Íslenska | Háskóli Íslands Skip to main content

Íslenska

Íslenska

BA gráða

. . .

Í námsgreininni íslensku er fengist við mál og bókmenntir á fjölbreyttan hátt. Fjallað er um íslenskt mál og bókmenntir í samtímanum en jafnframt er sagan rakin og grafist fyrir um rætur íslenskra bókmennta og uppruna íslenskrar tungu. Námið veitir haldgóða almenna menntun og hentar öllum sem hafa áhuga á að starfa á sviði menningar, miðlunar og íslenskra fræða í víðum skilningi. 

Um námið

Íslensku er hægt að taka sem aðalgrein til 180 eininga, aðalgrein til 120 eininga og aukagrein til 60 eininga.

Nánari upplýsingar um námið.

Inntökuskilyrði

Grunnnám

Íslenskt stúdentspróf eða sambærilegt próf frá erlendum skóla.

Sjáðu um hvað námið snýst

Umsagnir nemenda

Ösp Vilberg Baldursdóttir
Elínrós Þorkelsdóttir
Oddur Snorrason
Gunnlaugur Bjarnason
Ösp Vilberg Baldursdóttir
BA í íslensku

Rétt áður en ég lauk stúdentsprófi hvíslaði íslenskukennarinn minn því að mér hvort ég hefði skoðað Hugvísindasvið HÍ. Ég þakkaði henni fyrir hvatninguna en aðeins fyrir kurteisissakir, Hugvísindasvið kom ekki til greina. Hvatning kennarans hafði þó einhver áhrif á mig – í það minnsta nægilega mikil til þess að ég íhugaði málið. Fjölbreytileiki námsins heillaði mig og ég sló til. Íslenska er best geymda leyndarmál Háskóla Íslands.

Elínrós Þorkelsdóttir
Íslenskunám

Eftir mikla umhugsun ákvað ég að fara í íslensku við HÍ og hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Íslenskan hefur kennt mér svo margt, til dæmis hef ég fengið að skyggnast inn í fornar og nýjar bókmenntir og lært hvernig tungumálið okkar virkar. Fyrst og fremst hefur íslenskan þó opnað huga minn og aukið víðsýni mína. Ég mæli því hiklaust með íslenskunni – svo spillir heldur ekki fyrir að félagslífið er alveg frábært.

Oddur Snorrason
BA í íslensku

Þrátt fyrir að íslenskunemendur séu hver öðrum ólíkari er þetta náinn hópur. Það er dæmalaust að jafn ólíkt fólk geti blaðrað jafn mikið, dag eftir dag, um landsbyggðarmállýskur og eddukvæðin. Það er ekki hægt að ganga inn í Árnagarð án þess að lenda á spjalli. Nemendurnir hafa allir brennandi áhuga á faginu. Þeir eru annaðhvort helteknir af hljóðkerfisfræði eða ástríðufullir bókmenntafræðingar. Ég valdi íslenskuna af bókmenntaáhuga en nú er ég jafn hugfanginn af málfræðinni.

Gunnlaugur Bjarnason
BA í íslensku

Ég hafði ákveðna hugmynd um námið þegar ég skráði mig en strax á fyrsta skóladegi sá ég að hugmyndir mínar um íslensku náðu bara til lítils hluta námsins enda möguleikarnir sem manni bjóðast í náminu gífurlega margir. Eftir það var ekki aftur snúið og ekki skemmdi það fyrir hvað skemmtanalífið er frábært og kennararnir sömuleiðis.

Mynd að ofan 
Texti vinstra megin 

Starfsmöguleikar að loknu námi

Fólk með háskólamenntun í íslensku fæst við kennslu á öllum skólastigum og fræðistörf, m.a. á rannsóknastofnunum á sviði íslenskra fræða. Margir leggja fyrir sig ritstörf eða önnur störf á sviði menningar og lista, fjölmiðlun af ýmsu tagi og útgáfustörf (sem fréttamenn, blaðamenn, ritstjórar, málfarsráðgjafar, þýðendur, bókmenntarýnar o.s.frv.). Menntunin kemur að góðum notum í öllum störfum þar sem gott vald á íslensku máli og/eða þekking á íslenskum bókmenntum og málfræði er nauðsynleg.

Texti hægra megin 

Dæmi um starfsvettvang

  • Kennsla á öllum skólastigum.
  • Fræðastörf.
  • Fjölmiðlun.
  • Útgáfustörf.

Félagslíf

Félag íslenskunema, Mímir, stendur fyrir umfangsmiklu starfi. Félagið heldur árlegt Mímisþing þar sem nemendur flytja fræðileg erindi. Það gengst einnig fyrir bókmenntakynningum og annarri menningarstarfsemi. Auk þess heldur Mímir árshátíð, stendur fyrir haust- og vorferð, vísindaferðum í stofnanir og fyrirtæki og heldur árlegt kraptakvöld.

Samfélag nemenda á Hugvísindasviði.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs er staðsett á 3. hæð í Aðalbyggingu Háskólans við Sæmundargötu 2.

Skrifstofan er opin mánudaga til fimmtudaga frá kl 10:00–12:15 og 12:45–15:00 og á föstudögum frá kl 10:00–12:15 og lokað eftir hádegi. Hægt er að nálgast upplýsingar í síma 525 4400 eða með tölvupósti á netfangið hug@hi.is.

Nemendur við Hugvísindasvið geta einnig nýtt sér þjónustuborð í Gimli auk þess sem athygli er vakin á þjónustuborði Háskólans á Háskólatorgi.