Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. október 2021

10/2021
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2021, fimmtudaginn 7. október var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00. Fundurinn fór fram í Alþingishúsinu í tilefni af 110 ára afmæli Háskóla Íslands.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur Pétur Pálsson og Vigdís Jakobsdóttir. Einar Sveinbjörnsson tók þátt í fundinum með fjarfundabúnaði. Siv Friðleifsdóttir boðaði forföll og varamaður hennar sömuleiðis. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

Áður en gengið var til dagskrár gafst fulltrúum í háskólaráði tækifæri til að skoða húsakynni Alþingis undir leiðsögn, en Háskóli Íslands hafði aðsetur í þinghúsinu frá stofnun árið 1911 til ársins 1940.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og lýsti Jessý Rún Jónsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í meðferð dagskrárliðar 5. Einnig lýsti Ingibjörg Gunnarsdóttir sig vanhæfa til að taka þátt í afgreiðslu liðar 8d. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu.

a.    Frá endurskoðunarnefnd: Eftirfylgniskýrsla. Framkvæmd lausafjárstefnu um vörslufé Háskóla Íslands, sbr. samþykkt háskólaráðs 7. febrúar 2019.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir framlagðri eftirfylgniskýrslu endurskoðunarnefndar og tillögu nefndarinnar að lausafjárstefnu um vörslufé Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Ingunn og Ásthildur Margrét Otharsdóttir, formaður endurskoðunarnefndar, spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma.

b.    Fasteignir Háskóla Íslands ehf. Staða mála.
Guðmundur R., fulltrúi í stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf., greindi frá stöðu mála varðandi félagið. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur R. og Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem einnig situr í stjórninni, spurningum fulltrúa í háskólaráði.

c.    Hótel Saga.
Rektor og Guðmundur R. skýrðu frá stöðu mála varðandi möguleg afnot Háskóla Íslands af Hótel Sögu. Málið var rætt.

d.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Rektor og Guðmundur R. fóru yfir framvindu mála frá síðasta fundi varðandi mögulega tímasetningu viðgerða á byggingum Háskóla Íslands í kjölfar vatnstjóns sem varð í byrjun árs. Málið var rætt. Fram kom m.a. að skýrsla dómkvaddra matsmanna um umfang tjónsins sé væntanleg eigi síðar en 18. október nk.

Guðmundur R. vék af fundi.

3.    Niðurstöður ytra mats alþjóðlegs sérfræðingahóps á Háskóla Íslands, skv. áætlun Gæðaráðs háskóla (QEF2), sbr. fund ráðsins 6. maí sl.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar. Rektor gerði grein fyrir helstu niðurstöðum ytri matsskýrslu alþjóðlegs sérfræðingahóps um Háskóla Íslands sem gerð er í samræmi við áætlun Gæðaráðs íslenskra háskóla (QEF2). Í skýrslunni kemur fram að sérfræðingahópurinn lýsir trausti á gæðum námsumhverfis og prófgráða frá Háskóla Íslands. Þá er þar einnig getið tækifæra til úrbóta sem beint verður í farveg innleiðingar nýrrar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, HÍ26, sem er leiðarljósið í öllu gæðastarfi Háskólans. Málið var rætt.

4.    Stefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026, sbr. fund ráðsins 3. júní sl. Innleiðing og útfærsla.
Steinunn fór yfir hvernig staðið verður að innleiðingu og útfærslu nýrrar stefnu Háskóla Íslands, HÍ26. Málið var rætt og svöruðu Steinunn og rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.

5.    Erindi vegna skrásetningargjalds, sbr. fund ráðsins 2. september sl.
Jessý Rún vék af fundi undir þessum dagskrárlið. Inn á fundinn kom Áslaug Magnúsdóttir, lögfræðingur á rektorsskrifstofu, og fór yfir erindi nemanda vegna skrásetningarjalds og drög að ákvörðun háskólaráðs um það. Málið var rætt og svaraði Áslaug spurningum.
– Samþykkt einróma.

Isabel gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

„Undirrituð kýs með því að málið fari í þetta ferli því hún telur það eðlilegast, og er það ferli sem við bjuggumst við, ef svo mætti að orði komast. Undirrituð telur hins vegar að skýring og túlkun á hvað falli undir kennslu skv. a-lið 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 geti ekki aðeins byggt á sögulegri skýringu í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum sem nú eru fallin úr gildi. Sömuleiðis að kennslu skv. ákvæðinu þurfi að skýra til samræmis við lög og reglur, svo sem reglur Háskóla Íslands.

Isabel Alejandra Díaz“

Áslaug og Steinunn viku af fundi.

Fundarhlé.

6.    Niðurstöður viðhorfskannana meðal nemenda.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, Helgi Jónsson, verkefnisstjóri hjá stofnuninni og Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Guðbjörg Andrea og Helgi fóru yfir helstu niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar meðal nemenda um nám við Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu Guðbjörg Andrea, Helgi og Róbert spurningum ráðsmanna.

Guðbjörg Andrea, Helgi, Róbert og Einar Sveinbjörnsson viku af fundi.

7.    Endurskoðun matskerfis opinberra háskóla. Staða mála.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Gerðu þau grein fyrir stöðu mála og tímalínu vegna endurskoðunar matskerfis opinberra háskóla. Málið var rætt og svöruðu Guðbjörg Linda og Halldór spurningum.

8.    Bókfærð mál.
a.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2021-2022, sbr. fund ráðsins 2. september sl.
– Samþykkt.

b.    Starfsreglur háskólaráðs, sbr. fund ráðsins 2. september sl.
– Samþykkt.

c.    Viljayfirlýsing mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og Háskóla Íslands um æskulýðsrannsóknir, dags. 23. september 2021.
– Samþykkt.

d.    Tillaga til rektors Háskóla Íslands frá framkvæmdanefnd um uppbyggingu Heilbrigðisvísindasviðs á svæði NLSH.
– Samþykkt. Ingibjörg Gunnarsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

e.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á heiti Hjúkrunarfræðideildar í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild.
– Samþykkt.

f.    Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands eru Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild (aðalmaður), Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við Lagadeild (aðalmaður) og Trausti Fannar Valsson, dósent við Lagadeild (varamaður).

g.    Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
– Samþykkt. Óskað verður eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að Guðrún Dröfn Whitehead, lektor við Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild, taki sæti Terrys A. Gunnell, prófessors við sömu deild, út skipunartíma stjórnar, þ.e. til 30. júní 2022.

h.    Gjaldskrá Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

i.    Staðfestingarbréf stjórnenda ríkisaðila vegna ársreiknings 2020.
– Samþykkt.

j.    Tillaga um breytingu á fyrirkomulagi stærri aðstoðarkennarastyrkja.
– Samþykkt.

k.    Yfirlýsing um áhuga á samstarfi við Reykjavík Institute for Space, Sustainability and Environmental Research.
– Samþykkt.

l.    Starfsreglur sem gæðanefnd háskólaráðs hefur sett sér.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Dagatal Háskóla Íslands 2021-2022.
b.    Framgangsdómnefndir fræðasviða, sbr. fund ráðsins 3. júní sl.
c.    Funda- og starfsáætlun endurskoðunarnefndar háskólaráðs 2021-2022.
d.    Samningar Háskóla Íslands við Stúdentaráð Háskóla Íslands.
e.    Upplýsingafundur rektors 22. september 2021.
f.    Háskóli Íslands framarlega í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.
g.    Háskóli Íslands á fjórum fræðasviðum Times Higher Education.
h.    Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs.
i.    Háskóli Íslands innleiðir kerfi sem greiðir fyrir smitrakningu.
j.    Námsstjórn menntunar framhaldsskólakennara.

k.    „Háskólamenntun bætir lífskjör okkar allra“. Grein Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, og Isabel Alejandra Díaz, forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu 15. september 2021.
l.    Lars Lönnroth heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild.
m.    Samstarfssamningur félagsmálaráðuneytisins og Háskóla Íslands.
n.    Skýrsla um sumarnám við Háskóla Íslands 2021.
o.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 1. október 2021.
p.    Minnisblað rektors og forstjóra LSH um staðsetningu opinberrar tannlæknaþjónustu Tannlæknadeildar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og göngudeildar á Landspítala, dags. 22. september 2021.
q.    Framlengdur samstarfssamningur Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.