Reglur um úthlutun ferðastyrkja til doktorsnema á Heilbrigðisvísindasviði | Háskóli Íslands Skip to main content

Reglur um úthlutun ferðastyrkja til doktorsnema á Heilbrigðisvísindasviði

 1. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands (HVS) veitir tvennskonar ferðastyrki, fullan ferðastyrk og viðbótarferðastyrk. Upphæð hvors styrks og heildarupphæð styrkja er ákveðinn af stjórn HVS.
 2. Styrkþegi skal vera skráður í doktorsnám við HVS og verður að hafa sinnt árlegri skráningu hjá nemendaskrá (á að eiga sér stað í mars ár hvert). Þeir sem eiga rétt á ferðastyrkjum úr Sáttmálasjóði HÍ eiga ekki rétt á ferðastyrk HVS.
 3. Nemandi sem sækir um ferðastyrk vegna ráðstefnu erlendis verður að hafa framlag á henni, þ.e. erindi, veggspjald eða annars konar faglegt framlag.
 4. Nemandi sem sækir um ferðastyrk vegna námskeiðs eða sumarskóla erlendis verður að gera grein fyrir því hvernig þátttaka hans styður við doktorsnámið.
 5. Nemandi sem sækir um ferðastyrk skal hafa sótt um styrk úr ferðasjóði Rannsóknasjóðs HÍ fyrir doktorsnema vegna ferðar sem er styrkhæf skv. reglum um þá styrki en fengið höfnun og sótt um mögulega styrki annars staðar, s.s. hjá stéttarfélögum.
 6. Nemandi sem sækir um viðbótarferðastyrk vegna kostnaðar við ráðstefnu erlendis verður að hafa framlag á henni (erindi, veggspjald eða annars konar faglegt framlag), geta sýnt fram á kostnað við ferðina með framvísun reikninga og gera grein fyrir öðrum styrkjum sem veittir eru vegna ferðarinnar.
 7. Hægt er að sækja um styrk fyrir ferðum sem eru fyrirhugaðar og hafa verið farnar á almanaksárinu.
 8. Þátttaka í ráðstefnu með faglegu innleggi gengur fyrir námskeiðum og sumarskólum við forgangsröðun styrkja. Hægt verður að veita styrki fyrir námskeið eða sumarskóla sé fjárhagslegt ráðrúm til slíkrar styrkveitingar.
 9. Við frekari forgangsröðun styrkja verður litið til gæða ráðstefnu og í hverju þátttaka umsækjanda í ráðstefnunni er fólgin. Komi umsóknir um námskeið eða sumarskóla til álita verður einkum litið til gæða menntastofnunarinnar sem á í hlut og rökstuðnings nemanda um mikilvægi þátttökunnar fyrir doktorsnám sitt.
 10. Við val á styrkþegum njóta þeir forgangs sem ekki hafa áður hlotið ferðastyrk HVS eða styrk úr ferðasjóði Rannsóknarsjóðs HÍ fyrir doktorsnema.
 11. Þeir sem hafa tvisvar sinnum hlotið ferðastyrk HVS eða fimm sinnum ferðastyrk Rannsóknasjóðs HÍ og ferðastyrk HVS geta ekki vænst þess að fá framvegis ferðastyrk HVS nema sérstakar ástæður séu fyrir beiðninni.
 12. Ferðastyrk HVS er úthlutað tvisvar á á ári, í lok vormisseris og í upphafi haustmisseris, fyrir ferðir farnar á almanaksárinu.
 13. Umsóknir skulu berast fyrir miðjan maí og fyrir lok september.
 14. Vísindanefnd HVS afgreiðir formlega styrkumsóknir.
 15. Styrkur er greiddur út að jafnaði 2 vikum eftir að öll umbeðin gögn hafa borist HVS.
 16. HVS getur kallað eftir frekari gögnum um ferðina, svo sem afriti reikninga eða staðfestingu á flugi.

Nóvember 2019