Skip to main content
16. september 2021

Háskóli Íslands á fjórum fræðasviðslistum Times Higher Education

Háskóli Íslands á fjórum fræðasviðslistum Times Higher Education - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í 151.-175. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda og í hópi 250 bestu á sviði raunvísinda samkvæmt nýjum listum tímaritsins Times Higher Education. Háskólinn er enn fremur í 250.-300. sæti á sviði sálfræði og í hópi 500 bestu innan klínískra heilbrigðisvísinda. Hann er jafnframt eini háskólinn á Íslandi sem kemst á þessa lista.

Tímaritið Times Higher Education hefur um árabil bæði birt lista yfir fremstu háskóla heims byggða á heildarframmistöðu þeirra og lista sem taka til afmarkaðra fræðasviða. Listarnir byggjast á mati á þrettán þáttum sem tengjast háskólastarfi, þar á meðal rannsóknum, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Við gerð lista á einstökum fræðasviðum er jafnframt horft til rannsókna- og birtingarhefða innan sviðanna.

Háskóli Íslands hefur verið á heildarlista Times Higher Education World University Rankings í heilan áratug, en tímaritið birti í dag fjóra lista sem snerta einstök fræðasvið. Alls komast yfir 1.500 háskólar frá nærri 100 löndum á einhvern listanna fjögurra en það undirstrikar styrk Háskóla Íslands að hann kemst á þá alla, einn íslenskra háskóla. Hann heldur enn fremur stöðu sinni á listunum á milli ára sem er fjarri því sjálfsagt í harðri samkeppni í alþjóðlegu vísindasamfélagi.

Mat Times Higher Education á fremstu háskólum heims á sviði lífvísinda tekur til jafn fjölbreyttra fræðasviða og líffræði, íþrótta- og heilsufræði, landbúnaðarvísinda og dýralæknisfræði. Sem fyrr segir er Háskólinn þar í hóp þeirra 175 bestu en alls eru 972 háskólar á listanum.

Frammistaða háskóla á sviði raunvísinda er metin út frá árangri þeirra í stærðfræði, tölfræði, eðlisfræði, stjarneðlisfræði og efnafræði en einnig jarðvísindum, umhverfisfræði og haffræði. Háskóli Íslands er í hópi 250 bestu í heiminum á þessum fræðasviðum samkvæmt Times Higher Education en alls eru 1.227 háskólar eru metnir að þessu sinni.

Listi Times Higher Education yfir bestu háskólana á sviði sálfræði tekur mið af frammistöðu þeirra á ólíkum sviðum sálfræðinnar, svo sem klínskrar sálfræði og menntunar-, íþrótta-, viðskipta- og dýrasálfræði. Sem fyrr segir er skólinn þar í sæti 251-300 af alls 568 skólum sem rýndir eru.

Til klínískra heilbrigðisvísinda (e. clinical, pre-clinical and health) teljast læknisfræði, tannlæknisfræði og aðrar heilsutengdar greinar og nær listi tímaritsins til 925 háskóla sem starfa á þessum sviðum. Háskóli Íslands er þar í hópi 500 bestu sem fyrr segir.

Listarnir fjórir staðfesta alhliða styrk Háskóla Íslands líkt og Shanghai-listar yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum vísinda- og fræðasviðum sem birtir voru fyrr í sumar. Háskóli Íslands komst á 14 lista ShanghaiRanking Consultancy og er m.a. í allra fremstu röð á sviði fjarkönnunar, í hópi þeirra 45 bestu á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði og í sæti 51-75 í hjúkrunarfræði. Listar Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy eru jafnan taldir áhrifamestu og virtustu matslistar heims á þessu sviði og Háskóli Íslands er einn íslenskra háskóla á þeim báðum.

Von er á fleiri listum Times Higher Education á afmörkuðum fræðasviðum síðar í haust. Þeir taka til verkfræði og tölvunarfræði, félagsvísinda, viðskiptafræða, hugvísinda, menntavísinda og lögfræði.

Fólk á ferð við Háskólatorg