Skip to main content

Doktorsvörn í heilsueflingu: Sigrún Þorsteinsdóttir

Doktorsvörn í heilsueflingu: Sigrún Þorsteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. mars 2022 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Rannsókn á börnum með matvendni, með og án taugaþroskaraskana í tveimur þýðum: Fæðumiðuð íhlutun í skólaumhverfi með börnum og foreldrum, og börn í offitumeðferð

Streymi: https://livestream.com/hi/doktorsvornsigrunthorsteinsdottir 

Sigrún Þorsteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í heilsueflingu við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Háskóla Íslands:

Vörnin fer fram föstudaginn 18. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

  • Andmælendur eru dr. Edward Leigh Gibson prófessor við Roehampton háskólann í London og dr. Chantal Nederkoorn prófessor við Maastricht háskólann í Hollandi.
  • Aðalleiðbeinandi var dr. Anna Sigríður Ólafsdóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. Urður Njarðvík prófessor við sálfræðideild Háskóla Íslands.
  • Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Ragnar Bjarnason prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.           
  • Dr. Ársæll Arnarsson, forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, stjórnar athöfninni.

Öll velkomin.

Um verkefnið:

Matvendni og aðrar raskaðar fæðuvenjar eru algengar hjá ungum börnum, sér í lagi þeim sem einnig hafa taugaþroskaraskanir (TÞR) á borð við raskanir á einhverfurófi og athyglisbrest með ofvirkni (ADHD), en einnig kvíða og þunglyndi. Hjá flestum börnum dregur úr matvendni með hækkandi aldri, en síður hjá börnum með TÞR. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl á milli matvendni og offitu hjá börnum, þar sem fæðuvenjur eru mótaðar af umhverfi barnsins, erfðum og fjölskyldu, ekki síst foreldrum. Hollar fæðutegundir eru síður samþykktar en óhollar hjá börnum með offitu og aðrar raskani eins og TÞR, og því mikilvægt að öðlast dýpri skilning á fæðuvenjum þessara barna. Rannsóknir sýna einnig að erfitt er að fá matvönd börn almennt  ̶  en ekki síst börn með taugaþroskaraskanir að auki  ̶  til að samþykkja hollari fæðu­tegundir. Fæðumiðaðar íhlutanir fyrir börn með þessar raskanir eru af skornum skammti og oftast bundnar við börn með einhverfu eingöngu, eða þau sem ekki hafa TÞR, en ekki íhlutanir hjá börnum með og án TÞR (þar með talið ADHD). Þó að rannsóknir á matvendni hafi aukið þekkinguna svo um munar, er óheppilegt að engar fæðumiðaðar íhlutanir séu í boði sem henta foreldrum, og börnum án TÞR og einnig börnum með TÞR svo sem ADHD og einhverfu.

Einnig er mikilvægt er að hafa í huga að börn með fjölbreyttar raskanir endurspegla skóla án aðgreiningar. Þátttöka foreldra í fæðumiðuðum íhlutunum er einnig æskileg þar sem þeir leika lykilhlutverk í mótun fæðuvenja hjá börnum sínum og því mikilvægt að skoða betur tengsl fæðuvenja hjá börnum og foreldrum þeirra. Í þremur rannsóknum er kafað dýpra í matvendni barna frá ýmsum sjónarhornum. Í grein I eru niðurstöður forrannsóknar kynntar á börnum með offitu þar sem matvendni var algeng og sérstaklega hjá börnum með kvíða að auki. Niðurstöður sýndu einnig að börnin í þessu þýði samþykktu og höfnuðu bragði svipað því sem sjá má í öðrum rannsóknum.

Í grein II sem byggðist á skimunargögnum úr grein III voru skoðuð tengsl matvendni hjá foreldrum og börnum með og án TÞR. Niðurstöður sýndu að börn með TÞR samþykktu færri fæðutegundir og borðuðu óhollari fæðu oftar en börn án TÞR. Börn matvandra foreldra samþykktu færri fæðutegundir og borðuðu óhollari fæðu oftar en börn foreldra sem ekki voru matvandir. Í grein III sem einnig byggðist á gögnum úr þýði II skoðuðum við áhrif Bragðlaukaþjálfunar (Taste Edu­cation) sem var 7 vikna fæðumiðuð íhlutun með börnum og foreldrum þeirra. Niðurstöður sýndu betri árangur þ.e. minni matvendni hjá inngripshópi samanborið við viðmiðunarhóp og hélst árangurinn til 6 mánaða. Rannsóknin sýndi einnig auknar líkur á að samþykkja grænmeti, hnetur og fræ en ekki ávexti. Niðurstöður báru vitni um svipaðan árangur hjá börnum óháð TÞR. Gagnstætt því sem sjá má í flestum fæðumiðuðum íhlutunum mátti sjá þátttöku foreldra, barna með og án TÞR, og langtímaárangur hjá börnum óháð TÞR. Bragðlaukaþjálfun er einföld, mild aðferð til að draga úr matvendni og auka fæðufjölbreytni hjá börnum til langs tíma óháð TÞR. Greinarnar þrjár veita nýja og dýpri innsýn í matvendi og fæðuvenjur íslenskra barna með og án TÞR og foreldrum þeirra. Niðurstöður varpa ljósi á nánari þörf fyrir rannsóknir á matvendni, sér í lagi tengslum matvendni hjá börnum, út frá TÞR og foreldrum barnanna.

Um doktorsefni:

Sigrún Þorsteinsdóttir er fædd í Reykjavík þann 25. apríl 1974. Hún lauk BA-prófi í Grafík frá Listaháskóla Íslands árið 1998 og BS-prófi í sálfræði frá sálfræðideild Háskóla Íslands 2001. Sigrún lauk einnig MA-gráðu í hönnun fyrir gagnvirka miðla frá University of Westminster, Bretlandi árið 2003, MSc-prófi í heilsusálfræði frá sama skóla árið 2013 og cand.psych.-prófi í klínískri sálfræði frá sálfræðideild árið 2015. Frá 2015 hefur Sigrún starfað við Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins en einnig hefur hún frá árinu 2004 starfað sem sérfræðingur hjá SJÁ ehf. í aðgengi fatlaðra notenda að rafrænum miðlum. Frá 2018 hefur hún lagt stund á doktorsnám við Háskóla Íslands ásamt því að sinna stundakennslu í ýmsum námskeiðum. Faðir Sigrúnar er Þorsteinn H. Vilhjálmsson og móðir hennar heitin Sólveig S. Finnsdóttir. Sigrún er gift Jóhannesi Erni Erlingssyni og eiga þau börnin Emblu Hlökk 12 ára og Nökkva Styr 10 ára.

Sigrún Þorsteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í heilsueflingu við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Háskóla Íslands: Vörnin fer fram föstudaginn 18. mars kl. 13.00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Doktorsvörn í heilsueflingu: Sigrún Þorsteinsdóttir