Skip to main content
8. júní 2023

Á þriðja tug fær styrki úr doktorssjóðum HÍ

Á þriðja tug fær styrki úr doktorssjóðum HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tuttugu og sjö verkefni hafa fengið styrk úr sjóðum innan Háskóla Íslands sem styðja sérstaklega rannsóknir doktorsnema. Verkefnin snúast m.a. um fordóma í gervigreind, kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni gagnvart konum á vinnustað, slaufunarmenningu, neyslu á mjög unnum matvörum á Íslandi, rússneskar bókmenntir á Íslandi, reynslu fatlaðs fólks af stafrænni umbreytingu á opinberri þjónustu, skipulag sjálfbærrar landbúnaðarframleiðslu á Íslandi og vistkerfisþjónustu norðurljósa.

Alls bárust 144 umsóknir um doktorsstyrki að þessu sinni og reyndist mikill meirihluti þeirra vel styrkhæfur. Samkeppnin um styrkina var því afar hörð. Að þessu sinni reyndist unnt að styrkja 27 verkefnanna og eru þau á öllum fimm fræðasviðum HÍ. Meirihluti styrkjanna er jafnframt til þriggja ára.

Doktorsstyrkjasjóður er yfirheiti yfir Rannsóknasjóð HÍ, Háskólasjóð Eimskipafélags Íslands og aðra sjóði sem koma að veitingu doktorsstyrkja innan skólans á hverjum tíma. Að þessu sinni var flestum styrkjum úthlutað úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins, eða 14, 10 fá styrk úr Rannsóknasjóði, þrír frá Vísindagörðum Háskóla Íslands, sem styrkir árlega rannsóknir á sviðum heilbrigðis- og líftækni, upplýsingatækni og endurnýjanlegrar orku, og einn frá Menningar- og framfarasjóði Ludvig Storr sem veitir m.a. styrki á sviði jarðefnafræði og verkfræði. 

Styrkirnir renna til rannsókna á afar fjölbreyttum fræðasviðum, m.a. á sviði félagsfræði, mannfræði, umhverfis- og auðlindafræði, hagfræði, viðskiptafræði, lýðheilsuvísinda, sálfræði, næringarfræði, lyfjafræði, læknisfræði, bókmenntafræði, heimspeki, menningarfræði, menntavísinda, efnafræði, umhverfisverkfræði, eðlisfræði, landfræði, líffræði, tölvunarfræði og jarðvísinda.

„Úthlutun doktorsstyrkja á vorin er árlegur og gleðilegur þáttur í starfi Háskóla Íslands og ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju. Doktorsnám hefur eflst mikið á undanförnum árum við Háskólann og skipta doktorsstyrkir frá HÍ og innlendum og erlendum sjóðum miklu í þeim vexti. Því miður fækkar styrkjum úr doktorssjóðum HÍ á milli ára, m.a. vegna fyrri skuldbindinga og fjárhagslegs aðhalds innan HÍ, en því ber að fagna að Menningar- og framfarasjóður Ludvig Storr veitir nú styrk í fyrsta skipti auk þess sem styrkjum frá Háskólasjóði Eimskipafélagsins fjölgar um tvo á milli ára og Vísindagarðar HÍ leggja til þrjá styrki, sem er fjölgun milli ára. Ég óska styrkþegum og leiðbeinendum þeirra alls hins besta í mikilvægum rannsóknum,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ. 

Yfirlit yfir styrkt doktorsverkefni árið 2023 má finna hér

Vefsíða doktorsstyrkja HÍ

""