Skip to main content
5. júní 2023

Bætir þekkingu á byltum hjá eldra fólki

Bætir þekkingu á byltum hjá eldra fólki - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Byltur eru lýðheilsuvandi meðal eldri einstaklinga um allan heim þar sem hættan á alvarlegum afleiðingum eftir byltu er mest í þessum hópi og þörfin fyrir markvisst og gagnreynt byltuvarnarstarf er því aðkallandi. Markmið byltuvarna er að fækka þeim sem detta, draga úr tíðni bylta og alvarlegum afleiðingum þeirra,“ segir Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor í sjúkraþjálfunarfræði, sem rýnir þessi misserin í reynslu eldra fólks af byltum með það fyrir augum að leggja til markvissari forvarnir og þjónustu í tengslum við byltur hjá þessum aldurshópi. Fyrstu niðurstöður hennar og rannsóknarhópsins sýna m.a. að karlar eru líklegir til að gera lítið úr byltunum og vilja síður ræða um þá reynslu.

Sólveig Ása hefur í starfi sínu lagt áherslu á að rannsaka líkamlega færni og fötlun, sjálfsbjargargetu og lífsgæði eldra fólks sem býr heima. „Byltur og hræðsla við að detta eru afar mikilvægir þættir sem tengjast þessum málum.  Ég hef verulegan áhuga á rannsaka hvernig umhverfistengdar áskoranir hafa þarna áhrif, til að mynda það að búa í dreifðari byggðum lands þar sem huga þarf að áhrifaþáttum eins og náttúru, veðurfari og aðgengi að þjónustu,“ segir Sólveig.

Skortur á rannsóknum á byltum

Hún bendir enn fremur á að rannsóknir á tíðni og faraldsfræði bylta hér á landi séu takmarkaðar „og um allan heim er kallað eftir rannsóknum sem undirbyggja gagnreyndar byltuvarnir fyrir eldri einstaklinga. Á Íslandi og víðar vantar meiri þekkingu á heilsu og færni eldri einstaklinga. Meðal annars þarf meiri upplýsingar um þá sem búa við krefjandi umhverfisaðstæður, eins og í dreifðari byggðum þar sem þjónusta er takmörkuð.“ 

Segja má að rannsóknarverkefnið sem Sólveig vinnur að þessa dagana sé tvíþætt. Annars vegar rannsakaði hún, ásamt meistaranemunum Ingibjörgu V. Hafsteinsdóttur og Ingunni K. Jónsdóttur, byltur hjá einstaklingum sem eru með öryggishnapp. Gögnin komu úr skráningarkerfi Öryggismiðstöðvarinnar (ÖM) og frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) á tólf mánaða tímabili 2019-2020 og rýnt var í aðstæður, afleiðingar og viðbrögð við byltunum. Hins vegar er eigindleg rannsókn í gangi þar sem meistaranemarnir Bergrún Gestsdóttir og Lilja D. Erlingsdóttir hafa á síðustu mánuðum rætt við eldri borgara í sjálfstæðri búsetu í þéttbýli, um reynslu þeirra af byltum. Til þessa hefur rannsóknarverkefnið jafnframt byggt á mikilvægu samstarfi við starfsfólk hjá ÖM, SÍ og ýmsa tengiliði á höfuðborgarsvæðinu og innan heilbrigðisumdæmis Suðurlands.

Eldra fólk segir ekki frá byltum

Rannsóknir sem þessar geta að sögn Sólveigar reynst flóknar enda erfitt að afla gagna sem lýsa öllum byltum í lífi einstaklings. „Til dæmis er talsvert um að eldra fólk og umönnunaraðilar segi ekki frá byltum. Orsakirnar eru margvíslegar, allt frá því að gleyma byltunni, þar sem hún þótti ekkert tiltökumál, yfir í það að hylma viljandi yfir atburðinum vegna hræðslu við að glata sjálfstæði sínu, í tengslum við skömm yfir því að ná ekki að spjara sig eða að hafa ekki sinnt umönnunarhlutverki sem skyldi. Markmiðið með eigindlegum rannsóknum á þessu sviði er meðal annars það að skilja aðstæður þeirra sem lenda í því að detta og nýta þann skilning til að byggja undir markvissari forvarnir og þjónustu,“ bendir hún á. 

Aðspurð segir Sólveig að kveikjan að verkefninu tengist alþjóðlegum rannsóknarniðurstöðum á þessu sviði og nýlegum heimsleiðbeiningum um byltur og byltuvarnir á meðal eldri einstaklinga. Sjálf hefur hún einnig unnið rannsóknir á þessu sviði sem náði til bylta eldra fólks á Norðurlandi á árunum 2004 og 2018. „Í fyrri rannsókninni var áhugavert að sjá hvernig byltutíðni meðal 65 ára og eldri Norðlendinga var afar keimlík því sem komið hefur fram í fjölmörgum erlendum rannsóknum á eldri einstaklingum sem bjuggu heima. 32% sögðu frá að minnsta kosti einni byltu, 11% höfðu dottið oftar en einu sinni á liðnu ári og tíðni bylta var hærri meðal kvenna en karla. Í seinni rannsókninni á sama landsvæði reyndust byltur hins vegar tíðari meðal eldri karla en kvenna. Sérstaka athygli vakti að hæsta tíðnin var meðal eldri karla sem bjuggu í dreifbýli en 47% þeirra höfðu dottið að minnsta kosti einu sinni og 31% oftar en einu sinni á liðnu ári,“ segir Sólveig um þessar fyrri niðurstöður sínar.

„Niðurstöðurnar sýna hvernig nýta má fyrirliggjandi gögn til að kortleggja byltuvanda meðal öryggishnappsnotenda og í kjölfarið að byggja upp markvissari forvarnir og þjónustu. Þessu þarf að fylgja eftir og kortleggja byltur meðal eldri einstaklinga almennt og á landsvísu, í þéttari og dreifðari byggðum,“ bendir Sólveig á.

Sumir hafa dottið í tugi skipta

Fyrstu niðurstöður nýju rannsóknarinnar liggja fyrir en þær byggjast gögnum frá ÖM og SÍ og tengdust rúmlega 450 byltum hjá nærri 130 einstaklingum, langflestum yfir 65 ára aldri. „Byltur voru skráðar hjá 18% af úrtakinu sem er lágt hlutfall miðað við almennar faraldsfræðitölur. Hér ber að geta þess að einstaklingar geta ekki notað öryggishnappinn utan heimilisins og vitað er að margir detta án þess að kalla eftir aðstoð frá ÖM. Margir þeirra sem duttu kölluðu hins vegar ítrekað eftir aðstoð í tengslum við það,  jafnvel svo tugum skipti yfir rannsóknartímabilið. Þessi hluti hópsins var á aldrinum 41-97 ára, 92% höfðu náð 65 ára aldri og 70% voru konur,“ segir Sólveig.

„Áhugavert var að sjá að í þessum hópi öryggishnappsnotenda voru ekki tengsl á milli kyns og þess að detta og ekki var línulegt samband á milli fjölda bylta og hækkandi aldurs. Þau 6% hópsins sem voru yngri en 65 ára voru með fleiri skráðar byltur en sá hluti hópsins sem var kominn yfir 75 ára aldur,“ bendir Sólveig á. Auk þess sýndu niðurstöður að helstu skráðu orsakaþættir byltna tengdust lyfjanotkun, að byltur voru algengastar að nóttu til og að áverkar á mjúkvefi og verkir frá stoðkerfi voru algengustu skráðu afleiðingar byltna. 

Sólveig bendir á að þótt rannsóknargögnin komi frá afmörkuðum hópi séu þessi rauntímagögn mikilvæg viðbót við það sem tíðkast í „klassískum“ bylturannsóknum sem byggjast yfirleitt á minni og vilja eldri einstaklinga til að rifja upp og lýsa byltusögu á síðustu 6-12 mánuði í lífi þeirra.

„Niðurstöðurnar sýna hvernig nýta má fyrirliggjandi gögn til að kortleggja byltuvanda meðal öryggishnappsnotenda og í kjölfarið að byggja upp markvissari forvarnir og þjónustu. Þessu þarf að fylgja eftir og kortleggja byltur meðal eldri einstaklinga almennt og á landsvísu, í þéttari og dreifðari byggðum,“ bendir hún á.

aldradur

„Svo var bara allt í einu kippt undan mér fæti‘‘

Í hinum hluta rannsóknarinnar hefur þegar verið rætt við 15 einstaklinga, níu karla og sex konur, um reynslu þeirra af því að detta. Fólkið er á aldrinum 70 til 91 árs og búsett í heimahúsi innan höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisumdæmis Suðurlands.

Í þessum hluta rannsóknarinnar hafa verið greind ákveðin þemu hjá kynjunum. Hjá konunum eru þau þrjú: óstöðugleiki, óöryggi og áfall. „Undirþemu óstöðugleika voru svimi og jafnvægisleysi, stjórnleysi og góðkynja stöðusvimi. Undirþemu óöryggis voru byltubeygjur, minni hreyfing, hjálpartæki og skóbúnaður og mikilvægi þess að geta staðið upp úr liggjandi stöðu (á gólfi). Undirþemu áfalls voru harkaleg bylta, beinbrot og vankantar heilbrigðiskerfisins,“ segir Sólveig og bætir við: „Tvær kvennanna töluðu um að allt í einu hefði verið kippt undan þeim fótunum. Það átti vel við þá reynslu sem allar konurnar lýstu og var sú setning því höfð sem yfirþema þessa hluta. „Svo var bara allt í einu kippt undan mér fæti“.“

Í tilviki karlanna reyndust þemun fimm: byltusaga, afleiðingar byltu, sjúkraþjálfun eftir byltur, stuðningur aðstandenda/nærumhverfis og einstaklingurinn. Þá hafði hvert þema nokkur undirþemu. „Margir karlanna gerðu lítið úr líkamlegum afleiðingum byltanna en andlegar og félagslegar afleiðingar voru verulegar. Í kjölfar bylta glímdu flestir þeirra við ákveðna vanmáttarkennd, neikvæðar hugsanir og upplifðu það að vera í byltuhættu og að detta sem niðurlægjandi. Einn karlanna sagði þessa gullnu setningu „Það er sko ekkert mál að detta, en það er að standa upp aftur“ en inntak hennar endurspeglaðist einnig í öðrum frásögnum,“ segir Sólveig enn fremur.

Þessi fyrstu viðtöl sýna að sögn Sólveigar hvernig byltur geta litað líf eldri kvenna og karla. „Þörf er á frekari eigindlegum rannsóknum á þessu sviði og þá sérstaklega á meðal eldri karla sem virðast eiga erfitt með að opna á þessa reynslu sína nema þeir séu spurðir af fyrra bragði.“

Niðurstöður nýtast í forvarnir og persónumiðaða þjónustu

Fleiri viðtöl eru á döfinni í haust en þar er markmiðið að sögn Sólveigar annars vegar að ná til eldri einstaklinga sem búa í dreifbýli og hins vegar einstaklinga sem fá stuðning til að búa heima.

Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að eldra fólki eigi eftir að fjölga mikið á næstu árum og áratugum samfara bættum lífsskilyrðum og því má ljóst vera að það er til mikils að vinna fyrir samfélagið að vinna með markvissum hætti gegn byltum og öðrum slysum hjá þessum hópi. Sólveig Ása bendir á að greining á byltum og byltuvarnir snúist þó ekki eingöngu um að fyrirbyggja byltur og mögulega færniskerðingar í kjölfar byltu heldur einnig því að þjónusta þá sem hafa áður dottið og hrakað í færni og draga þannig úr líkum á endurteknum byltum og frekari skerðingum. 

„Ný þekking sem byggist á þessu verkefni og framtíðarrannsóknum mun nýtast sjúkraþjálfurum og öðru heilbrigðisstarfsfólki til að efla bæði forvarnir og persónumiðaða þjónustu í tengslum við byltur á efri árum. „Aldraðir eru ekki eins“ – og byltur eru það ekki heldur. Eldri einstaklingar eru afar fjölbreyttur hópur, sem býr við margvíslegar aðstæður og tekst á við ýmiss konar verkefni í daglegu lífi. Þessi hópur hefur ríka reynslu af því að detta og þá reynslu er mikilvægt að nýta til að byggja upp viðeigandi forvarnir fyrir byltur og alvarlegar afleiðingar þeirra,“ segir Sólveig að endingu.

Sólveig Ása Árnadóttir