Skip to main content
25. ágúst 2022

Alþjóðlegir nýnemar boðnir velkomnir

Alþjóðlegir nýnemar boðnir velkomnir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stór hópur alþjóðlegra nemenda hefur nám við Háskóla Íslands í haust, eða yfir átta hundruð manns. Nær þriðjungur þeirra eru skiptinemar sem koma hingað í eitt eða tvö misseri á grundvelli samstarfssamninga Háskólans en ríflega fimm hundruð nemendur hafa innritast í fullt nám. Um 1600 alþjóðlegir nemendur sem koma frá yfir hundrað þjóðlöndum stunda nú nám við skólann.

Kynningardagar á háskólasvæðinu

Kynningardagar fyrir alþjóðlega nýnema eru haldnir dagana 25.-26. ágúst. Vegna Covid-19 hafa kynningardagarnir undanfarin tvö ár farið að mestu leyti fram á netinu svo það er ánægjulegt að geta boðið nýja alþjóðanema velkomna með viðburðum á háskólasvæðinu á ný. 

Á dagskrá eru ýmis námskeið, kynningar fræðasviða, skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið og móttaka með lifandi tónlist og grilluðum pylsum. Þá stendur Stúdentaráð fyrir karaoke og barsvari auk tónlistarviðburða í Stúdentakjallaranum. 

Náms- og starfsráðgjöf býður upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fá góðar ábendingar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann og njóta dvalarinnar á Íslandi. Þá geta nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 Minutes. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn verður auk þess með kynningar á safninu og þjónustu þess. 

Grillpartý og DJ

Á fimmtudeginum 25. ágúst er boðið til móttöku á Háskólatorgi þar sem Jón Atli Benediktsson rektor, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, og Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs, flytja ávörp. Að þeim loknum tekur síðan grillpartý við þar sem DJ KARITAS heldur uppi stuðinu. Dagskráin heldur svo áfram í Stúdentakjallaranum um kvöldið. 

Markmið daganna er að kynna þjónustu Háskólans, auðvelda nemendum að aðlagast nýrri menningu og kynnast öðrum nemendum.

Á upplýsingagátt á vef skólans má finna dagskrá kynningardaganna, upplýsingar um viðburði og alla helstu þjónustu í boði. 

Kynningardagar fyrir alþjóðlega nemendur hófust í morgun
Jónína Kárdal frá Náms- og starfsráðgjöf HÍ
Fullt var út úr dyrum á fyrsta viðburði kynningardaga fyrir alþjóðanema í morgun