Skip to main content

Ferðamálafræði

Ferðamálafræði

Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Ferðamálafræði

BS gráða – 180 einingar

Í ferðamálafræði er leitað svara við því af hverju fólk ferðast, hvað skapar aðdráttarafl, hvernig aðdráttaraflinu er viðhaldið og hvernig hægt er að byggja upp ferðamannastaði í sátt við umhverfi og menningu.

Skipulag náms

X

Inngangur að ferðamálafræði (FER101G)

Kynnt eru helstu viðfangsefni, hugtök og kenningar ferðamálafræða. Fjallað er um samfélagslegar orsakir ferðamennsku og áhrif ferðamennsku á umhverfi, samfélag og hagkerfi. Fjallað er um upphaf og þróun ferðamennsku og ferðalaga og hvert straumar ferðamanna liggja. Stúdentar þurfa að standast alla prófþætti námskeiðsins.

X

Mannvistarlandfræði (LAN104G)

Kynnt verða hugtök og kenningastraumar í samfélagsvísindum, með áherslu á notkun og birtingarform í samtímarannsóknum í mannvistarlandfræði og ferðamálafræði. Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist skilning á notkun hugtaka í vísindalegri umræðu og þjálfun í meðferð þeirra. Má þar telja algeng hugtök eins og staður, rými, hnattrænt, staðbundið, hnattvæðing, sjálfbær þróun, náttúra, landslag, menning, sjálfsmynd, ímynd og samfélag. Kennsluform er blanda fyrirlestra og umræðutíma í smærri hópum, sem tengjast skilaverkefnum nemenda. Próftökuréttur er háður verkefnaskilum og þátttöku í umræðuhópum.

X

Vinnulag í landfræði og ferðamálafræði (LAN105G)

Námskeiðið tekur á ólíkum þáttum vinnulags í háskólanámi og rannsóknum og er ætlað að veita nemendum hagnýtan undirbúning að háskólanámi. Námskeiðið skiptist í nokkra hluta og munu ákveðin verkefni og æfingar tengjast hverjum hluta. Fjallað verður um forsendur og markmið rannsókna og hugmyndafræðilega strauma, heimilda- og tilvísananotkun, tjáningu og framsögn ásamt ritun, stíl og framsetningu. Jafnframt verður stoðkerfi nemenda (s.s. bókasafn og námsráðgjöf) kynnt. Áhersla er lögð á vinnu nemenda með það að markmiði að nemendur tileinki sér árangursrík vinnubrögð í háskólanámi.

Önnur vinnulagsnámskeið geta verið metin jafngild þessu námskeiði

X

Náttúra Íslands (LAN107G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur öðlist grundvallarskilning á ferlum náttúrunnar, þannig að það nýtist við skipulagningu og stjórnun náttúrutengdrar ferðamennsku.

Fjallað verður um myndun og mótun lands og gerð grein fyrir þeim ferlum sem þar eru að verki. Lögð verður áhersla á eldvirkni, jarðskorpuhreyfingar, jökla, jarðveg, gróður og dýraríki. Áhersla verður jafnframt lögð á myndunarsögu Íslands og samspil innrænna og útrænna afla í þeirri sögu.

Gerð verður grein fyrir gróðurfarssögu á mismunandi tímabilum í jarðsögu landsins og samspili gróðurframvindu og landhnignunar frá lokum síðustu ísaldar.

Veitt verður innsýn í sögu landgræðslu og skógræktar. Í námskeiðinu verður sérstök áhersla lögð á sérkenni íslenskrar náttúru, afleiðingar einangrunar og samspil hinna ýmsu umhverfisþátta sem áhrif hafa á mótun íslensks landslags og náttúrufars. Farin verður námsferð um miðbik misseris. Stúdentar þurfa að standast alla prófþætti námskeiðsins.

X

Áfangastaðurinn Ísland (FER209G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum undirstöðuþekkingu á ferðamannalandinu Íslandi og helstu áfangastöðum og ferðaleiðum sem þar er að finna. Jafnframt er leitast við að veita nemendum hagnýta þjálfun til að þeir geti skipulagt ferðir um landið og notað til þess aðgengilegar aðferðir kortagerðar og unnið með með einfaldar landupplýsingar. Ferðaleiðir verða skoðaðar með tilliti til aðdráttarafls þeirra, afþreyingarmöguleika og upplifunar ferðamanna. Dregið verður saman það helsta um hverja leið með tilliti til samfélags þess svæðis sem ferðast er um, náttúru, sögu og menningu.

Sérstök áhersla verður lögð á þjálfun í:

 • Að afla gagna til að skipuleggja ferðir um Ísland fyrir ólíka hópa ferðamanna.
 • Miðlun upplýsinga til ferðamanna og pistlagerð.
 • Rýmistengdri hugsun og notkun landfræðilegra upplýsinga við skipulagningu ferða.

Farið verður sýndarferðalög víðsvegar um landið. 

X

Uppbygging fyrirtækja og starfshæfni í ferðaþjónustu (FER208G)

Viðfangsefni námskeiðsins snýr að stjórnun og uppbyggingu þjónustu og innra gæðastarfs hjá ferðaþjónustufyrirtækjum og stofnunum. Fjallað verður um hvernig þessi atriði hafa bein og / eða óbein áhrif á árangur fyrirtækja og stofnanna, sem meta má á fjölbreyttan hátt. Nemendur vinna að raunverkefni með fyrirtæki að eigin vali, þar sem innri starfsþættir og uppbygging fyrirtækis eru greind. Hluti námskeiðsins er helgaður starfsþróun, þar sem gefin er innsýn í störf á ferðaþjónustumarkaði og nemendur taka fyrstu skrefin í uppbyggingu ferilskrár og starfsferilmöppu.   

X

Tölfræði (LAN203G)

Í byrjun námskeiðsins eru grunnhugtök tölfræðinnar kynnt til sögunnar, svo sem þýði, úrtak og breyta. Nemendur kynnast hinum ýmsu lýsistærðum og myndrænni framsetningu gagna. Því næst verður farið í grundvallaratriði líkindafræðinnar og helstu líkindadreifingar kynntar.

Síðasti hluti námskeiðsins snýr að ályktunartölfræði þar sem skoðuð verða tilgátupróf og öryggisbil fyrir meðaltöl, dreifni og hlutföll og farið verður í fervikagreiningu og aðhvarfsgreiningu. Nemendur fá þjálfun í að reikna hinar ýmsu lýsistærðir í Excel ásamt því að útbúa gröf. Nemendur læra beitingu allra ofangreindra aðferða í tölfræðihugbúnaðinum SPSS.

X

Listin að ferðast (LAN205G)

Þetta námskeið fjallar um mismunandi tegundir ferðamennsku og birtingarmyndir ferðaþjónustu á ólíkum svæðum. Námskeiðið skoðar tiltekna strauma ferðamennsku eins og massaferðamennsku, fátækraferðamennsku og bakpokaferðamennsku ásamt því að kynna kenningar um drifkrafta ferðalaga. Umfjöllunin er tengd ákveðnum landsvæðum og sett í samhengi við samfélagslega þróun þeirra. Þannig er lögð áhersla lögð á að veita innsýn í landfræðilegt samhengi ferðaþjónustu í heiminum í dag ásamt þeim álitamálum og úrlausnarefnum sem ferðamennska á við að etja á ólíkum stöðum.

X

Ferðamennska og umhverfi (LAN308G)

Í námskeiðinu verður fjallað um náttúru og landslag sem auðlind ferðamennsku. Áhersla verður lögð á samspil manns og náttúru. Farið verður yfir sögu náttúruverndar og staða náttúruverndar í dag skoðuð í alþjóðlegu samhengi. Fjallað verður um skipulag og stjórnun þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða og skoðaðar aðferðir við gildismat náttúrunnar. Áhrif ferðamennsku á umhverfi verða rædd með áherslu á álag ferðamanna og þolmörk umhverfis. Gefin verður innsýn í náttúrusiðfræði og viðhorf og umgengni ferðamanna við náttúruna rædd. Sérstök áhersla verður lögð á sjálfbæra ferðamennsku og möguleikar þróunar slíkrar ferðamennsku hér á landi verða ræddir í ljósi skipulagningar og stjórnunar ferðamennsku.

Námskeiðið mun samanstanda af fræðilegum fyrirlestrum, umræðuverkefnum og æfingum. Stúdentar þurfa að standast alla prófþætti námskeiðsins.

X

Markaðsstarf í ferðaþjónustu I (FER306G)

Markmið námskeiðsins er að kynna nemendum grundvallar hugtök og kenningar í markaðsfræði, ásamt því að veita innsýn í grunnatriði þjónustustjórnunar í samhengi ferðaþjónustu. Lögð er áhersla á hagnýt verkefni og greiningar sem ýta undir faglegt og ábyrgt markaðs- og þjónustustarf.

Byggt verður á kennsluformi sem ýtir undir virka þátttöku nemenda.  Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna í tímum.

Viðfangsefnið hverju sinni er tengt við íslenskar aðstæður eins og kostur er. Ætlast er til að nemendur taki virkan þátt í umræðum á meðan á yfirferð stendur og því er mikilvægt að allir komi vel undirbúnir.

FER307G markaðsstarf í ferðaþjónustu II 2e, er tekið samhliða og ekki hægt að taka í sitthvoru lagi.

X

Markaðsstarf í ferðaþjónustu II (FER307G)

Þetta námskeið er hluti af FER306G marðkaðsstarf í ferðaþjónustu I og skulu námskeiðin tekin samhliða

Markmið námskeiðsins er að kynna nemendum grundvallar hugtök og kenningar í markaðsfræði, ásamt því að veita innsýn í grunnatriði þjónustustjórnunar í samhengi ferðaþjónustu. Lögð er áhersla á hagnýt verkefni og greiningar sem ýta undir faglegt og ábyrgt markaðs- og þjónustustarf.

Byggt verður á kennsluformi sem ýtir undir virka þátttöku nemenda.  Fyrirlestrar, umræður og verkefnavinna í tímum.
Viðfangsefnið hverju sinni er tengt við íslenskar aðstæður eins og kostur er. Ætlast er til að nemendur taki virkan þátt í umræðum á meðan á yfirferð stendur og því er mikilvægt að allir komi vel undirbúnir.

FER306G markaðsstarf í ferðaþjónustu I 6e, er tekið samhliða og ekki hægt að taka í sitthvoru lagi

X

Hnattvæðing efnahagslífsins (LAN305G)

Fjallað er um helstu einkenni á efnahagslífi heimsins, í ljósi hnattvæðingar viðskipta, stjórnmála og menningar á undanförnum áratugum. Athugað er hvernig þungamiðja heimshagkerfisins hefur færst til og hvernig hin ýmsu svæði og lönd tengjast því með mismunandi hætti. Teknir eru til athugunar helstu gerendur og stofnanir sem hafa áhrif á hnattvæðinguna, þar á meðal fjölþjóðafyrirtæki, alþjóðastofnanir og ríki. Dæmi eru tekin úr ólíkum geirum atvinnulífs, skoðað hvernig keðjur framleiðslu og neyslu hafa tekið breytingum með hnattvæðingu og greint hvaða áhrif slíkt hefur haft á staði og svæði.

X

Kenningar í ferðamálafræði (FER409G)

Á áttunda áratugnum byrjuðu fræðimenn að velta fyrir sér tilgangi, þróun og mikilvægi ferðamennsku í heiminum. Spurningar eins og „hver er ferðamaður?“, „hver er tilgangur þess að ferðast?“ og „hvað skilgreinir ferðalög?“ voru algengar framan af og enn þann dag í dag velta fræðimenn upp þessum sömu spurningum, þó með breyttum áherslum í síbreytilegum félagslegum og pólitískum aðstæðum.

Þessi áfangi leggur áherslu á helstu kenningar ferðamálafræðinnar og gefur innsýn í ólíkar nálganir og áherslur fræðanna. Krafa verður gerð á nemendur um að þeir velti fyrir sér mismunandi áherslum fræðimanna og setji fram eigin rannsóknarspurningar og móti hugsanlegar nálganir hvað varðar uppsetningu verkefnis í ferðamálafræðum.

X

Kannanir, viðtöl og vettvangsathuganir (LAN411G)

Markmið námskeiðsins er að veita nemendum fræðilega undirstöðu og hagnýta þjálfun til að þeir geti beitt algengum félagsvísindalegum aðferðum við rannsóknir í landfræði og ferðamálafræði.

Fjallað verður um þekkingarfræðilegan grunn félagsvísindalegra rannsókna, rannsóknarsiðferði, og algengar rannsóknaraðferðir, bæði eigindlegar og megindlegar.

Sérstök áhersla verður lögð á: a) framkvæmd viðtalsrannsókna, þar með talið undirbúning og gerð viðtalsramma, val viðmælenda, framkvæmd viðtals, afritun, lyklun, greiningu og túlkun; b) framkvæmd spurningakannana, þar með talið skipulagningu spurningakannana, úrtaksgerð, gerð spurningalista, réttmæti og áreiðanleika, orðalag spurninga, gerð gagnagrunns og úrvinnslu; og c) samþættingu aðferða.

Fyrirlestrar og verkefnatímar í námskeiðinu þjóna því hlutverki að byggja undir og styðja við rannsóknarverkefni sem nemendur vinna yfir misserið.

X

Menningartengd ferðaþjónusta (FER507G)

Í námskeiðinu verður hugað að þýðingu og skilgreiningu hugtaksins menningar í menningartengdri ferðaþjónustu með sérstöku tilliti til framsetningar og miðlunar ímynda og menningar á mismunandi vettvangi. Velt verður upp pólitískum og siðferðilegum spurningum hvað varðar söfnun, framsetningu og miðlun menningar í mismunandi samhengi og á mismunandi vettvangi, erlendis og hérlendis. Einnig verða skoðuð tengsl ferðaþjónustu við skapandi greinar. Spurningum varðandi eignarhald á menningararfleifð verða íhugaðar svo og í höndum hvers það að skapa menningararfleifð er.

Vettvangstímar fara fram innan höfuðborgarsvæðisins.

X

Skipulag og stefnumótun í ferðamennsku (FER510G)

Viðfangsefni þessa námskeiðs er skipulagning og stefnumótun í ferðamennsku út frá umhverfis-, félags- og efnahaglegum þáttum. Í víðum skilningi snerta skipulagsmál alla þætti ferðamennsku. Nemendur læra um hugmyndafræðilegar forsendur skipulagsvinnu, sögulega þróun stefnumótunar á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi með sérstakri áherslu á sjálfbæra þróun og Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Í námskeiðinu fá nemendur í hendur verkfæri til að lýsa, greina og meta forsendur, mótun og innleiðingu skipulags- og stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu þar sem lagt er upp úr að brúa milli fræðilegrar umræðu og hagnýtingar. Kennsla byggir á virkri þátttöku nemenda og námsmat reynir bæði á sjálfsstæði nemenda og hæfni þeirra til að vinna saman.

Vettvangstímar fara fram innan höfuðborgarsvæðisins.

X

Byggðaþróun og atvinnulíf (LAN514G)

Fjallað er um kenningar og stefnumótun varðandi þróun byggða og svæða og það efni sett í samhengi við íslenskar aðstæður. Farið er í fólksfjöldaþróun, þróun  atvinnulífs og aðrar forsendur búsetu, í mismunandi byggðarlögum á Íslandi, með áherslu á 21. öldina.  Skoðuð eru markmið, leiðir og ágreiningsefni um  byggðastefnu. Að námskeiðinu loknu eiga nemendur að kunna skil á sérstöðu hinna ýmsu landshluta og byggðarlaga á Íslandi og vera færir um að sjá stöðu þeirra í stærra samhengi þróunar í heiminum.

X

Nýsköpun í ferðaþjónustu (FER606M)

Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugreinin um heim allan og samkeppni um ferðamanninn mikil. Áhersla á nýsköpun og þjónustuþróun er því mikilvæg fyrir fyrirtæki og svæði í og tengd ferðaþjónustu til að skapa sér sérstöðu og takast á við breytingar sem og verða ekki undir í harðri samkeppni. Í þessu námskeiði verður farið í helstu stefnur og strauma í fræðilegu og hagnýtu samhengi nýsköpunar. Nemendur fá þjálfun í nýsköpunarvinnu, þróun og hönnun þjónustu og gerð viðskiptaáætlana.

Námskeiðið er 6 einingar sem jafngildir 150-180 klst. vinnu nemenda. Við höfum til umráða fjóra 40 mínútna tíma á viku, sem verða nýttir til fyrirlestra, umræðna og verkefnavinnu.

Mikið er lagt upp úr því að nemendur mæti í tíma og taki virkan þátt í námsferlinu.

X

Starfsþróun í ferðaþjónustu (FER614G)

Þetta er hagnýtt námskeið sem hefur að markmiði að gera nemendum kleift að yfirfæra þekkingu og hæfni úr grunnnámi í hagnýtt umhverfi ferðaþjónustunnar. Nemendur fá innsýn í starfsemi fyrirtækja og stofnana á sviði ferðaþjónustu og vinna verkefni sem efla starfshæfni þeirra eftir að námi lýkur. Ætlast er til þess að nemendur kynni sér starfsemi tiltekinna fyrirtækja og afli sér þekkingar á ólíkum störfum í ferðaþjónustu innan þeirra.

Gert er ráð fyrir að u.þ.b. 8-10 klst. sé varið á vettvangi að jafnaði í verkefnaviku námsbrautar (vika 8). Nemendur velja sér tvö fyrirtæki eða stofnanir úr hópi samstarfsaðila sem kynntur verður á upphafsvikum námskeiðs. Námsmat felst í verkefnavinnu, m.a. uppfærslu á ferilskrá (CV), uppfærslu ferilmöppu (portfolio), námsdagbókar og kynningar auk þess sem skyldumæting er í tíma.

X

BS-verkefni í ferðamálafræði ( 2ja manna ) (FER208L, FER209L)

Við lok grunnnáms vinna nemendur að sjálfstæðu rannsóknarverkefni á áhugasviði sínu innan ferðamálafræði. Almennt er gert ráð fyrir samvinnuverkefni tveggja nemenda en einnig má vinna það sem einstaklingsverkefni. Meginreglan er sú að verkefnið sé unnið á vormisseri en það má einnig vinna að hausti, og mögulega að sumri ef aðstæður leyfa. Í öllum tilvikum er gerð krafa um að skyldunámskeiðum 1. og 2. árs sé lokið áður en hafist er handa við BS verkefni.

Markmiðið er að veita þjálfun í að skipuleggja og framkvæma eigin rannsókn. Nemendur búa til rannsóknaráætlun þar sem viðfangsefnið er afmarkað, rannsóknarsnið er mótað, rannsóknarspurningar eru settar fram, fræðilegur rammi rannsóknarinnar er skilgreindur, sem og aðferðafræðileg nálgun. Rannsóknin er unnin á grundvelli áætlunarinnar og skulu henni gerð skil í heild sinni í ritgerð sem gengið er frá samkvæmt reglum Líf- og umhverfisvísindadeildar um rannsóknarritgerðir.

Vinna við BS verkefni er sett upp sem námskeið þar sem umsjónarkennari miðlar hagnýtum upplýsingum sem varða BS ferlið og verkefnavinnuna almennt. Hverju rannsóknarverkefni er jafnframt fenginn faglegur leiðbeinandi úr hópi kennara við námsbrautina. Undirbúningur hefst undir lok misserisins á undan með sameiginlegum fundi. Nemendur setja í kjölfarið fram hugmynd að rannsóknarverkefni og á grundvelli hennar er þeim fenginn leiðbeinandi. Nemendur ráðfæra sig við leiðbeinanda um mótun rannsóknaráætlunar sem síðan er skilað í byrjun misseris. Gert er ráð fyrir þremur sameiginlegum fundum með umsjónarkennara. Fjöldi funda með leiðbeinanda er samkomulagsatriði. Gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

X

BS-verkefni í ferðamálafræði ( einstaklingsverkefni) (FER208L, FER209L)

Við lok grunnnáms vinna nemendur að sjálfstæðu rannsóknarverkefni á áhugasviði sínu innan ferðamálafræði. Almennt er gert ráð fyrir samvinnuverkefni tveggja nemenda en einnig má vinna það sem einstaklingsverkefni. Meginreglan er sú að verkefnið sé unnið á vormisseri en það má einnig vinna að hausti, og mögulega að sumri ef aðstæður leyfa. Í öllum tilvikum er gerð krafa um að skyldunámskeiðum 1. og 2. árs sé lokið áður en hafist er handa við BS verkefni.

Markmiðið er að veita þjálfun í að skipuleggja og framkvæma eigin rannsókn. Nemendur búa til rannsóknaráætlun þar sem viðfangsefnið er afmarkað, rannsóknarsnið er mótað, rannsóknarspurningar eru settar fram, fræðilegur rammi rannsóknarinnar er skilgreindur, sem og aðferðafræðileg nálgun. Rannsóknin er unnin á grundvelli áætlunarinnar og skulu henni gerð skil í heild sinni í ritgerð sem gengið er frá samkvæmt reglum Líf- og umhverfisvísindadeildar um rannsóknarritgerðir.

Vinna við BS verkefni er sett upp sem námskeið þar sem umsjónarkennari miðlar hagnýtum upplýsingum sem varða BS ferlið og verkefnavinnuna almennt. Hverju rannsóknarverkefni er jafnframt fenginn faglegur leiðbeinandi úr hópi kennara við námsbrautina. Undirbúningur hefst undir lok misserisins á undan með sameiginlegum fundi. Nemendur setja í kjölfarið fram hugmynd að rannsóknarverkefni og á grundvelli hennar er þeim fenginn leiðbeinandi. Nemendur ráðfæra sig við leiðbeinanda um mótun rannsóknaráætlunar sem síðan er skilað í byrjun misseris. Gert er ráð fyrir þremur sameiginlegum fundum með umsjónarkennara. Fjöldi funda með leiðbeinanda er samkomulagsatriði. Gerð er krafa um sjálfstæð vinnubrögð nemenda.

X

Íslenskar sagnir, þjóðtrú og samfélag: Sagnahefð, hulduverur og sköpun þjóðarímyndar (ÞJÓ340G)

Í námskeiðinu verður íslensk sagna og þjóðtrúarhefð rannsökuð í ljósi frumheimilda og fræðilegrar umræðu á síðustu árum. Meginviðfangsefnið verður hvernig íslenskar sagnir hafa orðið til, gengið frá manni til manns og lifað og þróast I munnlegri hefð. Rætt verður um samhengi íslenskrar þjóðsagnasöfnunar á 19. og 20. öld og skoðað hvernig Sagnagrunnurinn, kortlagður gagnagrunnur um sagnir þjóðsagnasafnanna, getur nýst sem rannsóknartæki. Þá verður sjónum beint að efnisflokkum íslenskra sagna og fjallað um það hvernig sagnir kortleggja landslag, menningu og náttúru og gefa  innsýn inn í hugmynda- og reynsluheim fólksins sem deildi þeim. Jafnframt verður reynt að meta hvað sagnirnar geta sagt um þjóðtrú á Íslandi og hugað sérstaklega að reynslusögnum (memorat) og heimildagildi þeirra. Nemendur munu einnig kynnast helstu flökkusögnum á Íslandi og því hvernig mismunandi sagnahefðir og þjóðtrú nágrannalandanna setja mark sitt á þær.

X

Starfsþjálfun í landfræði og ferðamálafræði (LAN018G)

Markmið starfsþjálfunar er að nemendur kynnist störfum sem tengjast landfræði og/eða ferðamálafræði og hljóti þjálfun í þeim undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og liggja á sviði umhverfismála, sjálfbærni, markaðsmála, skipulagsvinnu, kortagerðar, gagnagreiningar og úrvinnslu, nýsköpunar, þjónustustjórnunar, ferðahönnunar og áætlunargerðar svo eitthvað sé nefnt. Verkefni nemenda skulu þannig reyna á þá þekkingu og færni sem þeir hafa þegar aflað sér í grunnnámi í landfræði eða ferðamálafræði.

Starfstími er 150 klst. (6 ECTS) og skal starfsþjálfun lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Að auki er gert ráð fyrir viðbótartíma sem felst í dagbókar- og skýrsluskrifum. Lokaafurð starfsþjálfunar skal skilgreina í náms- og starfsmarkmiðum í samráði við umsjónarkennara og forsjáraðila fyrirtækis/stofnunar.

 

Í lok starfstímans skal skila til umsjónarkennara:

 • Lokaskýrslu nemanda (skv. skilgreiningu í verkefnislýsingu).
 • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfsþjálfun stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.
 • Staðfesting umsjónarmanns á ástundun nemanda og verkefnavinnu í lok starfsþjálfunar.

Umsjónarkennari skal yfirfara skýrslu og dagbók nemanda svo og staðfestingu umsjónarmanns fyrirtækis/stofnunar.

Einkunn er gefin sem staðist/fallið og ekki er gefin töluleg einkunn.

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun.

Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is

X

Jarðvegsfræði (LAN516G)

Námskeiðið hentar nemendum á öðru og þriðja námsári
Námskeiðið felur í sér eftirfarandi helstu þætti:

 • Jarðvegsmyndandi ferla
 • Eðlis- og efnaeiginleika jarðvegs
 • Flokkun jarðvegs og hnattræna dreifingu
 • Hlutverk jarðvegs í vistkerfum
 • Áhrif utan að komandi þátta (t.d. gróðurs og loftslags) á jarðveg og næringarefnainnihald
 • Jarðvegsrof og landhnignun
 • Íslenskur jarðvegur og einkenni hans
 • Áhrif fólks á jarðveg og gróður
 • Jarðvegur sem rannsóknarefni varðandi mannvist og umhverfissögu

Námskeiðið samanstendur af fyrirlesturum, vettvangs- og rannsóknastofuvinnu og ritgerðaskrifum.

X

Kortagerð og kortahönnun (LAN102G)

“visualization is the process of making the invisible visible[...] the process of making the cognitive imagination visual using available and culturally dominant technologies is one of the most consistent behaviors of mankind.”

„Myndræn framsetning er að gera ósýnileg fyrirbæri sýnileg [eða] það að gera sjónrænt grein fyrir ímyndun hugans með tiltækri tækni og í samræmi við menningarleg viðmið. Þetta er eitt af því sem mannkynið hefur alltaf leitast við að gera.” - Cox, D. (2006). "Metaphoric Mappings: The Art of Visualization." MIT Press.

Kortagerð er einn af mikilvægum hlutum landupplýsingahönnunar.

Nemendur kynnast fræðilegri undirstöðu kortagerðar með hjálp stafrænnar tækni. Námskeiðinu er ætlað að veita nemendum greinargóðan skilning á hugtökum og hagnýtum atriðum sem snerta myndræna framsetningu á kortum og miðlun landfræðilegra upplýsinga. Það snertir ýmis mikilvæg svið í landfræði og skyldum greinum. Í gegnum fyrirlestra og umræður fá nemendur skilning á sögu kortagerðar, helstu kenningum og hugtökum á fagsviðinu og hlutverki landfræðilegra upplýsingakerfa við gerð korta nú á dögum. Fyrirlestrum er fylgt eftir með verkefnum sem hjálpa nemendum að skilja undirstöðuhugtök kortagerðar, sem og skipulegum æfingum í tölvuveri  þar sem nemendur læra að nýta sér landfræðileg upplýsingakerfi við einfalda greiningu og framsetningu landupplýsinga. Nemendur öðlast færni til að rýna eigin verk og annarra á gagnrýninn hátt og geta útskýrt og réttlætt eigin ákvarðanir varðandi myndræna framsetningu á korti.

X

Ferðamennska og víðerni (LAN521G)

Fjallað er um víðerni sem félagslega smíð og hlutlæga tilveru víðerna. Gefið er yfirlit yfir sögu víðernishugmyndarinnar í menningar- og sögulegu samhengi. Skoðuð eru markmið með verndun víðerna og helstu átök um varðveislu þeirra. Kynntar eru hugmyndir um skipulag og stjórnun víðerna fyrir ferðamennsku og útivist. Varpað er ljósi á tengsl milli ferðamennsku, víðerna og stefnu í stjórnun þeirra. Námskeiðið hefst á fimm daga ferð um víðerni Íslands.

X

Borgir og borgarumhverfi (LAN512M)

Í námskeiðinu er fjallað um helstu kenningar og aðferðir borgarlandfræði og borgarhönnunar við greiningu á lífi og umhverfi í borgum, með áherslu á bæjarrými, nærumhverfið og hverfi innan borga og bæja.

Fjallað er um sögulega þróun borga frá upphafi borgamyndunar til okkar daga. Þá er fjallað um helstu viðfangsefni borgarlandfræði og borgarhönnunar við greiningu og stefnumótun um borgir og borgarumhverfi, svo sem um ólíka félagshópa og búsetu, atvinnu og samgöngur í borg, upplifun og gæði bæjarrýma, list og menningu í bæjarrýmum, náttúruna í borginni og mörkun staða. Einnig um áskoranir borga á okkar samtíma, svo sem tengt loftslagsmálum, sjálfbærni og fjórðu iðnbyltingunni.

Fyrirlestrar, umræðutímar og verkefnavinna. Einstaklings- og hópverkefni.

X

Mannskepnur og önnur dýr (ÞJÓ110F)

Kennsla fer fram með fyrirlestrum, umræðu, rafrænum fyrirlestrum og vettvangsferðum í náttúru og á söfn.

Samskipti manneskjunnar við önnur dýr er viðfangsefni þessa námskeiðs sem við nálgumst frá bæði fræðilegum og listrænum sjónarhornum. Nemendur vinna sjálfstæð verkefni, um dýr að eigin vali, þar sem áhersla er einnig lögð á sjónræna framsetningu - t.d. teikningar eða ljósmyndir.  Í fyrirlestrum verður m.a. fjallað um hvítabirni, hvali, geirfugla og lunda og nýlegar rannsóknir á þeim.  Fjallað verður um áhrifavald og ólíkar birtingarmyndir dýra í margvíslegu listrænu og menningarlegu samhengi, til dæmis í fornbókmenntum, þjóðsögum, munnmælum, kvikmyndum, fréttum, efnismenningu og ferðamennsku. Þá verður til dæmis hugað að „framhaldslífi“ dýra í formi listmuna, safngripa og minjagripa. Við munum skoða gripi í einkaeigu og á opinberum vettvangi og spyrja spurninga á borð við: hvað gerist þegar lifandi dýri er breytt í safngrip? Hvernig þróast og breytist merking dýrsins í ólíku samhengi? Hvernig mótast hugmyndir okkar um dýr? Tekist verður á við hlutverk ólíkra dýra í þekkingasköpun og mótun orðræðu um loftslagsmál og málefni norðurslóða, tengsl við ákveðin landsvæði og menningarhópa og hlutverk þeirra í ímynda- og sjálfsmyndasköpun bæði fortíðar og samtíma.  Stigið verður út fyrir hefðbundna ramma sem snúa að aðgreiningu manna/dýra og annarra lífvera um leið og við könnum samtvinnaða hugmynda- og vistheima þeirra.

Markmið

Markmið námskeiðs er að velta upp áríðandi spurningum og málefnum er snúa að sambúð fólks og dýra, loftlagsbreytingum, útrýmingu dýrategunda og sjálfbærni. Við munum íhuga hvernig listamenn, rannsakendur, aðgerðasinnar og söfn hafa tekið þátt í umræðu um þessi málefni og hvernig hægt sé að þróa umræðuna áfram. Við munum skoða hvernig mismunandi lista- og menningarminjasöfn miðla hugmyndum og upplýsingum um samband manna og dýra í gegnum safneign sína og sýningar. Nemendur eru hvattir til að nálgast, með gagnrýnum hætti, sjónrænt efni, muni, gripi og texta, bæði rafrænt en einnig með heimsóknum á söfn og sýningar. 

X

Útivist og útinám í lífi og starfi (TÓS301G)

Inntak: Fjallað verður um hugmyndafræði og gildi útináms og ævintýranáms í starfi með fólki með áherslu á hagnýtar kenningar, rannsóknir og reynslu af vettvangi. Áhersla er lögð á að annars vegar að njóta náttúrunnar og hins vegar að greina hvernig náttúran getur verið vettvangur fyrir uppeldi og margskonar nám (t.d. með rýni í plöntur, dýr eða landslag).

Kynntar eru leiðir um hvernig náttúran getur auðgað starf með börnum, unglingum og fullorðnum m.a. til þess að efla sjálfstraust, sjálfsmynd, uppbyggjandi samskipti og auka þekkingu fólks á náttúrunni og efla tengsl okkar við hana. Einkum er litið á vettvang frítímans sem þann starfsvettvang sem unnið er með, en einnig er unnið með útfærslu og framkvæmd útináms í skóla- eða tómstundastarfi. Kennaranemar sem taka námskeiðið vinna sín verkefni með hliðsjón af skólastarfi og tengingar við aðalnámskrá. Fjallað verður um ýmis gagnleg atriði varðandi útivist m.a. um útbúnað, klæðnað, ferðamennsku og öryggismál.

Farið verður í eina tveggja nátta ferð (11. - 13. október 2023 (gæti breyst í dagsetninguna 25.-27. okt)) og eina einnar nætur ferð (14.- 15. nóvember 2023) þar sem nemendur glíma við raunveruleg verkefni á vettvangi.

Ferðakostnaður: Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna ferðar, kr. 17.000.

Vinnulag: Námskeiðið er kennt bæði í stað- og fjarnámi. Í staðnámi er að jafnaði kennt tvo dag í viku.

Kennslan byggir á fyrirlestrum, verklegri kennslu, útivistarferðum, verkefnavinnu og umræðum. Rík áhersla er lögð á fjölbreyttar útivistarferðir þar sem nemendur takast á við raunveruleg verkefni. Umræður eru í tímum og á neti, en einnig er rætt um upplifanir hópsins og einstaklinganna í ferðunum og rýnt í þann lærdóm sem af þeim má draga (ígrundun). Unnin eru verkefni þar sem nemendur þurfa m.a. að fara með hóp í ferð. Þar reynir á ferlið frá hugmynd (sköpun), undirbúning, framkvæmd og mat. 
Nemendur eru hvattir til að nota leiðarbók á námskeiðinu fyrir ígrundanir, minnispunkta og hugleiðingar.

X

Starfsþjálfun í landfræði og ferðamálafræði (LAN018G)

Markmið starfsþjálfunar er að nemendur kynnist störfum sem tengjast landfræði og/eða ferðamálafræði og hljóti þjálfun í þeim undir faglegri handleiðslu reyndra stjórnenda hjá fyrirtækjum eða opinberum stofnunum. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og liggja á sviði umhverfismála, sjálfbærni, markaðsmála, skipulagsvinnu, kortagerðar, gagnagreiningar og úrvinnslu, nýsköpunar, þjónustustjórnunar, ferðahönnunar og áætlunargerðar svo eitthvað sé nefnt. Verkefni nemenda skulu þannig reyna á þá þekkingu og færni sem þeir hafa þegar aflað sér í grunnnámi í landfræði eða ferðamálafræði.

Starfstími er 150 klst. (6 ECTS) og skal starfsþjálfun lokið innan 12 vikna frá því að hún hófst. Að auki er gert ráð fyrir viðbótartíma sem felst í dagbókar- og skýrsluskrifum. Lokaafurð starfsþjálfunar skal skilgreina í náms- og starfsmarkmiðum í samráði við umsjónarkennara og forsjáraðila fyrirtækis/stofnunar.

 

Í lok starfstímans skal skila til umsjónarkennara:

 • Lokaskýrslu nemanda (skv. skilgreiningu í verkefnislýsingu).
 • Dagbók sem nemandi hefur haldið meðan á starfsþjálfun stóð. Dagbókin skal fela í sér vikulegt yfirlit þar sem fram kemur hver verkefni vikunnar voru og hve miklum tíma var varið í einstök verkefni.
 • Staðfesting umsjónarmanns á ástundun nemanda og verkefnavinnu í lok starfsþjálfunar.

Umsjónarkennari skal yfirfara skýrslu og dagbók nemanda svo og staðfestingu umsjónarmanns fyrirtækis/stofnunar.

Einkunn er gefin sem staðist/fallið og ekki er gefin töluleg einkunn.

ATH: Nemendur geta ekki skráð sig sjálfir í þetta námskeið heldur eru þeir skráðir í námskeiðið þegar þeir hafa tryggt sér starfsþjálfunarstöðu hjá fyrirtæki eða stofnun.

Allar starfsþjálfunarstöður verða auglýstar sérstaklega á Tengslatorgi (www.tengslatorg.hi.is ) í upphafi hvers kennslumisseris og nemendur sækja sérstaklega um að komast í starfsþjálfun.  Umsókn ásamt ferilskrá og kynningarbréfi, þar sem nemendur tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á að komast í starfsþjálfun hjá viðkomandi fyrirtæki skal senda á von-starfsthjalfun@hi.is

X

Umhverfis- og samfélagsleg ábyrgð í ferðamennsku (LAN623G)

Samfara auknum umsvifum ferðaþjónustunnar út um allan heim aukast umhverfis- og samfélagsleg áhrif ferðamennsku jafnt og þétt. Það er því mikilvægt að nemendur í ferðamálafræði og skyldum fagsviðum þekki og skilji þessi áhrif og geti beitt viðeigandi aðferðum til að stýra þeim. Enn fremur er mikilvægt að nemendur skilji hlutverk þessara áhrifa í víðara samhengi og tengsl þeirra við loftlagsbreytingar og sjálfbæra framtíð. Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu nemenda á umhverfis- og samfélagslegri ábyrgð í ferðamennsku og mikilvægi hennar í uppbyggingu sjálfbærrar ferðamennsku. Áhersla verður lögð á að greina umhverfis- og samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu. Kynnt verða mismunandi umhverfisstjórnunarkerfi og umhverfisvottanir í ferðaþjónustu og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja rædd. Mismunandi nálganir, tæki og aðferðir sem notaðar eru á sviði umhverfisstjórnar og samfélagslegrar ábyrgðar verða enn fremur kynnt.

Námskeiðið er á kennt á framhaldsstigi, en nemendur sem lokið hafa tveimur árum í grunnnámi geta einnig setið námskeiðið. Námskeiðið er kennt á ensku.

X

Námsferð til útlanda (LAN615G)

Vettvangsnámskeið í landfræði og ferðamálafræði, sem að felur í sér undirbúningstíma á misserinu og um tíu daga vettvangsferð eftir próf í maí. Nemendur bera kostnað af þátttöku í vettvangsferðinni.

Vettvangsferð til Western Cape héraðs í Suður-Afríku, í samstarfi við Landfræði- og umhverfisdeild Stellenbosch háskóla, þar sem ferðamennska er einnig meðal viðfangsefna í rannsóknum kennara. Sambærileg námsferð var farin árið 2019 og 2023. 

X

Landslag og orkumál (LAN621G)

Kennt annað hvert ár þegar ártal er slétt tala.

Landslagshugtakið er skoðað á gagnrýninn hátt út frá sjónarhorni mannvistarlandfræði. Breytingar á landnýtingu, orsakir þeirra og afleiðingar fyrir landslag eru ræddar. Sérstök áhersla verður lögð á vinnslu, flutning og nýtingu endurnýjanlegrar orku og landslagsáhrif mismunandi tegunda slíkrar orku. Greind eru dæmi um átök vegna ólíkra hagsmuna og/eða sýnar á náttúruna í tengslum við endurnýjanlega orku. Samspil orkuvinnslu, ferðaþjónustu og friðlýsingar svæða á Íslandi verður skoðað með tilliti til landslags. Einnig er rætt hvernig ákvarðanir um orkunýtingu eru teknar og að hve miklu leyti sjónarmið almennings koma við sögu.

Farin er vettvangsferð til að skoða núverandi og áformuð orkuvinnslusvæði.

X

Friðlýst svæði, landvarsla og stjórnun (LAN622G)

Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu nemenda á grundvallarþáttum náttúruverndar, og hlutverki stjórnunar og skipulags í náttúruvernd hér á landi með tilliti til ferðamennsku innan friðlýstra svæða. Áhersla verður lögð á samspil verndunar og ferðamennsku, með sérstakri áherslu á líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni. Farið yfir helstu álitamál um landnýtingu og náttúruvernd, sem og helstu ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga. Jafnframt verður skipulag ferðamennsku innan friðlýstra svæða rædd ásamt öryggismálum ferðamannastaða í náttúru Íslands. Kennd verða grundvallaratriði umhverfistúlkunar og leiðsagnar um náttúrusvæði. Nemendur munu enn fremur fá hagnýta reynslu í umhverfistúlkun og landvörslu og þar með talið móttöku gesta og þjónustuhlutverk landvarða.

Farnar verða fjórar vettvangsferðir á námskeiðstímanum. Ferðir og uppihald kosta nemendur sjálfir. Til að ljúka námskeiðinu þurfa nemendur að mæta í allar ferðirnar.

Námskeiðið er unnið í samvinnu við Umhverfisstofnun. Lokapróf í námskeiðinu, ásamt BS prófi í jarðfræði, líffræði, landfræði eða ferðamálafræði, veitir starfsréttindi Umhverfisstofnunar sem landvörður.

X

Skipulag byggðar og lands (LAN610M)

Í námskeiðinu eru kynntar helstu kenningar, hugtök og viðfangsefni skipulagsfræði, söguleg þróun skipulagsgerðar og stjórnkerfi skipulagsmála.

Megináhersla námskeiðsins er á hagnýtar aðferðir við skipulagsgerð, sérstaklega fyrir skipulag stærri landfræðilegra heilda, eins og þéttbýlisstaða, sveitarfélaga eða landshluta. Nemendur kynnast og þjálfast í að beita ólíkum aðferðum við gagnaöflun, greiningu og túlkun á byggð, samfélagi, náttúrufari og ólíkum hagsmunum varðandi þróun byggðar og nýtingu lands, vegna skipulags tiltekins svæðis. Farið er yfir aðferðir til að leggja mat á aðstæður, áskoranir og tækifæri á skipulagssvæðinu. Einnig aðferðir við mótun og framsetningu skipulagstillagna og stefnu í skipulagi.

Fyrirlestrar, umræðutímar og verkefnavinna. Einstaklings- og hópverkefni.

X

Ímynduð samfélög og þjóðmenning: Þjóðir, ímyndir og alþýðuhefðir (ÞJÓ439G)

Námskeiðið fjallar um hvernig sjálfsmyndir og ímyndir af Íslendingum og öðrum þjóðum hafa mótast og hvernig þær vinna með alþýðuhefðir á hverjum stað. Við skoðum íslenskan veruleika og ímyndir í samanburði við reynslu ýmissa grannþjóða og rannsökum hvernig sögur, siðir og minjar skapa þjóðir og móta þær, frá þjóðminjasöfnum til þorrablóta í London; og frá viskídrykkju (í Skotlandi) til víkingasagna (á Norðurlöndum), með viðkomu á Up Helly Aa (á Hjaltlandseyjum) og Ólafsvöku (í Færeyjum); við skoðum hönnunarsýningu (á Grænlandi), norrænar byggðir í Vesturheimi og sendum myndir af öllu saman á samfélagsmiðla.

Við berum niður í kvikmyndum og tónlist, hátíðum, leikjum og skrautsýningum stjórnmálanna. Sérstaklega verður greint hvernig þjóðlegar ímyndir sameina og sundra hópum fólks. Í því samhengi verður horft til kvenna og karla, búsetu (borgar og landsbyggðar), fólksflutninga fyrr og síðar (innfluttra, brottfluttra, heimfluttra), kynþáttahyggju og kynhneigðar. Við rannsökum þessar ímyndir sem hreyfiafl og hugsjón, auðlindir og þrætuepli og skoðum hvernig þeim er beitt í margvíslegu skyni af ólíku fólki á ólíkum stöðum, jafnt af þjóðernispopúlistum sem græningjum, ríkisstofnunum og bönkum, fræðafólki og nemendum.

X

Alþýðutónlist: Hefðir, andóf, stál og hnífur (ÞJÓ448G)

Í þessu námskeiði kynnast nemendur alþýðutónlist í gegnum tíðina, skoða uppruna hennar og hlutverk í menningu, samfélagi og sjálfsmyndarsköpun; alþýðutónlist sem hefur orðið að æðri tónlist trúarbragða og efri stétta, og tónlist jaðarhópa og minnihlutahópa sem orðið hefur að meginstraumstónlist. Menningarlegt hlutverk tónlistar sem andóf, sameiningarafl, sjálfsmyndarsköpun, afþreying og iðnaður, verður rannsakað. Farið verður yfir sögu söfnunar tónlistar, úrvinnslu og útgáfu.

Skoðaðar verða þjóðsögur og arfsagnir tónlistarheimsins um tónlistarmenn og tónlistarstefnur, og efnismenning tónlistar verður rædd. Hugmyndir um sköpun og eðli tónsköpunar verða skoðaðar, m.a. í tengslum við höfundarrétt, almannarétt og endurnýtingu tónlistar, þ.e. sem efnivið nýsköpunar í tónlist.

Rímnakveðskapur, raftónlist, blús, rapp, grindcore, klassík, hip-hop, jazz, popp, pönk messur, breakbeat, ópera og dauðarokk.

X

Efnismenning og samfélag: Hlutirnir, heimilið, líkaminn (ÞJÓ205G)

Í námskeiðinu verður efnisleg hversdagsmenning tekin til gagngerrar umfjöllunar. Gefið verður yfirlit yfir þetta þverfaglega rannsóknarsvið og rýnt jöfnum höndum í dæmi úr samtímanum og frá fyrri tíð, íslensk og erlend. Meðal annars verður fjallað um föt og tísku, matarhætti, hlutina sem umkringja okkur í daglega lífinu, rusl og hreinlæti, handverk og neyslumenningu, hús og garða, heimilið, borgarlandslag, söfn og sýningar. Um leið kynnast nemendur ýmsum kenningum og sjónarhornum sem leggja t.a.m. áherslu á mannslíkamann, kyngervi, neyslu, rými og stað.

X

Norræn trú (ÞJÓ437G)

Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.

X

Viðburða- og verkefnastjórnun (TÓS411G)

Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að undirbúa og skipuleggja viðburði á faglegan hátt með aðferðum og leiðum verkefnastjórnunar. Áhersla er á samvinnu og verkefnavinnu með markvissum hætti og nemendur ættu því að búa að aukinni færni fyrir önnur námskeið í háskólanámi, vinnumarkað og hvers konar félagsstörf. Námskeiðið er grunnnámskeið í tómstunda- og félagsmálafræði og er ætlað að mæta síaukinni kröfu um færni í viðburða- og verkefnastjórn á starfsvettvangi þeirra. Það er einnig opið öðrum nemendum við Háskóla Íslands sem valnámskeið.

Nemendur eru hvattir til virkar þátttöku í umræðum sem og verkefnavinnu því þannig skapast gott lærdómssamfélag sem margfaldar árangur allra. Nemendur eru jafnframt hvattir til uppbyggilegra samskipta og ábyrgðar á eigin námi og framgöngu í námskeiðinu.

Inntak
Á námskeiðinu verður farið yfir skipulagningu viðburðaverkefna. Áhersla er lögð á undirbúning, greiningar, áætlanir, framkvæmd og eftirvinnslu viðburða s.s. á sviði tómstunda, frítíma og menningar. Rýnt er í viðburði eins og fundi, ráðstefnur, tónleika, útihátíðir, íþróttamót, merkisdaga mannsævinnar og fasta hátíðisdaga. Fjallað er um lög, reglur og öryggisatriði. Skoðuð eru tengsl frístunda, tómstunda og ferðaþjónustu, sem og uppeldislegt- og samfélagslegt gildi viðburða og efnahagsleg áhrif þeirra.

Vinnulag
Fyrirlestrar, umræður, verkefnavinna og heimsóknir. Í námskeiðinu vinna nemendur að undirbúningi, framkvæmd og mati á eigin viðburði og taka þátt í að rýna viðburði samnemenda auk lesefnisprófs.

Námskeiðið er kennt í stað- og fjarnámi og mætingarskylda er í námskeiðið fyrir staðnema og fyrir fjarnema í staðlotur.

Lágmarkseinkunn í hverjum námsþætti er 5.0.

X

Rokkar og stokkar og reður í krús: Söfn og fræði (SAF201G)

Námskeiðið er almennur inngangur að safnafræði. Fjallað verður um helstu þætti safnastarfs og fræðilegar og sögulegar forsendur þess. Skoðað verður hlutverk safna í fortíð og nútíð, uppbygging safnkosts, flokkun, skráning og varðveisla. Hugað verður að aðgengi, fræðslu, sýningagerð og gildi rannsókna fyrir safnastarf. Einnig verða skoðaðar mismunandi aðferðir við túlkun og framsetningu á sýningum. Íslensk söfn verða sett í samhengi við þjóðfræði, sem og erlent safnastarf og fræði. Námskeiðið skiptist í þrjár lotur, sem hver fyrir sig spannar um 4 vikna tímabil. Í hverjum hluta eru fyrirlestrar frá kennara auk skipulagðrar heimsóknar á tiltekið safn og umræður í kjölfarið. Áhersla verður lögð á umræður og verkefnavinnu innan safna.

X

Landfræðileg upplýsingakerfi 1 (UMV401G)

Nemendur með UMV401G sem skyldunámskeið hafa forgang við skráningu. 

Markmið: Að gera nemendum frá breiðum bakgrunni mögulegt að hagnýta landfræðileg upplýsingakerfi til kortagerðar og landfræðilegrar greiningar við skýrslu- og álitsgerð, kynningu verkefna, vinnu og rannsóknir. Að nemendur öðlist þroska og þjálfun til að 1) stýra verkefnum á sviði landfræðilegra upplýsinga, 2) meta hvernig landfræðileg greining og kort nýtast best fyrir fjölbreytt verkefni, 3) rita texta sem túlkar korta og lýsir landfræðilegri greiningu, 4) rita fagmannlega skýrslu um verkefni sem hagnýtir sér landfræðileg upplýsingakerfi, kort og landfræðilega greiningu. 

Efni: Kynning á landfræðilegum upplýsingakerfum og landfræðilegum gögnum. Gerð landakorta og þematískra korta. Notuð verða vektor gögn og rasta gögn. Farið verður í val eftir eigindum og staðsetningu, og gerð kortalaga út frá vali. Kennd verða tengsl við töflugögn og landfræðileg tengsl. Æfðar verða fjölbreyttar aðgerðir með kortalög, t.d. klippa, sameina, flytja gögn á milli laga, auk teikningar og gerðar nýrra kortalaga. Tenging loftmynda við kortalög verður kennd. Sýnd verður tenging gagna með GPS hnitum við landakort. Kynnt verður landfræðileg greining gagna. Áhersla er á að stuðla að þroska nemenda við að velja innihald korta, aðgerðir og greiningartæki, hanna kort og túlka kort með texta. 

Kennsluhættir: Nemendur kynnast og fá þjálfun í algengri hagnýtri notkun landfræðilegra upplýsingakerfa í verklegum kennslutímum í tölvustofu, við vinnu heimaverkefna og gerð lokaverkefnis byggðum á raunverulegum gögnum. Verkefni eru hönnuð til að hvetja til þroska nemenda í vali korta, innihalds og greiningartækni auk túlkunar korta.

X

Eldur og ís – náttúruöflin, nám og upplifun (TÓS003M)

Kynnningarsíða námskeiðsins

Á námskeiðinu er lögð áhersla á beina reynslu af náttúru Íslands og umfjöllun um náttúruvísindi með áherslu á eldfjalla- og jöklafræði; eld og ís.  Námskeiðið hentar þeim sem skipuleggja náms- og vettvangsferðir í íslenska náttúru, s.s. þá sem starfa eða stefna á störf í skóla, á vettvangi frístunda eða ferðaþjónustu.  

Aðstæður verða bæði nýttar til að til að rýna í menntunarfræðihugtökin útimenntun, náttúrutúlkun, ævimenntun og starfendafræðslu og ferðamálafræðihugtökin fjallaferðamennska, loftlagsferðamennska, vísindaferðaþjónusta og félagsleg ferðaþjónusta. Samhæfð félagsleg viðbrögð við náttúruhamförum og öryggismál verða einnig tekin til umfjöllunar.

Vettvangur námsins eru gosstöðvarnar á Reykjanesi og Breiðamerkursandur í Vatnajökulsþjóðgarði, sem gefur kost á að setja í samhengi sjálfbæra sambúð manns og náttúru með sérstakri áherslu á eldgos, jökla, loftlagsbreytingar, veðuröfgar, náttúruhamfarir og náttúruvá.

Kjarni námskeiðsins er ferðalag í fjóra daga 18. - 21. júní. Farið verður í rútu, gist á farfuglaheimilum og ferðast gangandi um náttúru Íslands. Þátttakendur sjá að hluta til um að elda sjálfir sameiginlegan mat og þurfa að vera búnir til útivistar. Unnið er á ígrundandi hátt með skynjun og upplifanir, auk þess að njóta þess að ferðast um með hæglátum hætti um náttúruna. Undirbúningsfundur er í 3. júní kl. 16-18.

Meginþættir námskeiðsins tengjast náttúru, menntun og ferðamennsku og þessa þætti er nálgast með ábyrgum og öruggan hætti. Viðfangsefni námskeiðsins verða skoðuð út frá hugtökunum kvika (dýnamík), fjölbreytni (e. diversity), gagnvirkni (e. interactivity) og, síðast en ekki síst, ferlar (e. processes) – og hvernig reynsla og ígrundun fléttar þessa þætti saman.

Kennsla og nám

Þverfræðilegur hópur sérfræðinga og kennara kemur að námskeiðinu og áhersla er lögð á að fá til liðs við okkur fagfólk af svæðunum þar sem markviss innlegg, samtal, skynjun og ígrundun þátttakenda er í fókus. Lært er frá morgni til kvölds og unnið með óljós skil á milli þess sem er að kenna og læra, milli þess að læra af umhverfinu, öðru fólki og ferðalaginu sjálfu.

Í námsmati er rík áhersla lögð á að nemendur ígrundi upplifanir sínar og setji þær í samhengi við fræðileg viðfangsefni námskeiðsins og fyrri reynslu. Einnig munu nemendur vinna verkefni þar sem tengja á viðgangsefni námskeiðsins, eigin reynslu og þekkingu við starf á vettvangi. Sá vettvangur getur t.d. verið innan skóla- og frístundastarfs, félagsmála, ferðaþjónustu eða rannsókna. 

Námskeiðið er þróunarverkefni þeirra aðila sem að því koma, sem eru m.a. Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði og Framhaldsskóli Austur-Skaftafellssýslu.

X

Ævintýri, forysta og ígrundun: Undir berum himni (TÓS004M)

Kynningarvefur námskeiðsins

Áhersla er lögð á þverfaglega nálgun, samvinnu nemenda og kennara af ólíkum fræðasviðum. Vettvangur námsins er náttúra Íslands. Unnið með þrjú viðfangsefni þ.e. ígrundun, útilíf og sjálfbærni með áherslu á persónulegan- og faglega þroska þátttakenda.

Á námskeiðinu verður fjallað um tengsl manns og náttúru og ígrundun eigin upplifana. Kenndir verða og þjálfaðir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á þegar ferðast er gangandi um óbyggðir. Fjallað verður um hugmyndafræði útilífs (friluftsliv) og hún sett í samhengi við samtímann.

Skipulag verður:
Undirbúningsdagur xx. maí 2025 kl 16-18.

Sameiginlega dagsferð xx. maí kl 9:00-17:00 (gengið á Skeggja á Hengilssvæðinu). 

Ferðalag námskeiðsins er xx-xx. júní 2025 (fimmtudagur kl. 9 til sunnudags kl. 18). Farið verður út úr bænum, gist í tjöldum og ferðast gangandi um náttúru Íslands.

Nánari dagskrá kynnt xx. maí.
Ferðakostnaður er 12.000 kr. Auk þess greiða nemendur kostnað vegna fæðis.
Skyldumæting er í alla þætti námskeiðsins.

X

Staðartengd útimenntun (TÓS001M)

Kynningarvefur um námskeiðið

Á námskeiðinu ræður samfélag staðarins tilhögun námsins og við beitum reynslunámi þar sem nemendur upplifa „siglingar, strönd og arfleifð sjóferða“. Í staðartengdri útimenntun er unnið með námsferli sem grundvallað er á upplifun af sögum sem eiga rætur að rekja til ákveðins staðar; einstökum sögulegum staðreyndum, umhverfi, menningu, efnahag, bókmenntum og listum staðarins.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur upplifi staðinn með öllum sínum skynfærunum og öðlist þannig tengsl við staðinn sem verða grunnur að þekkingarleit.  Með því að tengjast staðnum og bregðast við honum þroska nemendur með sér dýpri skilning á einkennum staðarins, virðingu og vitund um hann. Gengið verður og siglt um undraheim staðarins, inn í fornar og nýjar sögur hans og nemendur velta fyrir sér framtíð staðarins.

Með þennan nýja skilning og viðmið að leiðarljósi munu nemendur kanna með fjölbreyttum hætti ýmis alþjóðleg vandamál, rétt umhverfisins, sjálfbærni og félagslegt réttlæti staðarins?

Nemendur eru hvattir til að beina sjónum sínum að samfélagi, sögum, menningu og hagsmunahópum og munu ýmsir sérfróðir aðilar taka þátt í kennslu á námskeiðinu ásamt kennurum. Nemendur upplifa staðartengda uppeldisfræði (e. pedagogy of place) bæði úti og inni að eigin raun og geta með því beitt henni í lífi og starfi.

Námskeiðið hefur verið þróað í samstarfi milli Háskóla Íslands og Outdoor Learning teymisins í Plymouth Marjon University í Bretlandi og er stutt af Siglingaklúbbnum Ými, Vatnasportmiðstöðinni Siglunesi, Sjóminjasafni Reykjavíkur og Sjávarklasanun.

Fæðis- og ferðakostnaður: 11.000 kr.

Vinnulag:

Námskeiðið byggir á virkri þátttök allra. Undirbúningsdagur er 26. júní kl. 16.30-18. Námskeiðið er dagana 7.-9. ágúst og 12.-14. 2024 og miðað er við kennslu allan daginn og við erum mjög mikið úti. 

Námskeiðið fer fram mikið úti. Stefnt er að því að fara á sjó, upplifa fjöru og strandlengju, kynnast nýjum hliðum á Reykjavík og fara í Viðey og jafnvel Gróttu.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Lilja Karen Kjartansdóttir
Unnar Lúðvík Björnsson
Lilja Karen Kjartansdóttir
Nemandi í ferðamálafræði

Eftir nokkra bakþanka ákvað ég að slá til og skrá mig í ferðamálafræði árið 2018 og sé svo sannarlega ekki eftir því. Þar sem störf í ferðaþjónustu eru fjölbreytt þá er námið gríðarlega þverfaglegt og ætti að koma inn á áhugasvið flestra. Með þessari þverfaglegu þekkingu hef ég myndað meiri og dýpri þekkingu á ferðaþjónustu og ferðamönnum og tel mig tilbúna til að fara á atvinnumarkað að námi loknu. 
Ég vissi það þegar ég skráði mig í námið að ég kæmi ekki til með að taka virkan þátt í félagslífi deildarinnar, með ungt barn og nóg annað á minni könnu en ég hef þó farið á árshátíðirnar og próflokafögnuði og eignast frábæra vini fyrir lífstíð í gegnum háskólanámið. Ég veit að námið mun koma sér vel fyrir mig, hvað svo sem ég ákveð að verða þegar ég verð „stór“.

Unnar Lúðvík Björnsson
Nemandi í ferðamálafræði

Ég valdi ferðamálafræði því ég hef mikinn áhuga á útivist og hef starfað við ferðaþjónustu. Ég komst að því að ferðamálafræði snýr ekki einungis að ferðamálum heldur er námið mjög þverfaglegt og snertir á hinum ýmsum viðfangsefnum. Námið býður upp á fjölbreytta starfsmöguleika í framtíðinni og nýtist námið einnig mjög vel í annað framhaldsnám. Ég hef tekið virkan þátt í félagslífinu enda er Fjallið eitt virkasta nemendafélagið í háskólanum og hefur það gert námið enn skemmtilegra.
Ég mæli hiklaust með því að kynna þér nám í ferðamálafræði.

Hafðu samband

Nemendaþjónusta VoN
s. 525 4466 - ​nemvon@hi.is

Opið virka daga frá 09:00-15:30

Einnig er hægt að hafa samband í gegnum netspjall hér á síðunni (í samræmi við þjónustutíma)

Tæknigarður - Dunhaga 5, 107 Reykjavík
Askja - Sturlugata 7, 102 Reykjavík

Fylgstu með Verkfræði- og náttúruvísindasviði:

"

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.