Vísindamenn og doktorsnemar fá nærri 50 rannsóknarstyrki | Háskóli Íslands Skip to main content
11. janúar 2019

Vísindamenn og doktorsnemar fá nærri 50 rannsóknarstyrki

""

Tveir af þremur öndvegisstyrkjum sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Íslands fyrir styrkárið 2019 koma í hlut fræðimanna við Háskóla Íslands og renna til verkefna sem snúa að rannsóknum á bindingu niturs fyrir áburðarframleiðslu og á lýðræðislegri stjórnarskrárgerð. Alls koma 48 rannsóknarstyrkir af 61, sem úthlutað var úr sjóðnum að þessu sinni, í hlut fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir.

Rannsóknasjóði Íslands, sem hýstur er hjá Rannís, bárust alls bárust 359 umsóknir um styrki að þessu sinni sem þýðir að 17% umsókna hlutu styrk. 

Hæstu styrkirnir sem Rannsóknasjóðurinn veitir eru svokallaðir öndvegisstyrkir og voru þrír slíkir veittir að þessu sinni. Tveir þeirra fóru til vísindamanna við Háskóla Íslands, þeirra Egils Skúlasonar, prófessors við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, til verkefnisins „Binding niturs við umhverfisaðstæður með kerfisbundinni hönnun á rafendahvötum“ og Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið, til verkefnisins „Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Tekist á um borgaraþátttöku, vald stofnana og sameiginleg gæði“.

Þrjátíu og einn verkefnisstyrkur var veittur að þessu sinni en umsóknir um slíka styrki voru alls 198. Af veittum styrkjum koma 22 í hlut starfsmanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana. Styrktar rannsóknir snerta afar fjölbreytt fræðasvið, þar á meðal eðlisfræði, jarðvísindi, efnafræði, líffræði, lífvísindi, ljósmóðurfræði, félagsfræði, sálfræði, heimspeki, málvísindi, bókmenntafræði og sagnfræði.

Þá veitir Rannsóknasjóður Íslands árlega rannsóknastöðustyrki til nýútskrifaðra doktora. Umsóknir um slíka styrki voru 70 í ár og hlutu 12 nýdoktarar styrki. Ellefu þeirra starfa við Háskóla Íslands og vinna m.a. að spennandi rannsóknum á sviði fornleifafræði, bókmenntafræði, eðlisfræði, næringarfræði, sjávarlíffræði, jarðvísinda, efnafræði, byggingarverkfræði og lífvísinda. 

Fimmtán doktorsnemar fá að þessu sinni styrk úr sjóðnum en þrettán þeirra vinna að doktorsverkefnum sínum við Háskóla Íslands. Doktorsnemarnir fást m.a. við rannsóknir á breytileika þorsk- og ufsaseiða og þróun bleikjuafbrigða á Íslandi, Njálu, Kvennalistanum, umhverfisbreytingum í Ísrael í fyrndinni, breytileika í gerð íslenska möttulstróksins, mati á gagnsemi háþróaðra gerviganglima og færni og aðstæðum einstaklinga í heimahúsum eftir heilaslag.

Yfirlit yfir styrkt verkefni úr Rannsóknasjóði Íslands má nálgast á vef Rannís.

Háskóli Íslands óskar styrkhöfum og samstarfsfólki þeirra innilega til hamingju með styrkina.
 

Aðalbygging Háskóla Íslands