, sem annar hópur vísindamanna þróaði fyrir sóttvarnayfirvöld og finna má á covid.hi.is, ásamt gögnum úr starfsemi Landspítala. „Hermilíkanið á að skila daglegri spá fram í tímann um fjölda sjúklinga á mismunandi einingum spítalans, t.d. bráðamóttöku, göngudeild, legudeildum og gjörgæslu, ásamt fjölda þeirra sjúklinga heima fyrir sem eru undir eftirliti,“ segir Rögnvaldur aðspurður um gagnsemi líkansins en aðstandendur þess kynntu fyrstu útgáfu líkansins fyrir forsvarsmönnum Landspítalans fyrr í vikunni. 

Rögnvaldur undirstrikar þó að enn sé heilmikil vinna eftir við að bæta líkanið og meta hversu vel það virkar. „Ef vel tekst til getur líkanið hjálpað starfsfólki Landspítala að sjá fyrir breytingar á álagi og þannig verið betur undirbúið undir þær. Það hjálpar til við að bæta meðferð og umönnun sjúklinga og aðstöðu starfsfólks til að sinna þeim,“ segir hann enn fremur.

Hópur vísindamanna í verkfræði við Háskóla Íslands vinnur nú með fulltrúum Landspítalans að því það þróa hermilíkan sem spáir fyrir um flæði þeirra sjúklinga sem smitast hafa af kórónuveirunni og eru í umsjón spítalans. Byggt er á verðlaunuðu nýsköpunarverkefni sem hópurinn hefur unnið að og snýr að betri röðun skurðaðgerða á spítalanum.

Einstök samheldni í verkefninu

Kveikjan að samstarfinu var annað verkefni sem Rögnvaldur og félagar hafa verið að vinna með Landspítalanum undanfarin misseri. Það snýst um að hanna hugbúnað sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra spítalans við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum. Hugbúnaðurinn gerir tillögu að röðun og sýnir svo áhrif röðunar á flæði sjúklinga um skurðstofur, gjörgæslu, vöknun og legudeildir. Þess má geta að þetta verkefni sigraði í samkeppninni um Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í fyrra. 

Að hermilíkaninu, sem nú er í þróun vegna COVID-19, koma auk þeirra Rögnvaldar og Tómasar þau Ásgeir Örn Sigurpálsson, doktorsnemi í iðnaðarverkfræði, og Guðný Hjaltadóttir, aðstoðarmaður við rannsóknir, ásamt Sölva Rögnvaldssyni stærðfræðingi. Þá hefur hefur Birgir Hrafnkelsson, prófessor í tölfræði, komið að verkefninu og hópur Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði, sem hefur einmitt þróað spálíkanið um framgang COVID-19-faraldursins hér á landi.

Aðspurður hvað hafi komið mest á óvart við vinnuna að nýja hermilíkaninu segir Rögnvaldur: „Kannski ætti það ekki að koma á óvart en í verkefninu upplifir maður einstaka samheldni þar sem allir eru tilbúnir að leggjast á árarnar og komast í gegnum þennan brimskafl sem COVID-19-faraldurinn er.“

Rögnvaldur Sæmundsson