Skip to main content
25. ágúst 2021

Aldrei fleiri alþjóðlegir nýnemar við HÍ

Aldrei fleiri alþjóðlegir nýnemar við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Yfir níuhundruð nemendur með erlent ríkisfang hefja nám við Háskóla Íslands í haust, þar af 288 skiptinemar og 621 á eigin vegum. Það fjölgar bæði í hópi skiptinema og nemenda á eigin vegum milli ára.

Skiptinemum fækkaði töluvert í fyrrahaust en þá hófu 174 nám við HÍ. Óvissa vegna þróunar kórónuveirufaraldursins hafði áhrif og sumir samstarfsskólar sendu ekki nemendur í skiptinám. Alþjóðlegum nemendum á eigin vegum fjölgaði hins vegar á síðasta ári en þá hófu 543 nám. 

Móttaka erlendra nema 
Kynningardagar fyrir alþjóðlega nýnema eru haldnir dagana 25.-27. ágúst. Dagskráin fer að mestu leyti fram á netinu vegna sóttvarna og samkomutakmarkana. Markmið daganna er að kynna þjónustu Háskólans og styðja nemendur í að aðlagast nýrri menningu og kynnast öðrum nemendum. 

Á dagskrá eru spennandi námskeið, skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið, kynningar fræðasviða og viðburðir á vegum Stúdentaráðs. Jón Atli Benediktsson rektor og Isabel Alejandra Díaz forseti SHÍ bjóða nemendur velkomna í upphafi kynningardaga.

Náms- og starfsráðgjöf býður upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fá leiðbeiningar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann og njóta dvalarinnar á Íslandi. Þá geta áhugasamir nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 minutes. Að þessu sinni verða námskeiðin haldin á netinu.

Til þess að auðvelda nemendum að aðlagast íslenskri menningu og samfélagi ætlar uppistandarinn Villi Neto að fara yfir nokkur sérkenni Íslendinga og íslensks samfélags. Uppistandið verður á netinu og í framhaldinu verður boðið upp á barsvar.

Á upplýsingagátt á vef skólans má finna dagskrá kynningardaganna, upplýsingar um viðburði og alla helstu þjónustu í boði. 

Aldrei fleiri erlendir nýnemar við HÍ