Skip to main content
4. desember 2023

Brjóstmyndir á Kanaríeyjum í nýrri bók

Brjóstmyndir á Kanaríeyjum í nýrri bók - á vefsíðu Háskóla Íslands

Flestir Íslendingar þekkja Gran Canaria sem sumarleyfisstað, en í höfuðborg eyjunnar má finna forvitnilegt safn brjóstmynda. Brjóstmyndir sjö Íslendinga eru þar meðal annarra í eigu safnsins, sem snýr aðallega að efnismenningu frumbyggja eyjanna. Í bókinni Andlit til sýnis: Íslendingar og aðrir á Kanarísafninu, sem gefin var út hjá Sögufélagi, segir Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði og höfundur bókarinnar, frá brjóstmyndunum á safninu og hvernig þær urðu til. Bókin er afrakstur umfangsmikils rannsóknarverkefnis sem tengist fyrst og fremst Kanaríeyjum en hefur einnig falið í sér rannsóknarvinnu á meginlandi Spánar og í Frakklandi og kemur inn á mörg málefni sem snerta samtíma okkar.  

„Ég nota brjóstmyndirnar á Kanarísafninu sem útgangspunkt til þess að fjalla um heim sem var mjög samtengdur þegar á 19. öld. Mörg átakamálefni samtímans verða skiljanlegri þegar við skoðum þetta tímabil,“ útskýrir Kristín. „Flestar þessar brjóstmyndir voru gerðar í leiðöngrum Frakka á fjarlægar slóðir um miðja 19. öld  og þá eftir mótum sem voru tekin af andlitum raunverulegs fólks. Flestir voru lifandi en í sumum tilfellum var viðkomandi látinn. Í slíkum leiðöngrum voru markmiðin bæði vísindaleg og hernaðarleg, en slík markmið voru oft mjög samfléttuð.“  

safnið

Húsakynni safnsins á Gran Canaria. MYND/Kristín Loftsdóttir

Kristín segir frá því að þegar hún kom á safnið á Kanaríeyjum í fyrsta sinn hafi henni þótt áhugavert að hugsa til þess að allar þessar brjóstmyndir hafi verið fluttar með töluverðri fyrirhöfn og tilkostnaði frá Frakklandi til Kanaríeyja. „Gifs er viðkvæmt efni og það brotnar auðveldlega. Fyrstu spurningarnar í rannsókninni voru í raun þær sem ég spyr í bókinni: Hvaðan koma þessar brjóstmyndir upphaflega? Af hverju voru þær gerðar og keyptar? Hver er saga þessa einstaklinga? Mér fannst eitthvað heillandi við að Kanaríeyjar eru að mörgu leyti á jaðri Evrópu rétt eins og Ísland var á sínum tíma en líka mjög miðlægar því hér komu ferðalangar oft við þegar þeir ætluðu yfir Atlantshafið. Safnið var mjög mikilvægt fyrir samfélagið á Gran Canaria í lok 19. aldar. Þeir sem stóðu að því sáu að menningarminjar eyjanna voru fluttar í stórum stíl frá eyjunum og eitt hlutverk safnsins var einmitt að halda þeim innan eyjanna.“

Samtengdur heimur - Furðustofur og sýningar á fólki

Fyrsti hluti bókarinnar segir frá samtengingu heimsins í kjölfar þess að Evrópubúar lögðu undir sig svokallaðan „nýja heim“ en Kristín leggur áherslu á þá umbyltingu sem það fól í sér með því að benda á samtengda sögu fólks, lífvera og umhverfis á þessum umbrotatímum. „Það sem skiptir máli er ekki fundur álfunnar heldur hernám hennar. Heimurinn í dag er afleiðing af tengslum ólíkra hluta heimsins. Hann er ekki tilkominn vegna þess að einhver svæði hafi verið í einangrun eins og stundum mætti halda þegar við fylgjumst með samtímaumræðu. Þegar við lítum aftur í aldir þá hefur verið mikil hreyfing á öllu. Heimsvaldastefnan tengdi saman líf fólks á ólíkum stöðum í heiminum.“  

Kristín fjallar um sýningar á fólki til skemmtunar og fróðleiks fyrir almenning í Evrópu og Norður-Ameríku en sýningar á lifandi fólki frá öðrum heimsálfum – og þeim sem voru mörkuð sem framandi á einhvern hátt – vöktu mikinn áhuga og athygli í ólíkum Evrópulöndum.

Kristín undirstrikar í bókinni að saga slíkra sýninga skarast á við kynþáttafordóma og afmennskun þeirra sem á einhvern hátt féllu ekki innan þess sem þótti eðlilegt eða æskilegt. „Myndefni, textar og hlutir frá samfélögum sem var stillt upp sem framandi fólki í Evrópu voru hluti af því að skilgreina hvað Evrópa væri,“ segir Kristín, „en slíkar hugmyndir byggðu að miklu leyti á að flokka hvað væri betra og hvað væri verra.“  Í bókinni eru rakin nokkur dæmi um furðusýningar en jafnframt fjallað um annars konar sýningar á líkömum, svo sem vaxmódel af líkömum sem voru meðal annars notuð til kennslu um mannslíkamann.

venusarstulka

Dæmi um Venusarstúlku til sýnis. MYND/Kristín Loftsdóttir

Kristín bendir á í því samhengi að furðusýningar gengu einnig út á að minna aðra hópa á stöðu sína og tekur sem dæmi vaxmyndir af líkömum sem voru einnig vinsælar á furðusýningum. „Í því samhengi má minnast á hinar svokölluðu Venusarstúlkur því þær endurspegla líka þröngar hugmyndir um stöðu kynja á þeim tíma. Venusarstúlkur voru líkamar úr vaxi sem sýndu líkama kvenna og var hægt að rýna inn í þær og taka út hluta af líffærum. Þær höfðu oft raunverulegt hár og raunsæja andlitsdrætti og gjarnan undrunarsvip eða jafnvel lostasvip á andliti. Ég sá eina slíka stúlku úr vaxi í glerkistu á læknasafni í Belgíu og þar mátti sjá hendur með skyrtuhnappa halda þétt um opinn líkamann á meðan hún virðist hálf sofandi. Það var ekki hægt að taka líffærin úr henni en þetta leit engu að síður mjög undarlega út.“

„Undir lok 19. aldar var fyrst og fremst litið á brjóstmyndirnar sem dæmi um ákveðna kynþætti enda kynþáttavísindi þá í fullum blóma. Kynþáttavísindi eru falsvísindi sem byggðu á stigveldi fólks í flokka þar sem líkamar hvítra einstaklinga voru ekki eingöngu taldir þeir þróuðustu heldur því haldið fram að menning Evrópubúa eða fólks af evrópskum uppruna væri sú besta. Brjóstmyndirnar sneru því ekki að einstaklingunum heldur alhæfingum um manneskjuna í heild. Í flestum tilfellum voru litlar eða engar upplýsingar um viðkomandi á safninu.“ MYND/Kristín Loftsdóttir

Hver eru þau?  

Í seinni hluta bókarinnar segir Kristín sögu nokkurra einstaklinga í átta köflum. „Margar brjóstmyndirnar voru gerðar innan ramma svokallaðra höfuðlagsfræða sem voru vinsæl á fyrri hluta 19. aldar og gengu í stuttu máli út að höfuðlag segði eitthvað um viðkomandi,“ segir Kristín. „Undir lok 19. aldar var fyrst og fremst litið á brjóstmyndirnar sem dæmi um ákveðna kynþætti enda kynþáttavísindi þá í fullum blóma. Kynþáttavísindi eru falsvísindi sem byggðu á stigveldi fólks í flokka þar sem líkamar hvítra einstaklinga voru ekki eingöngu þeir þróuðustu heldur því haldið fram að menning Evrópubúa eða fólks af evrópskum uppruna væri sú besta. Brjóstmyndirnar sneru því ekki að einstaklingunum heldur alhæfingum um manneskjuna í heild. Í flestum tilfellum voru litlar eða engar upplýsingar um viðkomandi á safninu.“  

Einn kafli bókarinnar segir frá brjóstmyndunum sem gerðar voru á Íslandi árið 1856 en fram kemur í bók Kristínar að leiðangursmenn voru ekki mjög hrifnir af Íslandi. „Það er áhugavert að sjá sýn þeirra á Ísland á þessum tíma en ekki síður að bera saman sýn á Ísland og Grænland en það er einmitt einnig fjallað um gerð brjóstmynda á Grænlandi úr sama leiðangri,“ segir Kristín.

hofuð

MYND/Kristín Loftsdóttir

Annar kafli í bókinni  fjallar um Eldlendinga frá syðsta hluta Suður-Ameríku en lengi voru alls konar sögusagnir um þá meðal fólks í Evrópu. „Mér fannst áhugavert að fjalla um brjóstmyndir Eldlendinga að hluta til vegna þess að Charles Darwin kom til Eldlands eða Tierra del Fuego árið 1832,“ segir Kristín. „Með í för voru þrír einstaklingar frá því svæði sem var verið að skila aftur en þeir höfðu verið brottnumdir nokkrum árum áður. Það var vinsælt áratugina á eftir að nema á brott fólk frá þessu svæði og hafa til sýnis gegn vilja þeirra í Evrópu. Brjóstmyndirnar sem ég fjalla um í bókinni voru gerðar í leiðangri frá Frakklandi sem var farinn til Eldlands 1882–1883 til þess að framkvæma margvíslegar vísindarannsóknir sem snéru að fólki og umhverfi. Eldlendingar urðu mjög illa úti vegna sjúkdóma sem þeir höfðu litla vörn fyrir en líka vegna ágengis landnema í land og auðlindir á svæðunum sem þeir bjuggu á.“  

Fræðileg bók fyrir víðan lesendahóp

Bókin er ríkulega myndskreytt þar sem mikil vinna var lögð í að texti og myndir töluðu saman. „Bókin er ritrýnd bók en er skrifuð með víðan lesandahóp í huga,“ segir Kristín, „Ég vildi skrifa fræðilega bók sem næði út fyrir fræðisamfélagið, enda hefur Háskóli Íslands lagt áherslu á mikilvægi þess að koma þekkingu út í samfélagið. Ég hef lagt áherslu á það í öðrum bókum sem ég hef skrifað eins og Konan sem fékk spjót í höfuðið sem var gefin út árið 2011 og Kynþáttahyggja – Í stuttu máli  sem kom út 2021, báðar hjá Háskólaútgáfunni. Þótt það sé mikilvægt að skrifa fræðigreinar og bækur fyrir sérfræðinga á ákveðnu sviði þá er mjög gefandi að skrifa texta sem eru einnig ætlaðir fyrir stærri lesendahóp.“

Kristín talar um mikilvægi myndanna fyrir bókina en hluti af rannsókninni hefur einnig verið að finna myndir sem tengjast rannsókninni. „Myndirnar hafa auðvitað gildi í sjálfu sér en þær gera bókina líka aðgengilegri fyrir stærri lesendahóp,“ útskýrir Kristín. Hún bendir jafnframt á að Anna Lísa Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri Háskóla Íslands og ritstjóri bókarinnar, er einnig mannfræðingur og meðal sérgreina hennar eru söfn og efnismenning. „Mikil vinna var lögð í að finna myndir fyrir bókina og hún sá um hluta af því að velja myndir, en einnig að fá leyfi og annað slíkt, sem var oft flókið. Þekking og reynsla Önnu Lísu af söfnum var verkefninu í heild einnig mikilvægt en hún var verkefnisstjóri rannsóknarverkefnisins CERM sem viðfangsefni bókarinnar er hluti af.“ 

Mjög var vandað til verka við alla vinnslu og hönnun bókarinnar. Hönnunarteymið Arnar&Arnar sáu um hönnun bókarinnar en að því standa Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson. „Margar myndana í bókinni eru áhrifamiklar,“ segir Kristín. „Og það var frábært hversu vel þeir létu það skína í gegn í hönnun og heildarútliti bókarinnar. Brjóstmyndirnar sjálfar fela líka í sér svo mikla nálægð. Ég var mjög glöð yfir því þegar Sögufélag lýsti yfir áhuga á að gefa bókina út því það gefur ekki bara út sterkar fræðibækur heldur leggur einnig mikinn metnað í hönnun sinna bóka.“

Nemendur komu að vinnu tengdri bókinni 

Rannsóknarverkefnið CERM – Creating Europe through Racialized Mobilities fékk styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands og Rannsóknasjóð Háskóla Íslands, en í verkefninu er rýnt í mikilvægi hreyfanleika í víðu samhengi. Bókin sjálf var svo einnig styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Sjóði um samfélagsvirkni Háskóla Íslands. Kristín útskýrir einnig að margir nemendur hennar hafa unnið að ólíkum þáttum þessa verkefnis og aðstoðað við heimildaleit af ýmsu tagi. 

„Það er áhugavert hversu margt kemur í ljós með því að rekja sögu einstakra brjóstmynda,“ segir Kristín að lokum. „Mannfræðin hefur ávallt lagt áherslu á að skoða á nákvæman hátt ákveðin samfélög eða fyrirbæri en líka á þetta stærra samhengi. Þótt bókin sé komin út og ég hafi einnig gefið út greinar og bókakafla um þetta efni þá er verkefninu alls ekki lokið. Ég hef umfangsmikil gögn til að halda áfram að vinna úr og þræði sem ég vil gjarnan fylgja eftir.“ 

Kápa bókarinnar og Kriztín