Skip to main content
4. mars 2023

Allt um Háskóladaginn

Allt um Háskóladaginn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands opnar dyr sínar upp á gátt og býður landsmönnum öllum að kynna sér hátt í 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi á Háskóladaginn sem fram fer laugardaginn 4. mars milli klukkan 12 og 15. Um leið geta áhugasöm kynnt sér ýmsa aðra starfsemi og þjónustu sem nemendum skólans býðst.

Háskóladagurinn er samstarfsverkefni allra háskóla á Íslandi og hefur fyrir löngu unnið sér sess sem lykilviðburður fyrir þau sem hyggja á háskólanám. Það er með mikilli gleði sem starfsfólk og nemendur af öllum fimm fræðasviðum HÍ bjóða gesti aftur velkomna á háskólasvæðið á Háskóladeginum en undanfarin tvö ár hefur dagurinn farið fram á netinu vegna samkomutakmarkana tengdum kórónuveirufaraldrinum.

Námskynningar Háskóla Íslands fara fram víða á háskólasvæðinu og á staðnum verða vísindamenn, kennarar og nemendur úr öllum deildum Háskólans sem svara spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.

Námskynningar á vegum einstakra fræðasviða Háskóla Íslands verða á eftirtöldum stöðum:

Félagsvísindi: Háskólatorg, 2. hæð
Heilbrigðisvísindi: Háskólatorg, 2. hæð
Hugvísindi: Aðalbygging, 2. hæð
Menntavísindi: Gróska 
Verkfræði, raunvísindi og náttúruvísindi: Askja (en hugbúnaðarverkfræði og tölvunarfræði í Grósku)

Ef þú ert í vafa um hvar þú finnur þá námsleið sem þú hefur áhuga á að kynna þér á Háskóladeginum getur þú leitað að henni í sérstakri leitarvél á vef HÍ.

Kynning á fjölbreyttri þjónustu og námi annarra háskóla

Á Háskóladeginum kynnir starfsfólk og nemendur HÍ jafnframt margþætta þjónustu við stúdenta. Á 2. hæð á Háskólatorgi eru veita fulltrúar frá Nemendaráðgjöf, Alþjóðasviði og Nemendaskrá ýmsar upplýsingar og ráðgjöf sem tengist háskólalífinu. Á staðnum verða einnig fulltrúar frá Stúdentaráði sem veita upplýsingar um félagslífið í HÍ og Félagsstofnun stúdenta svarar spurningum sem snerta Stúdentagarða, leikskóla stúdenta og ýmsa aðra þjónustu.

Aðrir háskólar landsins verða einnig með kynningu á sínu námi á háskólasvæði HÍ. Þannig verða Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri í Grósku, en þar verður einnig kynnt nýsköpun í HÍ. Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands kynna námsframboð sitt á 1. hæð Háskólatorgs.

Háskólinn í Reykjavík er jafnframt með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir sínar námsleiðir í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi.

Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skólanna.

Allar nánari upplýsingar um Háskóladaginn í Háskóla Íslands má finna á vef skólans.
 

Nemendur í HÍ