Samvinna um rannsóknir á velferð og viðhorfum barna og ungmenna | Háskóli Íslands Skip to main content
24. september 2021

Samvinna um rannsóknir á velferð og viðhorfum barna og ungmenna

Samvinna um rannsóknir á velferð og viðhorfum barna og ungmenna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Upplýsingum um velferð og viðhorf barna og ungmenna verður safnað með markvissum hætti og þær gerðar aðgengilegar svo þær nýtist betur við stefnumótun og eftirlit, erlendan samanburð og til að efla vísindastarf hér á landi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í viljayfirlýsingu um framkvæmd æskulýðsrannsókna sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs skólans, skrifuðu undir í gær.

Samkomulag þetta, sem gildir til ársins 2026, markar ákveðin tímamót því ólíkt fyrri íslenskum æskulýðsrannsóknum verður aukin áhersla lögð á greiningu upplýsinga frá ungu fólki sem er utan skóla og frá yngri nemendum í grunnskólum.

Ráðgert er að æskulýðsrannsóknin verði í fimm ára hringrás þar sem spurningalistakannanir eru lagðar fyrir nemendur í grunnskólum, framhaldsskólum og einstaklinga utan skóla á aldrinum 18-24 ára. Könnun verður lögð fyrir árlega en misjafnt verður eftir árum innan hringrásarinnar til hvaða hópa hún tekur, hversu viðamikil hún er og um hvað verður spurt en rannsóknin tekur m.a. til heilsu, lífskjara og vímuefnaneyslu barna og ungs fólks.  

Menntavísindasvið Háskóla Íslands mun fyrir hönd háskólans bera ábyrgð á framkvæmd verkefnisins en rekstur þess verður á höndum Menntavísindastofnunar á Menntavísindasviði. Gert er ráð fyrir að undirbúningur verkefnisins hefjist nú þegar með það fyrir augum að gagnaöflun geti hafist strax í haust.

Stefnt er að því að gögn frá æskulýðsrannsókninni verði aðgengileg samningshöfum eins fljótt og þau verða tilbúin en þau verða einnig aðgengileg í opnum aðgangi.

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar. Frá vinstri: Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Alfreðsdóttir og Jón Atli Benediktsson.