Skip to main content
21. september 2021

Háskóli Íslands framarlega í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi 

Háskóli Íslands framarlega í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í hópi þeirra 25 háskóla teljast standa fremst á alþjóðavísu þegar kemur að erlendu samstarfi um birtingar rannsóknarniðurstaðna. Þetta sýnir nýr listi U-Multirank, óháðs vefvettvangs sem ber saman frammistöðu háskóla á ýmsum sviðum og á m.a. að aðstoða stúdenta að bera saman háskóla á alþjóðavettvangi. Skólinn hefur tvisar áður verið á listanum.

U-Multirank var stofnaður að frumkvæði Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og undir forystu sérfræðinga í málefnum æðri menntastofnana í Evrópu. Vettvangurinn hefur um árabil birt lista af þessu tagi og horfir m.a. til kennslu og náms innan háskóla, rannsókna, miðlunar þekkingar (e. knowlegde transfer), alþjóðlegra tengsla og áhrifa í héraði/samfélagi. Matið byggist m.a. á gögnum frá skólunum sjálfum, upplýsingum úr alþjóðlegum gagnabönkum og könnunum meðal yfir 100 þúsund stúdenta í þátttökuskólum.

Matinu er ætlað að gera stúdentum kleift að bera saman skóla innan tiltekinna landa, t.d. út frá tilteknum fræðasviðum eða tengslum við atvinnulíf og alþjóðasamfélagið, og styðja þá í að taka þannig ígrundaða ákvörðun um val á skóla og námi. Mat U-Multirank er því t.d. ólíkt mati Times Higher Educaton, sem nefnist World University Rankings, og Shanghai-listanum yfir bestu háskóla heims, en þess má geta að Háskólinn hefur komist á þá báða undanfarin ár. Alls nær útttekt U-Multirank í ár til nærri 2.000 háskóla í 96 löndum og hefur aldrei verið yfirgripsmeiri. Þannig tekur hún til 5.000 deilda og yfir 12.000 námsleiða á 30 fræðasviðum.  

Út frá matinu birtir vettangurinn enn fremur lista yfir skóla sem þykja standa framarlega á tilteknum sviðum, svokallaða „Topp 25 lista“. Þeir snerta m.a. starfsnámsmöguleika fyrir nemendur, endurmenntunarmöguleika fyrir atvinnulíf, fjölda einkaleyfa, rannsóknarvirkni starfsmanna, tilvitnana í rannsóknir, möguleika til skiptináms við og frá háskólanum, birtinga rannsóknarniðurstaðna í samstarfi við atvinnulíf og sams konar birtinga í samstarfi við erlendar vísindastofnanir. 

Það er á síðastnefnda listann sem Háskóli Íslands ratar nú í þriðja sinn en skólinn var þar einnig árin 2018 og 2019. Allir háskólar sem komast á listann birta yfir 75% vísindagreina í erlendu samstarfi og undirstrikar hann þannig afar sterk tengsl við alþjóðlegt vísindasamfélag. 

Lista U-Multirank yfir 25 fremstu háskólana á afmörkuðum sviðum má finna á vefsíðu vettvangsins.

 

""