Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. febrúar 2019

02/2019

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2019, fimmtudaginn 7. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Benedikt Traustason, Davíð Freyr Jónsson (varamaður fyrir Siv Friðleifsdóttur), Einar Sveinbjörnsson, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Ásthildi Margréti Otharsdóttur og Guðvarð Má Gunnlaugsson), Guðrún Geirsdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Ragna Árnadóttir og Ólafur Pétur Pálsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson. Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir var fjarstödd.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Rekstur Háskóla Íslands á liðnu ári. Staða mála.
Jenný Bára gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um rekstur Háskóla Íslands 2018. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna. Fram kom að rekstur Háskólans á liðnu ári var í jafnvægi. Gert er ráð fyrir að drög að ársreikningi liggi fyrir í lok febrúar.

b)    Breytt fyrirkomulag við ákvörðun um ráðningar, sbr. fund háskólaráðs 12. janúar 2017.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Samþykkt að leggja niður undanþágunefnd sem sett var á laggirnar í janúar 2017 og að taka í staðinn upp það verklag að formaður fjármálanefndar og ritari nefndarinnar fari yfir óskir forseta fræðasviða og miðlægra eininga um nýráðningar og meti hvort tilefni sé til að taka þær fyrir í fjármálanefnd áður en til afgreiðslu þeirra kemur.

    Guðmundur og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Stefna Háskóla Íslands, HÍ21. Staða mála.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar. Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum, ábendingum og tillögum skýrslu Ian Creagh, ráðgjafa og sérfræðings um málefni háskóla. Málið var rætt. Rektor fylgir málinu eftir.

Steinunn fór yfir stöðu mála varðandi innleiðingu stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.

Steinunn vék af fundi.

4.    Stjórnskipulag og stjórnsýsla Háskóla Íslands. Skýrsla Ómars H. Kristmundssonar, prófessors.
Inn á fundinn kom Ómar H. Kristmundsson, prófessor og aðalhöfundur skýrslu um stjórnskipulag og stjórnsýslu Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir skýrslunni. Málið var rætt og svaraði Ómar spurningum ráðsmanna. Rektor fylgir málinu eftir.

Ómar vék af fundi.

5.    Endurskoðunaráætlun og fjárhagsáætlun innri endurskoðanda fyrir árið 2019.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi og gerði grein fyrir framlagðri endurskoðunaráætlun og fjárhagsáætlun innri endurskoðanda fyrir árið 2019.
– Endurskoðunaráætlun og fjárhagsáætlun innri endurskoðanda fyrir árið 2019 samþykkt einróma.

Ingunn vék af fundi.

6.    Drög að svari háskólaráðs við bréfi umboðsmanns Alþingis, dags., 28. desember (móttekið 7. janúar sl.), er varðar erindi frá doktorsnema, sbr. einnig fund háskólaráðs 1. nóvember sl.
Inn á fundinn komu Björn Atli Davíðsson og Snædís Björt Agnarsdóttir, lögfræðingar á skrifstofu rektors, og gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um svar háskólaráðs við bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 28. desember sl. Málið var rætt.
– Rektor falið að svara bréfi umboðsmanns Alþingis á grundvelli þeirra raka sem reifuð eru á minnisblaðinu.

Björn Atli og Snædís Björt viku af fundi.

7.    Tillaga eftirfylgninefndar athugasemda og ábendinga innri endurskoðanda um gjaldeyrisreikninga og fjármunakostnað Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 6. desember 2018.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson og gerði grein fyrir tillögum eftirfylgninefndar athugasemda og ábendinga innri endurskoðanda um gjaldeyrisreikninga og fjármunakostnað Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Tillögur eftirfylgninefndar athugasemda og ábendinga innri endurskoðanda um gjaldeyrisreikninga og fjármunakostnað Háskóla Íslands samþykktar einróma.

Guðmundur vék af fundi.

8.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, og Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Fór Hilmar yfir helstu mál á döfinni á vettvangi Vísindagarða og gerði jafnframt grein fyrir framlögðum drögum að viðauka við samning, dags. 15. maí 2015, um meginskilmála um fyrirhugaða byggingu á viðskipta- og þjónustulóð, með fastanúmer 232-7930 og er hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands ehf., á milli Fasteignafélagsins Eyjólfs og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Málið var rætt og svaraði Hilmar Bragi fyrirspurnum ráðsmanna.
– Háskólaráð gerir ekki athugasemdir við efni viðaukans.

9.    Bókfærð mál.
a)    Frá Menntavísindasviði: Tillaga að breytingu á 117. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands vegna nýrrar námsbrautar í Deild faggreinakennslu við Menntavísindasvið.
    – Samþykkt.

b)    Frá Menntavísindasviði: Beiðni um að skipta einni námsleið í tvær.
– Samþykkt.

c)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að reglum fyrir nýja stofnun á fræðasviðinu, Heilbrigðisvísindastofnun.
– Samþykkt.

d)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um nýtt nám í heilbrigðisgagnafræði.
– Samþykkt.

e)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Val á nemendum til náms í hjúkrunarfræði á grundvelli samkeppnisprófa.
– Samþykkt.

f)    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um nýja námsleið til BS-prófs í hjúkrunarfræði fyrir fólk með prófgráðu í annarri grein.
– Samþykkt.

g)    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 15. mgr. 86. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands um að viðbótardiplómanám í starfsendurhæfingu við Félagsráðgjafardeild verði 30e. í stað 60e.
– Samþykkt.

h)    Jafnlaunastefna Háskóla Íslands, lagfæring, sbr. fund háskólaráðs 18. október sl.
– Samþykkt.

i)    Bréf Yddu arkitekta, dags. 20. desember 2018, svar við því, dags. 11. janúar 2019, bréf Yddu arkitekta sem barst 31. janúar sl. og drög að svari.
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a)    Viðbrögð í kjölfar ábendinga innri endurskoðanda um fjármálastjórn fræðasviða, sbr. samþykkt háskólaráðs 7. júní 2018. Staða mála.
b)    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra, dags. 21. janúar 2019.
c)    Umsögn Háskóla Íslands, dags. 28. janúar 2019, um skýrslu starfshóps Reykjavíkurborgar og Strætó bs. U-reitur, þróun samgöngumiðstöðvar og nánasta umhverfis, þarfagreining og skipulag, desember 2018.
d)    Fréttabréf háskólavina, 7. tbl. 21. janúar 2019.
e)    Vísindamenn og doktorsnemar Háskóla Íslands fá nærri 50 rannsóknarstyrki.
f)    Sex fræðimenn Háskóla Íslands tilnefndir til verðlauna Hagþenkis.
g)    Þóra Ellen Þórhallsdóttir og samstarfsmenn hlutu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018.
h)    Hakkaþon haldið við Háskóla Íslands 2.-3. febrúar 2019.

i)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs febrúar 2019.
j)    Hægt að tilkynna áreitni og einelti með hnappi á Uglu.
k)    Glærur rektors frá upplýsingafundi fyrir starfsfólk Háskóla Íslands 6. febrúar 2019.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.