Skip to main content
25. febrúar 2021

Búa maurar undir Reykjavík?

Búa maurar undir Reykjavík? - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Flestir Íslendingar telja eflaust að það séu engir maurar á Íslandi, eins og ég þegar ég kom hingað fyrst, en í okkar rannsókn höfum við fundið fimm mismunandi tegundir hafa numið land hér. Fjórar þrífast innan húss vegna hitans og rakans en ein tegund þrífst utan dyra, í görðum,“ segir Marco Mancini, meistaranemi í líffræði við Háskóla Íslands og meðlimur í mauragengi Líffræðistofu skólans. Gengið kortleggur útbreiðslu maura hér á landi og skoðar m.a. hvort í holræsakerfum borgarinnar megi finna risasbú húsamaura.

Verkefnið kallast Maurar á Íslandi og tengist meistaraverkefni Marcos. Það er unnið undir leiðsögn Arnars Pálssonar, prófessors í lífupplýsingafræði, og Mariönu Tamayo, dósent í umhverfis- og auðlindafræði, en auk Marcos kemur Andreas Guðmundsson, BS-nemi í líffræði, að því.

Úr fornfrönsku í líffræði

Bakgrunnur Marcos, sem er ítalskur, í háskólanámi liggur allt annars staðar en í líffræði því hann státar af prófi í fornfrönsku. Hann segist hins vegar hafa haft áhuga á maurum frá því að hann var barn. „Ég flutti hingað fyrir nokkrum árum og varð alveg hugfanginn af landinu. Þetta var hins vegar eina landið í heiminum, sem ég þekkti til, þar sem enga maura var að finna. Ég vildi ekki gefa upp á bátinn hugmyndina um að það væru engir maurar í mínu umhverfi og fór því að horfa í kringum mig,“ segir Marco um upphaf verkefnisins.

Marco

Marco Mancini, meistaranemi í líffræði.

Honum datt því í hug að hafa samband við meindýraeyða til að kanna hvort þeir hefðu fengið símtöl sem tengdust skordýrum eða maurum. „Ég fann að lokum einn, sem ég er enn að vinna með, hann er frábær náungi. Ég fór með honum í nokkur útköll og þar kom í ljós að hér mætti finna maura. Þetta gerði ég áður en ég skráði mig til náms í Háskólanum, hreinlega af áhuga,“ segir Marco sem jafnframt komst í samband við sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar, þá Erling Ólafsson og Matthías S. Alfreðsson. Erling hefur skráð mauratilfelli í gagnagrunn Náttúrufræðistofnunar og lýsti því hvernig maurar voru fyrst greindir hér á landi árið 1974.

Marco innritaðist í meistaranám í líffræði og hóf verkefnið vorið 2020. Þá gekk Andreas Guðmundsson jafnframt til liðs við hann en þeir félagar unnu að verkefninu í fyrrasumar með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna og Vinnumálastofnunar.

Mauraskoðun með meindýraeyði

„Við förum með meindýraeyðinum í hvert sinn sem tilkynnt er um maura og hann lærir ýmislegt af okkur um hvernig á að fást við þá,“ segir Marco og Andreas bætir við: „Þá mætum við á staðinn og tökum oft nokkra maura með okkur sem við setjum í alkóhól til geymslu. Þá getum við gert erfðaefnisrannsóknir og þannig komist að því um hvaða tegund er að ræða.“ Útlit dugir til að greina sumar tegundir, erfðaefni hjálpar við aðrar. En vegna þess að greining sumra maurategundar byggist á mikilli sérþekkingu hafa sum sýnin verið send til Þýskalands til staðfestingar á tegundagreiningum. 

Draugamaurar

Draugamaurar er ein tegundanna sem fundist hafa á Íslandi.

Oftast er maurabúunum eytt en ef það er mögulegt reyna þeir félagar að taka búið í heild sinni til frekari rannsókna. Marco segir maurana innfluttar tegundir sem í raun eigi ekki heima hérlendis og því taki hann það ekki mjög nærri sér að eyða búunum. „Við þurfum að gera það fyrir umhverfið,“ segir hann.

Áherslan í verkefninu er að varpa ljósi á fjölbreytileika tegunda, sögu landnáms og útbreiðslu maura á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. „Við vitum að það eru maurar á Akureyri, Selfossi og í Hveragerði auk höfuðborgarsvæðisins en við einblínum í verkefninu á suðvesturhorn landsins. Kannski í framtíðinni, t.d. í doktorsverkefni, munum við skoða landið í heild,“ segir Marco og Andreas bætir við: „Við stefnum að því að búa til kort yfir útbreiðslu tegunda og í framtíðinni getum við kannski skoðað á hvaða svæði maurarnir hafa dreifst og hvert þeir munu dreifast næst.“

Húsamaur er algengastur á Íslandi. „Það eru þeir sem fundust hér á landi árið 1974. Sú tilgáta hefur verið sett fram að það gæti verið risabú í holræsakerfinu Reykjavíkur því tegundin þarf hita og raka til að lifa. Maurarnir komist þá inn í hús í gegnum holræsakerfið og færi sig um það frá einu húsi til annars,“ segir Marco.

Nánast ómögulegt að eyða búum húsamaura

Sem fyrr segir hafa þeir félagar fundið fimm tegundir maura nú þegar, fjórar þeirra í fyrrasumar. „Sá algengasti heitir húsamaur og það eru þeir sem fundust hér á landi árið 1974. Sú tilgáta hefur verið sett fram að það gæti verið risabú í holræsakerfi Reykjavíkur því tegundin þarf hita og raka til að lifa. Maurarnir komist þá inn í hús í gegnum holræsakerfið og færi sig um það frá einu húsi til annars. Við stefnum að því að gera erfðaefnisrannsóknir til þess að komast að því hversu áþekkt erfðamengi vinnumaura innan tegundarinnar er og hvort þá er um að ræða risabú undir Reykjavík eða bú á víð og dreif um borgina,“ segir Marco.

Hann bendir jafnframt á að nánast ómögulegt sé að eyða búum húsamaura. „Það finnast ekki vinnumaurar í húsum heldur nýfæddar drottningar á flugi. Það er kannski hægt að eitra fyrir einum og einum maur en ekki móðurbúinu öllu. Þess vegna teljum við að þeim eigi bara eftir að fjölga hér en ekki fækka,“ segir hann.

blokkumaur

Blökkumaurar eru þeir einu sem lifir utan dyra hér á landi.

Eina tegundin sem lifir utanhúss hér nefnist blökkumaur. „Þá má finna í görðum í Vesturbænum og Garðabæ,“ segir Marco og bætir við þeir hafi fundist á fáum stöðum og að gengið vilji kanna hvort þeir hafi verið hér í langan tíma. „Við ætlum að kanna hvort þeir takist á þegar maurum úr tveimur búum er hleypt saman. Ef átökin eru áköf getur það verið merki um að þeir séu erfðafræðilega ólíkir og hafi því komið hingað til lands fyrir löngu.“

Faraómaur getur borið hættulega sýkla

Báðar þessar tegundir teljast meinlausar en það sama má ekki segja um faraómaur sem einnig hefur fundist hér. „Tegundin getur verið hættuleg því hún ber með sér sýkla, eins og salmonellu og streptókokka. Af þeim getur stafað mikil ógn, sérstaklega ef þeir ná bólfestu, t.d. á sjúkrahúsum eða fjölförnum stöðum. Útbreiðsla þeirra er enn þá frekar takmörkuð og hérlendis eru bara nokkur dæmi á síðustu árum,“ segir Andreas.

faraomaur

Faraómaurar geta borið með sér hættulega sýkla.

Fjórða tegundin nefnist draugamaur. „Þeir eru örsmáir en afar fljótir í förum og geta auðveldlega flutt bú sín ef þeir finna ekki nægt fæði eða rétt hitastig. Við fundum þá aðeins í einni byggingu, þeir voru úti um allt þar en okkur tókst að fjarlægja allt búið. Það var undir blómapotti í stofu. Þaðan fóruð þeir út á svalir og út um alla húsið, í tólf íbúðir, minnir mig,“ segir Marco og bendir að auðvelt sé að losna við þessa tegund. 

Fimmta tegundin fannst svo nýlega í Laugardal. „Hún er af  af ættkvíslinni Pheidole en undir hana heyra 1000-1500 ólíkar tegundir og við höfum ekki enn staðfest hvaða tegund þetta er,“ segir Andreas. 

Ótrúlegt hversu margar tegundir hafi fundist hér

En hvernig skyldu maurarnir hafa borist hingað? „Ég er nokkuð viss um að maurar komu hingað með manninum. Það er of langt hingað og kalt til þess að þeir hafi getað borist með fuglum,“ segir Marco.

„Á síðustu áratugum hefur orðið mikil aukning í flutningi fólks og vara og maurar geta borist hingað t.d. í pottaplöntum, við, byggingarefni og jafnvel í ferðatösku þegar maður kemur frá útlöndum,“ bætir Andreas við og heldur áfram: „Þessir maurar virðast geta aðlagast vel á Íslandi því húsin okkar eru svo vel hituð og oft raki í gólfum og það eru ákjósanleg svæði fyrir maura.“

Andreas

Andreas Guðmundsson, BS-nemi í líffræði, með gervimaurabúið sem þeir félagar vinna með.

Andreas segir engu að síður ótrúleg hversu margar tegundir hafa fundist  á Íslandi. „Maður myndi halda að það væri mjög erfitt fyrir þá að komast hingað. Maurinn þarf að frjógvast í útlöndum og komast til Íslands. Þar þarf hann að finna heppilegt búsvæði sem má ekki vera of kalt, ekki of heitt, ekki of rakt, ekki of þurrt og það þarf að vera fæða og engir óvinir. Allt þetta þarf að ganga upp svo að maur geti sest að og stofnað bú. Og þetta virðist hafa gerst mjög oft því samkvæmt það hafa fundist um 20 tegundir maura  hér á landi.“

Marco reiknar með að fleiri maurategundir nemi hér land í framtíðinni, ekki síst vegna loftslagbreytinga og fólks- og vöruflutninga. „Þetta er afar ágengt dýrategund um allan heim. Það eru margar aðrar maurategundir til og úr því að þessar tegundir námu hér land er ég nokkuð viss um að aðrar geri það líka. Kannski eru einhverjar þeirra þegar komnar og við höfum ekki enn fundið þær,“ segir hann.

Vilja búa til fræðsluefni fyrir leik- og grunnskóla

Þeir félagar eru ekki aðeins með frekari rannsóknir á prjónunum því þeir vilja jafnframt auka þekkingu samfélagsins á þessum smágerðu lífverum. „Við höfum sótt um styrk úr Þróunarsjóði námsgagna hjá Rannís fyrir sumarið og ætlum að vinna í teymi með teiknara og sérfræðingi í gerð kennsluefnis og búa til bækling um maura og skordýr og samfélag þeirra. Við stefnum á að heimsækja leikskóla og grunnskóla með gervibú og sýna krökkum maurana og skilja um leið eftir fræðsluefni þannig að þau geti áttað sig á hvaða lífverur deila umhverfinu með okkur í borginni,“ segir Marco.

Marco og Andreas kalla jafnframt eftir ábendingum frá almenningi um möguleg maurabú á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. „Við erum á Facebook- og Instagram-síðu og svo erum við líka með vefsíðu þar sem er hægt að hafa samband við okkur. Það væri frábært ef allir sem verða varir við maura gætu haft samband við okkur vegna þess að því fleiri sem hafa samband, því víðtækara verður kortið okkar og þá getum við kortlagt útbreiðsluna betur,“ segir Andreas að lokum.

Draugamaurar