Bók um sterka stöðu norrænu glæpasögunnar
Út er komin bókin Noir in the North. Genre, Politics and Place í ritstjórn Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, prófessors í bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Gunnar Staalesen skrifa formála og lokaorð bókarinnar. Það er Bloomsbury Academic sem gefur bókina út.
Í Noir in the North er fjallað um norrænar glæpasögur og sterka stöðu þeirra á alþjóðlegum markaði spennusagna, kvikmynda og sjónvarps undanfarna tvo áratugi. Höfundar bókarinnar fjalla um bókmenntagreinina frá margvíslegum sjónarhornum og greina helstu einkenni hennar og sögulegan og landræðilegan uppruna. Auk þess er í bókinni birt viðtal við rithöfundinn Val McDermid um reynslu hennar af því að skrifa glæpasögur sem kenndar hafa verið skoskt ‚noir‘.
Auk Gunnþórunnar skrifa tveir aðrir fræðimenn við Háskóla Íslands greinar í bókina. Grein Daisy Neijmann, aðjunkts við Íslensku- og menningardeild, ber titilinn „Complex Nostalgias: North, Pastness and Community Survival in Arnaldur Indriðason's Strange Shores and Ann Cleeves' Blue Lightning“ og Giti Chandra, sérfræðingur hjá RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum, birtir grein sem nefnist „Dragon Tattoos, Crime, and the City: The Contemporary Epic.“