Skip to main content
25. ágúst 2023

Alþjóðlegir nýnemar boðnir velkomnir

Alþjóðlegir nýnemar boðnir velkomnir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stór hópur alþjóðlegra nýnema hefur nám við HÍ í haust og hafa þau undanfarna þrjá daga sótt ýmsar kynningar, fræðslu og aðra viðburði um starf skólans. Dagskráin náði hámarki í gær með móttöku í sól og blíðu við íþróttahúss skólans og fjölsóttu partíi á Stúdentakjallaranum.

Af þeim stóra hópi nýnema sem eru að hefja nám við HÍ eru hátt í þúsund sem hafa innritast í fullt nám við skólann auk nær 300 skiptinema sem hefja skiptinám í haust á grundvelli samstarfssamninga Háskólans við aðra háskóla. Alþjóðlegum nýnemum í fullu námi heldur áfram að fjölga milli ára.

Kynningardagar fyrir alþjóðlega nýnema stóðu yfir dagana 23.-25. ágúst en markmiðið með þeim er að auðvelda nemendum að taka fyrstu skrefin í HÍ og njóta námsdvalarinnar sem best. 

Náms- og starfsráðgjöf bauð upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fengu góðar ábendingar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann. Þá gátu nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 Minutes. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn var auk þess með kynningar á safninu og þjónustu þess og enn fremur gátu nemarnir hitt mentora úr hópi nemenda skólans á svokölluðum mentor-mingle viðburði. 

Óhætt er að segja að veðrið hafi verið með besta móti þessa dagana og því var ákveðið að halda árlega móttöku fyrir nýja alþjóðlega nema á grasflötinni fyrir aftan íþróttahús skólans. Þar buðu Jón Atli Benediktsson rektor, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, og Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, nemendur velkomna. Að því loknu tók við grillpartí með pylsum og gosi þar sem DJ Ragga Hólm hélt uppi stuðinu. Nemendur troðfylltu svo Stúdentakjallarann um kvöldið þar sem alþjóðanefnd SHÍ stóð fyrir barsvari. Í kvöld er svo boðið upp á partí með tónlistarkonunni Gugusar.

Háskóli Íslands býður þennan stóra og glæsilega hóp velkominn til landsins og í skólann og vonar að þau njóti dvalarinnar.
 

Nemendur í grillveislu
Rektor ávarpar stúdenta
Skiptinemar í grillveilsu